Dr. Dan og dópið

Við hlið mér situr kírópraktorinn Dr. Dan með ljóst hár og sterklega andlitsdrætti. Hann er í fótlaga skóm, klæddur í ljósgrænar kakíbuxur og stuttermaskyrtu. Dr. Dan er eins og persóna úr rauðu ástarsögunum og þar gæti honum verið lýst á eftirfarandi hátt:

"Dr. Dan gekk hægum en öruggum skrefum að rúmi frú Williams. Það fór skjálfti um líkama frú Williams þar sem hún lá ósjálfbjarga á stofu 3-A. Dr. Dan var sólbrúnn með perluhvítar tennur og sterkbyggða kjálka. Hann tók þéttingsfast í hönd frú Williams og hana sundlaði."

Ég er því miður ekki stödd í rauðri ástarsögu, ég er að horfa á röntgenmynd af hálsliðunum á mér. Ákaflega órómantískt. Hvað er að þessari mynd? spyr Dr. Dan og horfir rannsakandi á mig. Það er nú það, hugsa ég. Jú, þetta er svona röð af beinum, ekki ósvipað vel nöguðum lambahrygg. Eitthvað heldur þeim saman og allt myndar þetta einskonar sveigju.

Ef það stæði ekki í skýrslunni þinni að þú sért fædd 1969, þá hefði ég haldið að þetta væru hálsliðir í 75 ára gamalli konu. Er maðurinn ekki að grínast! Skyndilega líður mér eins og ég sé hreinlega að skilja við. Þetta var ekki það sem ég vildi heyra og síst hér í borg æskunnar, Hollywood, þar sem konur eldri en 25 ára eru taldar löggild gamalmenni.

Ég er 35 ára gömul kona með 75 ára gamla hálsliði. Þetta er sennilega skýringin á því að mig langar að fara á orkídeu-sýningu. Kom sjálfri mér á óvart þar sem ég las blöðin og var gripin ósegjanlegri þrá að komast á blómasýningu. Ég er bara að eldast svona hratt. Ætti að drífa mig með hálsliðina áður en það er hreinlega um seinan. Dr. Dan heldur áfram: "Færðu oft höfuðverki?" Já, reyndar, en ekkert slæma, ég tek bara verkjatöflu og þá er ég góð. Hvað hefurðu haft höfuðverki lengi? spyr hann næst. Ég verð að viðurkenna að þeir hafa nú fylgt mér frá því að ég man eftir mér. Fer aldrei út úr húsi án þess að hafa gott apótek í farteskinu. Hvað tekurðu verkjalyf oft í viku? spyr hann þvínæst. Kannski svona þrisvar í viku, segi ég. Finnst þér það eðlilegt? spyr hann alvarlega. Ég yppti öxlum eins og bjáni. Þar fékk ég það staðfest, ég er höfuðverkjasjúklingur og dópisti, hef bara aldrei viljað viðurkenna það. Þar á ofan hefur mér ætíð leiðst fólk sem talar um veikindi og krankleika, þannig að ég hef aldrei nennt að leita mér aðstoðar út af þessu. Fannst þessir verkir heldur ómerkilegir og er hreinlega orðin vön þeim. Svolítið bara eins og þreytandi manneskja sem maður neyðist til að hitta af og til.

Hver hefur sinn djöful að draga og tvær parkódíntöflur hafa dugað mér. Í gegnum hugann fljúga óteljandi blaðagreinar sem ég hef séð og jafnvel lesið um skaðsemi óhóflegs verkjatöfluáts. Ég hef einhverra hluta vegna aldrei heimfært þetta upp á sjálfa mig. Hvers skonar sjálfsblekking er þetta eiginlega! Ég sættist á að hitta kírópraktorinn þrisvar í viku í fimm mánuði. Hann heitir því að með því að laga stöðu hálsliðanna muni hann losa mig við höfuðverkina og jafnframt ýmis ótímabær hrörnunareinkenni. En ábyrgðin er líka mín megin og ekki í töfluformi. Ég fæ æfingar sem ég verð að gera heima samviskusamlega. Ég fæ líka sérstakan kodda til að sofa á, til að laga líkamsstöðuna. Þegar ég leggst á hann í fyrsta sinn segir minn betri helmingur: "Gleymdirðu ekki prjónunum þínum, gamla mín?" Ég svara engu. Ég er ekki alveg búin að endurheimta skopskynið eftir fréttirnar um 75 ára gömlu hálsliðina.

Ég hitti Dr. Dan þrisvar í viku. Hann hengir lóð á höfuðið á mér og lætur mig dúsa með þau, alltaf lengur og lengur. Hnykkir mér til og frá. Núna tveimur mánuðum síðar er ég orðin laus við alla höfuðverki, og það sem mest er um vert: Ég er hætt í dópinu.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband