Morðinginn og heilög Anna

Hér er komið haust. Og býsna ólíkt því hausti sem ég á að venjast. Heitir árstíðabundnir eyðimerkurvindar. Vindurinn sem ber hið virðulega nafn vindur heilagrar Önnu geisar um í Kaliforníu. En það er ekki næðingur sem fylgir henni Önnu heldur sjóðandi heitt rok sem engu eirir. Göturnar þaktar gulnuðum laufblöðum og maður má ekki leggja frá sér dagblað án þess að það beri sig út í næstu hús.

Fyrir stuttu geisuðu skógareldar og náðu á örfáum sólarhringum að svíða í sig gríðarlegt landsvæði. Til allrar lukku var fólk ekki í hættu en tuttugu þúsund hænur lágu í valnum. Einn missti ofan af sér húsnæði og ég má til með að segja ykkur frá viðtali sem birtist við hann í sjónvarpinu þar sem í baksýn mátti sjá húsið hans brenna til kaldra kola. Maðurinn var auðvitað í gríðarlegu uppnámi og með tárvota hvarma að þurfa að sjá á eftir heimili sínu og aleigu með þessum hætti. Maðurinn er leikari og ég minnist þess ekki að hafa séð hann fyrr. Það er nú ekkert að marka því hér eru allir leikarar. Og samkeppnin er eftir því hörð. Blessaður maðurinn notaði tækifærið í þessari nýfundnu tveggja mínútu frægð að koma sjálfum sér á framfæri. Hann biðlaði í beinni til leikstjóra og framleiðanda að gefa sér tækifæri á sviði leiklistarinnar. "Ég er góður leikari, þið verðið að trúa mér," nánast hrópaði hann í linsuna. Ákaflega sérkennilegt áheyrnarpróf það. En kannski svolítið lýsandi fyrir það stapp sem því fylgir að vera atvinnulaus leikari í kvikmyndaborginni.

En víkur nú sögunni að dýraríkinu. Ég sat og glápti á sjónvarpstöðina E um daginn og fylgdist af áfergju með lýsingum á lífi Hiltonerfingjans Parisar Hilton, sem er býsna fjarri því að vera jafn áhugaverð og samnefnd borg en stúlkan er oft fallega klædd.

Ég heyrði undarlegt skrjáf innan úr eldhúsinu og lækkaði samstundis í kvakinu í Paris litlu. Og aftur heyrði ég þetta undarlega hljóð. Það var eins og nokkurskonar kropp eða krafs. Ég æpti á bóndann. "Það er eitthvað lifandi í eldhússkápnum, viltu koma og drepa það!" "Hvaða vitleysa," var svarið sem ég fékk. Ég gaf mig ekki. "Viltu bara koma hérna og hlusta." Með þrefi fékk ég bóndann til að koma og hlusta eftir þessu með mér.

"Þetta er eitthvað stórt," sagði hann með hægð eftir að hann hafði sjálfur heyrt klórið og klóraði sér sjálfur í hausnum.

"Já, það fer ekkert á milli mála, þetta hlýtur að vera rotta! Og þú getur gleymt því að ég sofi hjá henni í nótt. Viltu drepa hana!"

Eftir nokkurt þref fórum við á Netið til að leita að meindýraeyði á næturvakt. Roy the Ratman eða rottumaðurinn Rúnar svaraði heldur syfjulega og sagðist skyldu koma fyrir 30 þúsund krónur og taka rottuna af lífi. Mér fannst það nú heldur hár prís til handa þessum leigumorðingja og afþakkaði pent.

Rats-R-us eða fyrirtækið "Við erum Rottur" var með þolanlegri prís á sínum útleigðu aftökum og morðinginn kvaðst koma innan stundar. Böðullinn mætti í stuttbuxum og ermalausum bol vopnaður tveimur rottugildrum, vasaljósi og stiga. Bóndinn ráðfærði sig við banann um stund.

"Nú borga ég 90.000 krónur til handa leigusala mínum í tryggingu fyrir að fá að halda smá hundkvikindi. Hvað finnst þér að ég eigi að rukka leigusalann fyrir að halda rottur fyrir hann?"

Rottubaninn hló og hóf störf. Hann þaulkannaði aðstæður og síðan kvað hann upp úrskurð. "Þær eru í risinu," sagði hann. "Þær hafa runnið á lyktina í brauðskápnum þar sem þið geymið vínarbrauðið og vilja komast þar inn til að gæða sér á góðgætinu. Þið ættuð að byrja á því að fjarlægja allt sætt úr skápnum."

Ég tek það fram að ég átti ekki þetta vínarbrauð enda í kvenlægu kalifornísku kolvetnisbanni.

"Ég set hér upp tvær gildrur í risinu," hélt rottubaninn áfram. "Af hverju tvær," spurði ég. "Af því þær ferðast yfirleitt í pörum." "Þetta eru kannski hjón," sagði ég og leit á kærastann."Viltu núna þyrma þeim," sagði bóndinn og brosti stríðnislega. Samkenndin stóð ekki lengi. Inní eilífðina með þær bölvaðar!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband