Orðuleikur um áramót

Um áramót finnst mörgum gaman að líta um öxl og rifja upp nýliðið ár. Þetta er tilefni í margt spjallið á mannamótum eitthvað fram eftir janúar. Dægrastytting á þeim árstíma sem dagurinn má vart styttri vera. Á orðið dægrastytting kannski eingöngu við á sumrin?

Ég verð nú að viðurkenna að þegar ég settist niður til að skrifa þennan pistil var ósköp fátt sem mér fannst skemmtilegt að minnast úr íslenskum fréttum frá liðnu ári. Árið heldur svona litlaust í minningunni ef frá er talin uppljóstrunin um hið kristilega betrunarhús Byrgið sem varð krassandi innlegg svona þegar hátíðin stóð sem hæst. Ekki síst vegna leikrænna tilburða hirtingameistarans Guðmundar forstöðumanns í skandínavísku heimavídeói eftir hann sjálfan. Óvenjuleg uppákoma úr ríkisstyrktum herbúðum Drottins.

Vert er að minnast framgöngu Ómars Ragnarssonar, hins eiginlega landvættar, sem barðist af einurð fyrir verndun náttúruperlunnar Kárahnjúka. Það er ríkidæmi fyrir þjóð að eiga slíkan mann.

En Ómar er ábyggilega búinn að fá fálkaorðuna og ekki er hún veitt sömu manneskjunni tvisvar að því er ég best veit.

Að vísu er orðan til í hækkandi virðingarstigum og til í dæminu að fólk sé umorðað og þurfi þá að skila inn óæðri orðu til að geta tekið við þeirri nýju.

Svo margir einstaklingar fá orðið orðuna á ári hverju að það hlýtur að þurfa að fara að endurorða suma orðuþega.

Og svo eru alltaf einhverjir orðum auknir.

En nú finnst kannski einhverjum ég vera harðorða en það er ekki að ástæðulausu því mér er orðu vant.

Að vísu fékk móðir mín sálug orðu sem ég stalst stundum til að bera við mig og fann þá jafnan nokkuð til mín þótt ekki væri vegna eigin verðleika.

Orður ganga reyndar ekki í arf – því þarf að breyta!

En skáldið Steingrímur Thorsteinsson kom eftirfarandi vísdómi í orð hér á árum áður:

Orður og titlar, úrelt þing

– eins og dæmin sanna –

notast oft sem uppfylling

í eyður verðleikanna.

Í lögum um fálkaorðuna segir m.a.:

"Stórmeistari (forseti) getur, að ráði orðunefndar, svipt hvern þann, sem hlotið hefur orðuna en síðar gerst sekur um misferli, rétti til að bera hana."

Hefur virkilega aldrei komið til þess þrátt fyrir ærin tilefni?

Einstaka menn hafa síðan hafnað viðtöku orðunnar og er málarinn Jóhannes S. Kjarval einn þeirra.

Mér finnst nú að hann hefði getað látið svo lítið að taka við orðunni þegar Reykjavíkurborg var búin að taka við ævistarfi hans að gjöf. Var orðan ekki kvittun fyrir meintri gjöf Kjarvals til handa Reykjavíkurborg?

Brottför bandaríska hersins og hinu nýfengna sjálfstæði landsins ber að fagna þó að við eigum eftir að hirða upp eftir Kanann sorpið um ókomna tíð.

Rétt fyrir áramót bar síðan hæst í erlendum fréttum opinbera aftöku Saddams Husseins. Ég minntist þess að dóttir mín eldri varð afar aum um árið er Saddam fannst í holu nokkurri og grátbað mig um að skjóta skjólshúsi yfir gamla manninn. Síendursýnd lúsaleit og tannskoðun á Saddam fengu tárin til að brjótast fram úr augunum á barninu.

Ég gat ekki orðið við þeirri bón hennar að hýsa karlinn um árið og varð að hryggja hana með því nú að hægt væri að fylgjast með aftöku hans í sjónvarpinu. Það gladdi mig að það skyldi vekja hjá henni furðu og óhug að opinberar aftökur tíðkuðust og væri jafnvel sjónvarpað um víða veröld.

Á nýársdag horfði ég síðan á áramótaskaupið á Netinu. Það fór um það eins og þegar ég fór í leikhúsferð með foreldrum mínum til Helsinki sem barn og horfði á finnskar leiksýningar kvöld eftir kvöld. Ég botnaði hvorki upp né niður í neinu sem þar fór fram ekki frekar en í skaupinu. Stökk ekki bros enda kannski fátt sem vakti kátínu á árinu sem var að líða.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband