Englar alheimsins ...

Ég þurfti að nýta mér þjónustu bráðamóttöku Landspítalans seint um kvöld vegna slæmsku í hálsi. Ég hef einu sinni þurft að fara á slíka móttöku í Suður-Evrópu og þar var allt ósköp svipað og hér, nema að þar völsuðu hænur út og inn um móttökuna. Svipað hvað? Draslið!

Móttaka sjúklinga á bráðamóttöku minnir helst á sjoppuna þar sem við unglingarnir héngum þegar ég var og hét og óx úr grasi í sjoppu í Háaleitishverfi. Samlokubréf, sælgætisbréf og gosfernur um öll borð og gólf. Tímaritsrifrildi liggja á tjá og tundri og maður má prísa sig sælan ef maður nær að finna einn áttunda úr grein í tímariti til lestrar.

Unglæknirinn sem tók á móti mér var svo þreytulegur að ég gat ekki stillt mig um að spyrja hverju sætti. Hann tjáði mér að hann væri á sinni þriðju næturvakt. Hann bar sig samt vel og sendi mig heim með uppáskrifaða lyfseðla fyrir sýklalyfjum og verkjatöflum. Þegar ég spurði stúlkuna í afgreiðslunni hvaða apótek væri nú með næturvakt sagði hún mér að það væri ekkert apótek opið að næturlagi. Ég hváði og það bergmáluðu í höfðinu á mér gamlar tilkynningar úr útvarpinu : Næturvarsla apótekanna er í...

Sú í afgreiðslunni sagði: Þetta var víst alltaf opið í gamla daga.

Í gamla daga? Hvað heldur manneskjan að ég sé? Hundrað ára?

Ég þurfti því að kalla aftur í unglækninn og sníkja út úr honum töflur fyrir nóttina. Sólarhring síðar fann ég sjálfa mig í sömu sporum á biðstofu bráðamóttökunnar. Ég hélt að ég væri að sjá ofsjónir þegar ég sá unglækninum bregða fyrir í glugganum. Mig langaði helst að hringja í landlækni og skamma hann fyrir hvernig farið væri með piltinn.

Eftir rúmlega tveggja stunda bið og ég veit ekki hvað ég sá mörgum vísað frá sem voru beðnir um að koma síðar, kom að mér. Ég var orðin svo örvita af verkjum að mér fannst ég helst standa við hlið himnaríkis þegar hurðin laukst upp og nafnið mitt var kallað upp. Ég hlaut inngöngu og féll í faðminn á hvítklæddri himneskri veru.

Í þetta sinn var ég lögð inn. Sú himneska, sem reyndist vera hjúkrunarfræðingur, skellti mér ofaní í rúm á gangi bráðamóttökunnar og breiddi yfir mig teppi. Einhverjar þreifingar voru um það að reyna að pota mér inn í einhverja kytru þarna á hæðinni en svo þröngt var skipað að jafnvel herbergi sem ber það virðulega heiti "Skol" var þéttskipað sjúkum.

Hjúkkan bjargfasta sagði því sposk:"Nei, látum hana bara liggja hér í bili, hún getur skrifað um okkur pistil!"

Já, það er margt athyglisvert á göngum Landspítalans. Ekki síst náttúrulega nálægðin við aðra sjúklinga. Það er bara haus við haus alstaðar sem hægt er að koma fólki niður. Maður kemst ekki hjá því að vera algjörlega inni í líðan, díagnósu og lyfjagjöf þeirra sem maður deilir með gangi.

Og erillinn og vinnuálagið á starfsfólkinu. En það vantar ekki elskulegheitin og færnina þrátt fyrir álagið á þessu fáliðaða starfsfólki. Og þetta fólk er allt á skítalaunum, líka þeir sprenglærðu hjúkrunarfræðingar sem þar starfa.

Þennan umrædda dag sem ég var þarna voru volgar þær fréttir að dönskum starfssystrum þeirra stæði til boða að koma til Íslands og starfa við hlið þeirra íslensku á talsvert hærri launum ásamt ýmsum fríðindum. Þvílík hrópleg móðgun við þessar frábæru konur. Enda höfðu þá þegar nokkrir íslenskir hjúkrunarfræðingar sagt upp störfum. Afskaplega skiljanlegt.

Ég lá á HNE-deildinni í nokkra daga í morfínmóki og miklu yfirlæti. Færir læknar og ekki síðri hjúkrunarfræðingar. Dásamlega elskulegt fólk á hvítum sloppum. Englar í mannsmynd. Ef þið hafið verið að velkjast í vafa um hvar himnaríki er að finna þá skal það hér með staðfest að það er að finna í faðmi starfsfólks gamla Borgarspítalans í Fossvogi.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband