Til þeirra sem reykja ...

Ég er hætt að reykja. Og ég skal segja ykkur hvernig ég fór að því og deila með ykkur aðferðinni. Hún er einföld. Ég hætti bara.

En ákvörðunin var ekki tekin fyrr en ég var búin að vera í rúmlega 20 ára reykingaráþján. Ég veit ekki hvað varð til þess að ég gerði það af alvöru fyrst núna. Sennilega var ég bara búin að fá nóg af þessu stanslausa samviskubiti sem fylgdi þessu í seinni tíð. Svo ekki sé minnst á óttann.

Óttann við að veikjast... og náttúrulega að drepast frá börnunum mínum fyrir aldur fram.

Ég hef nokkrum sinnum hætt að reykja áður en aldrei af neinni alvöru. Ég hef meira segja borgað fyrir námskeið sem áttu að kenna manni að hætta að reykja.

Reykingabindindið hefur alltaf staðið stutt...örfáar klukkustundir. Þá hef ég umsvifalaust byrjað að reykja aftur og þá í laumi fyrir vinum og fjölskyldumeðlimum.

Ég er nefnilega alvöru reykingamaður. Leiðist fólk sem gerir hlutina með hangandi hendi. Ekki einhver þykjustu sósíalreykingamaður. Talandi um sósíalreykingar...

Margir segjast aðeins reykja sósíalt. Hvaða bull er það? Nirflar sem lifa á sígarettusníkjum undir því yfirskyni að þeir reyki ekki? Ég hef haldið þeim þó nokkrum uppi um dagana.

Mér hefur hinsvegar alltaf þótt best að reykja ein og helst í laumi. Ég hef harðfullorðin staðið með annan fótinn í gluggasyllu og reykt með höfuðið út um gluggann til þess að það finnist ekki sígarettulykt í húsinu. Ég hef falið mig á bak við runna í skjóli myrkurs, farið í gönguferðir oft á dag...eitthvað sem ég geri aldrei...í því augnamiði að geta raðað ofan í mig sem flestum sígarettum á leiðinni til að seðja ódrepandi þörfina óséð.

Eitt af því sem haldið er að reykingafólki er ótti sem byggist á skipulögðum hræðsluáróðri. Okkur reykingamönnum er talin trú um að það sé svo óyfirstíganlega erfitt að hætta að við förum að trúa því að það sé í raun betri kostur að halda reykingunum bara áfram.

Og svo eru það allar stoðvörurnar sem fólki er ráðlagt að nota, vegna þess að það er miskunnarlaust búið að ljúga því að manni að þetta geti maður ekki hjálparlaust. Plástrar, úðar, tyggjó og geðlyf af ýmsum sortum svo eitthvað sé nefnt.

Ekki má gleymast að minnast á áhrifamestu lygina að það sé svo fitandi að hætta að reykja. Það er ekki vitund fitandi að hætta að reykja nema að maður fullnægi reykingaþörfinni með hömlulausu áti.

Þetta er ekkert annað en einn risa stór blekkingarleikur, svikamilla. Það er verið að hafa okkur öll að fíflum.

Það er gott að hafa eitt hugfast. Það er ekki eins erfitt að hætta ef maður getur vanið sig af þeirri viðteknu hugsun að það sé erfitt.

Ég var stórreykingamanneskja. Rúmlega pakki á dag. Það þýðir u.þ.b. eitthundrað fjörutíu og sex þúsund sígarettur á síðastliðnum 20 árum. Fráhvarfseinkennin eru óveruleg, jú auðvitað lætur líkaminn vita að hann vantar dópið sitt, því við reykingarmenn erum náttúrulega dópistar. En kvalafullt er það ekki. Fyrstu þrír dagarnir eru erfiðastir því þá er þörfin í nikótínið mest. En löngunin stendur aðeins yfir í nokkrar mínútur og þær þarf að yfirstíga.

Þetta er eins og þið vitið ekki ósvipað hungurtilfinningu, smávegis ófullnægjuhrollur sem líður furðu hratt hjá ef maður lætur ekki eftir sér að vorkenna sér heldur reynir að gleðjast yfir því að maður sé búin að sjá í gegnum reykingalygina og játa að þetta er ekki eins erfitt og maður hélt.

Ég er auðvitað ofurlítið leið, það fylgir. Dálítið eins og að missa afskaplega þreytandi uppáþrengjandi ættingja. Maður saknar hans samt smávegis, þið vitið. Af gömlum vana og skyldurækni. Annars tek ég þetta eins og aðrir fíklar einn dag í einu.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband