Halló Akureyri

Í mannþrönginni sé ég Álftagerðisbróður ganga hjá. Það er ekki um að villast, ég er komin norður. Stoppa í vegasjoppu og kaupi kaffi handa mér og bóndanum. Velgjuvolgt fokdýrt Bragaskólp í pappamáli. Það er ekkert grín að vera ferðalangur á þjóðvegi eitt. Svo er verið að hnýta í erlenda ferðamenn fyrir að taka með sér kostinn að heiman! Keyrum fram hjá eyðilegum bóndabæ. Augnstungið steinhús.

Hér býr enginn lengur hugsa ég hnuggin.

Í túnfætinum standa yfirgefnar vinnuvélar, gamall grár Massey Fergusson og ryðgaður heyvagn svo eitthvað sé nefnt. Reyndar eru vélakirkjugarðar af þessu tagi svo algeng sjón þegar maður keyrir um landið að segja má að þeir séu orðnir nær órjúfanlegur hluti af landslaginu.

Mér verður hugsað til Keflavíkur. Þar tæmist óðum sú byggð er áður hýsti bandaríska herinn. Hvað á að gera við þennan draugabæ sem aldrei verður annað en gettó? Hver vill búa þar? Fer ekki best á að jafna hann við jörðu á kostnað Bandaríkjamanna sem og önnur mannvirki sem herinn hefur reist víða um landið? Sennilega er lítil von til þess, þetta verður látið grotna niður eins og annað öllum til óþurftar.

Á Ráðhústorginu standa yfir hátíðarhöld. Þjóðhátíðardagur Íslendinga.

Felix og Gunni skemmta börnunum. Er ekki kominn tími til að þeir fái orðu fyrir störf í þágu íslenskra barna?

Í sjoppu afgreiðir kornungt fólk og þar sitja líka inni fermingarbörn og drekka bjór. Barnabarinn á Akureyri.

Síðan koma Stuðmenn á svið. Fyrir framan mig í mannhafinu standa þrír ættliðir, afi, móðir og barnung stúlka. Þau taka undir með Stuðmönnum: "Manst'ekk'eftir mér? Mikið líturðu vel út beibí! Frábært hár"!

Ég fer á ball í Sjallanum með tengdaforeldrum mínum. Þeim er býsna brugðið. Nýtt dansspor hefur rutt sér til rúms hér norðan heiða, kannski víðar. Ég játa að ég hef ekki farið á ball árum saman þannig að kannski eru þessi tilþrif ekkert ný af nálinni. Ég kýs að kalla sporið klofbragð og mun nú reyna að lýsa því í rituðu máli sjálfri mér og lesendum til glöggvunar.

Kvenmaður tekur undir sig stökk og læsir fótunum um lendar og þjóhnappa karlmannsins. Karlinn grípur þétt um rasskinnar kvensunnar og skorðar hana á mjöðmum sér. Þar næst reigir daman sig afturábak með höfuðið niður í átt að dansgólfinu. Þar gefst henni tækifæri til að skoða dansfélagann og samkomuhúsið frá nýstárlegu sjónarhorni. Á hvolfi. Síðan rykkir karlmaðurinn kvenmannsbelgnum aftur upp og sporið endar í svakalegum hálskirtlasleik þar til bæði eru mett. Þetta er síðan endurtekið eftir þörfum og úthaldi.

Undir morgun í sólskini og blíðskaparveðri göngum við upp á hótel. Heldur sorglegt er um að litast á göngugötunni. Einhver hefur rifið upp flauelsblómin sem fylltu fyrr um kvöldið steyptu blómakerin sem götuna prýða. Blómin liggja hálshöggvin um allar trissur. Þetta líkist vígvelli. Hver ætli hafi verið svona reiður? Ætli viðkomandi hafi liðið betur á eftir?

Örleikrit sem gerist á göngugötunni á Akureyri.

(Sumarnótt. Mannvera kemur inn á götuna og staðnæmist)

Mannvera:

Það er meira fokkins frat

að fæðast norðanheiða.

Mig langar til að lemja gat

lúskra, hrinda, meiða.

(Mannveran reikar af stað og stansar við blómaker og starir í það um stund. Hún tekur til við að rífa blómin upp með rótum og kasta þeim í jörðina. Loks pissar hún yfir afraksturinn)

Mannvera:

Fósturjörð þú færð mitt hland.

Fljótt ég mun þér gleyma.

Nú er horfið Norðurland.

Nú á ég hvergi heima.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband