Skóli, kirkja og knattspyrna

Ég horfði í gær á merkilegan þátt frá þeirri frábæru sjónvarpsstöð HBO um skírlífi. Ég er grasekkja þessa dagana og því efnið hugstætt.

En þátturinn fjallaði ekki um grasekkjur heldur skírlífi innan kaþólsku kirkjunnar. Og umræðan fjallaði að stórum hluta um hvort krafan um afneitun og beislun holdlegra hvata væri heilbrigð og hvort afleiðingarnar væru stundum hreint skaðlegar.

Ég ætla ekki að tíunda þá skandala sem upp hafa komið á okkar tímum um kynferðislegt ofbeldi kirkjunnar þjóna og þá staðreynd að síðan á sjöunda áratug síðustu aldar hafa 300.000 manns yfirgefið kaþólsku kirkjuna vegna þess tvískinnungs sem þar hefur viðgengist í þessum efnum.

Í þættinum voru ítarleg viðtöl við fullorðna menn sem lýstu þeirri valdníðslu og ofbeldi sem þeir höfðu orðið fyrir á barnsaldri innan vébanda kirkjunnar.

Skárra er það nú uppeldið. Heldur betur átakanlegt.

En ég ætlaði alls ekki að tala um uppeldi innan kirkjunnar heldur uppeldi innan skóla. Á dögunum voru nokkrum nemendum í skóla dóttur minnar veitt verðlaun og það vakti athygli mína að það var ekki einungis fyrir frábæran námsárangur eða framúrskarandi hæfni í íþróttum heldur engu síður fyrir manngildi. Fyrir glaðværð og elskulegheit. Að vera gefandi í samstarfi við aðra. Að hafa jákvætt viðhorf til hlutanna og hafa til að bera eiginleika til að takast á við ný verkefni. Og þó eru þetta eiginleikar sem öllum í upphafi eru gefnir.

Þvílík hvatning til þeirra barna sem ná kannski aldrei frábærum einkunnum á blaði eða hafa ekki til að bera þá hörku og keppnislund sem börnum er ætlað að rækta til að skara fram úr í íþróttum. Því í íþróttum snýst allt óneitanlega um, hvað sem hver segir, að hafa andstæðinginn eða keppinautinn undir. Sigra. Eitthvað svo ömurlegt markmið í sjálfu sér.

Hér gengur allt út á fótbolta og það hefur gengið maður undir manns hönd að benda mér á það að ég verði að leyfa barninu að spila fótbolta. Eins og ég hafi bannað það. Það gekk svo langt að nágranni minn keyrði upp að mér um daginn og bauðst til að fara með barninu og galla það upp fyrir sportið því það mætti ekki seinna vera en að hún byrjaði að spila. Hann er fótboltaþjálfari og á stúlkubarn á svipuðum aldri sem að sjálfsögðu byrjaði að spila fótbolta í móðurkviði. Ef ekki nokkru fyrr.

Ég ræddi þetta við breska vinkonu mína sem hefur búið hér um árabil og alið upp sín börn og hún hvatti mig eindregið til þess að senda stelpuna í fótbolta. Af praktískum og félagslegum ástæðum. Í fyrsta lagi ef í ljós kemur að hún hefur hæfileika getur hún valið úr framhaldsskólum því þeir slá ekki fæti á móti góðum framherja. Svo er þetta líka ágætis forvarnarstarf. Meðan þau eru á vellinum gera þau svo sem ekkert af sér og það að vera hluti af heild eins og fótboltaliði auðveldar ungmennum að finna sig í þessu milljónaþjóðfélagi.

Eða eins og sú breska orðaði það: "Ameríkanar eiga ekkert nema íþróttir til að finna sig í þar sem þeir eru svo gjörsamlega úr tengslum við sína mannkynssögu, sem er auðvitað heldur lítilfjörleg ef litið er til dæmis til Breta."

Svo mörg voru þau orð. Eitthvað gleymdist enski boltinn í þessu samhengi.

Ekki ætla ég að standa í vegi fyrir því að barnið spili fótbolta ef hún vill. Og hver veit. Kannski á ég eftir að standa kolbrjáluð og öskrandi á áhorfendapöllunum innan tíðar.

Ég myndi fagna því þegar fram líða stundir að þurfa ekki að borga svimandi háar upphæðir fyrir framhaldsnámið hennar þó ég eigi nú allt eins von á því, ef við ílendumst hér í Bandaríkjunum.

Mannkostir verða seint taldir til keppnisíþrótta en væri úr vegi að gera þeim hærra undir höfði í því sem kallast nauðsynleg menntun barna?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband