17.6.2007 | 22:56
Himnasængin...í 46 gráðum
Litla manneskjan vaknaði fyrir allar aldir og tók þá við brjóstagjöf...
nú er klukkan farin að ganga þrjú eftir hádegi og ég er enn að...
Með þessu áframhaldi verður þess ekki langt að bíða að ég geti vafið brjóstunum um hálsinn á mér eins og trefli ..nú eða gyrt þau ofaní stígvélin ef hér skyldi rigna.
Á því er lítil hætta því við erum í eyðimörkinni og hitinn (46) er ógurlegur.....til marks um það þá setti tengdamamma súkkulaðið í sólbað í gær og bræddi það á augabragði.
Við dæturnar ætlum að reyna að spæla egg á stéttinni seinna í dag!
Við tengdó leiddum saman hryssur okkar í gærkvöldi og buðum familíunni uppá eftirfarandi kræsingar.
Rífandi Risarækjur!
Spínat
mangó
avocado
ferskt kóríander
lime safi
sjávarsalt og svartur pipar
Risarækju hráar og pillaðar
Ólífuolía
hvítlaukur
grænt chilli
Fljótlegt og ferskt!
Skella spínati á stóran disk. Skera avocado og mangó niður í bita... setja í skál ..rífa lúku af kóríander útí.
hella yfir dassi af ólífuolíu og limesafa. Salt og Pipar. Blanda saman og setja yfir spínatið.
Hita ólífuolíu á pönnu og gylla hvítlaukssneiðar og niðurskorið chilli. Rækjurnar síðan steiktar þar til þær eru fallega bleikar. Örstutt á hvorri hlið.
Raða rækjunum eftir smekk ofaná salatið og gæða sér síðan á!
og síðan er það súkkulaði himnasæng...
Það er dýrðlegur eftirréttur og ég er að hugsa um að láta uppskriftina prýða legsteininn minn.
Grafskriftin yrði þá eftirfarandi:
Hér hvílir:
Súkkulaði Himnasæng handa Stórfjölskyldu!
Myljið 20 hafrakexkökur í mél og blandið saman við 80 gr af bræddu sméri. Setjið í botninn á fallegri skál og kælið í ísskáp.
leysið upp 250 gr sykurpúða í 4 mtsk af mjólk við vægan hita. Alls ekki láta sjóða!
bræðið 350 gr súkkulaði ...helst eitthvað gott eins og Valhrona eða Lindt 70% í vatnsbaði. Eða úti á stétt!
þeytið hálfan lítra af rjóma.
Blandið 2 mtsk af rótsterku expressókaffi út í sykurpúðamjólkina. Blandið súkkulaðinu bræddu saman við og að endingu þeyttum rjómanum.
hellið svo öllu saman yfir kexbotninn sem nú er kaldur úr ísskápnum og setjið aftur inn í ísskáp og kælið þar til himnasængin er orðin stíf í skálinni. Ca. 4 tíma.
Blessuð sé minning hennar
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.6.2007 | 16:55
Eyðimörkin kallar.
Ég er að leggja í ferð inní eyðimörkina. Þar er 40 stiga hiti um hábjartan daginn og vel hlýtt um nætur.
Á morgun 17.júní ætlum við að skrópa í þjóðhátíðarpartýi íslendinga sem haldið er hjá konsúlhjónunum.
Það eru reyndar oft skemmtileg partý og munum við missa af íslenskri pulsuveislu.
Í stað þess ætlum við að halda Feðradaginn... Dia del Padre hátíðlegan. Ég er að hugsa um að þéra þá Stefán og tengdapabba í tilefni dagsins. það er vandi!
Til greina kemur líka að hafa hugfast að 17. júní er alþjóðlegur dagur gegn landfoki og þurrkum í veröldinni og því tilvalið að gera það í eyðimerkurlandslagi.
Í framhaldi liggur svo beint við að óska Herdísi Þorvaldsdóttur innilega til hamingju með Grímuverðlaunin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.6.2007 | 21:08
Verðlaunakonan
Ég var að koma af skólaslitum í skóla dætra minna. þetta var þriggja tíma dagskrá á sal þar sem börnunum voru veitt verðlaun fyrir ágæta frammistöðu í skólanum.
þetta var óskaplega þreytandi eiginlega því það þurfti að mynda hvert barn hátt og lágt ásamt kennurum sínum og ég viðurkenni að ég hef takmarkaðan áhuga á börnum annarra hvað þá í öðrum bekkjum.
Foreldrarnir kepptust við að taka myndir af öllu sem fram fór og ég hálf skammaðist mín fyrir að taka bara myndir af eigin börnum.
En hjá Ameríkönum gengur allt út á ...Creating Memories!
Börnunum leiddist líka ógurlega sem gerði þessa samkomu afspyrnu erfiða fyrir alla...
þar til að...
veitt voru verðlaun til handa besta foreldrinu.
Þá var sussað niður í börnunum og nístandi keppnisandi sveif yfir vötnum....
verðlaunin féllu í skaut konu nokkurrar og var henni fagnað af viðstöddum.
Þó sá ég nokkrar kvensur stinga saman nefjum sem greinilega voru hreint ekki ánægðar með þessi úrslit.
Besta foreldrið var líka ákaft myndað og svo vildi til að þegar konan var að ganga niður af sviðinu var Stefán eitthvað að eiga við myndavélina og því hélt konan að Stefán vildi ná af henni mynd.
Hún stillti sér upp beint fyrir framan okkur og brosti breitt í allar áttir.
þetta var svolítið pínlegt svo ég hvatti Stefán til að smella af henni...annað hefði verið ótækt...hún var í svo mikilli sigurvímu. Eða hvað hefði ég átt að segja?
Nei! Við viljum ekki taka af þér mynd!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
15.6.2007 | 08:11
The bold and the beautiful!
því miður höfðu íslendingarnir sem tilnefndir voru ( Máni Svavarsson og Magnús Scheving) ekki erindi sem erfiði á Daytime Emmy verðlaunahátíðinni í kvöld. Sesame Street sópaði til sín verðlaunum eins og undanfarin ár. Sesame Street hafa fram til þessa dags fengið 108 Emmy styttur og finnst nú flestum nóg um.
En gleymum ekki að tilnefning til Emmu er mikill heiður! Og því fer ég fram á að lúðrasveit eða að minnsta kosti barnakór taki á móti Mána þegar hann snýr aftur til gamla landsins.
Svo á hann Máni afmæli í dag 15. júní. Hann er fertugur hann Máni...hann er fertugur í dag!
það sem kannski er markvert frá þessu kvöldi er að James Lipton fékk heiðursverðlaun fyrir ævistarf sitt.
Hann er stórmerkilegur karl og ég bendi fólki bara á að fletta honum upp.
Ég bý ekki yfir tæmandi vitneskju til að gera ævistarfi hans hér skil að gagni.
Ég er dyggur aðdáandi sjónvarpsþátta sem hann stýrir sem heita Inside the Actors Studio.
Oft og tíðum frábærir viðtalsþættir við leikara.
Aðalleikari sjónvarpsþáttanna Bold and the Beautiful bar fyrir innilegar kveðjur til aðdáenda sinna á Íslandi og er þeim hér með komið á framfæri. Hann lyktaði að sögn Stefáns eins og ilmkertaverksmiðja.
matseðill kvöldsins:
Tómatar mozzarella basil.....frekar boring
þrísteiktur kjúklingur....
súkkulaðimús.....hvað er að?
Meðan Stefán blandaði geði við amerískar sápustjörnur horfði ég á frábæra bíómynd heima í stofu.
Notes on a Scandal með Judi Dench og Cate Blanchett. Ótrúlega flottur leikur hjá Judi!
Kvöldið var sérlega vel heppnað því Stefán kom heim með Goodybag í boði Emmy fulla af snyrtivörum og kremum handa mér svo nú get ég opnað snyrtistofu eða líksmurningarþjónustu allt eftir því sem andinn blæs mér í brjóst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.6.2007 | 23:28
Emmy verðlaunin....Máni Svavars...
Klukkan hálf átta í kvöld byrjar Day-time Emmy verðlaunahátíðin...
Máni Svavarsson tónskáld sonur Svavars Gests og Ellýar Vilhjálms er tilnefndur fyrir tónlistina úr Latabæ sem og Jonathan Judge og Magnús Scheving fyrir leikstjórn sömu þátta.
Stefán var að skvetta á sig kölnarvatni og er að mjaka sér í smókinginn.
Nú er bara að vona að íslendingarnir fá einhver verðlaun.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
13.6.2007 | 22:45
landssöfnun fyrir nýjum hártoppi.
Litla manneskjan var bólusett í morgun. Hún tók því afar illa sem vonlegt er og það snögg fauk í mig.
Læknirinn hennar er með afar lélegan hártopp og langaði mig í augnablik að feykja honum af kolli hans en sá nú sem betur fer að mér og hugsaði að nær væri að fara fram á landssöfnum honum til handa svo að hann geti fjárfest í nýjum toppi.
En kannski er þetta ættargripur. Hver veit.
Sit á sundlaugarbakkanum og skemmti mér við það að fylgjast með tengdamömmu sem berst við svefninn. Hún er nefnilega að lesa nýjan íslenskan krimma sem hún tók með sér í sumarfríið og má bara ekki líta í hann þá sofnar hún. Hún ætlar að skilja hann eftir handa mér ef hún kemst einhvern tímann í gegnum hann. En með þessu áframhaldi er lítil von til þess.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
12.6.2007 | 09:06
Ég villtist inn á blogg...
Jóns Vals Jenssonar fyrir helbera slysni og ákvað í kjölfarið að endurbirta grein eftir sjálfa mig sem birtist í Mogganum fyrir einhverju síðan.
Getur einhver frelsað mig úr viðjum gagnkynhneigðar?
Það var býsna kostulegt að hlusta á viðureign þeirra Heimis Más Péturssonar skipuleggjanda Hinsegin daga og Jóns Vals Jenssonar guðfræðings s.l. mánudagskvöld. Umræðuefnið var fjarska óviðfeldin auglýsing sem birtist sl. laugardag á vegum hóps sem kallar sig Samvinnuhópur Kristinna Trúfélaga.
Auglýsing sem átti að varpa skugga á vel skipulagða dagskrá Hinsegin daga sem náðu hámarki sínu í fjölskrúðugri göngu þar sem fólk úr öllum þjóðfélagsstéttum með jafn ólíkar kynþarfir kom saman og fagnaði frelsi einstaklingsins á eftirminnilegan og litríkan hátt.
Fyrirsögn umræddrar auglýsingarinnar var orðrétt:,,Frjáls úr viðjum samkynhneigðar
Mér er spurn? Var hér á ferðinni auglýsing í umboði allra kristinna trúfélaga í landinu? Ef ekki þá hverra?
Því vítin eru til að varast þau. Það ættu þeir helst að vita sem trúa á himnaríki og helvíti.
Þann 20.01 2006 birtist í Morgunblaðinu yfirlýsing frá tuttugu trúfélögum og nítján einstaklingum sem ,,harma það brotthvarf kristinna siðferðisgilda sem ríkisstjórn Íslands sýni með frumvarpi til laga um réttarstöðu samkynhneigðra.
Greinina má finna í gagnasafni morgunblaðsins á vefnum www.mbl.is.
Þeir einstaklingar sem þar eru nafngreindir eiga það flestir sammerkt að vera háskólamenntað fólk. Eitthvað hefur menntunin farið forgörðum því fáfræðin skín úr yfirlýsingum þeirra sem þar tala.
Það er grunnt á fordómum gagnvart samkynhneigðum einstaklingum á Íslandi því eru birtingar á auglýsingum á borð við þessar eru sérlega varasamar. Og kannski er tvíbent að bjóða upp á umræður á borð við þetta í íslensku sjónvarpi.
Er viðeigandi að fólk fái að koma fram í fjölmiðlum og tjá mannfyrirlitningu sína með þessum hætti?
Helstu rök Jóns Vals voru þau að fjölmörg dæmi þess væru um að fólk hafi jafnvel lifað árum saman í gagnkynhneigðum samböndum, eignast börn en síðan snúist til samkynhneigðar jafnvel árum ef ekki áratugum síðar. Og hvað með það?
Viljum við sökum þrýstings í samfélaginu, fordóma og fáfræði að fólk lifi óhamingjusamt og gegn sinni meðfæddu kynhneigð í gagnkynhneigðum hjónaböndum. Betra er seint en aldrei.
Ekki virðist kirkjan geta bjargað þeim fjölmörgu gagnkynhneigðu hjónaböndum sem fara í vaskinn. Er ekki skilnaðartíðni á Íslandi með þeim hærri í heiminum?
Nú veit ég að það hljómar í eyru þeirra sem eru talsmenn Hommafrelsunnar eins og útúrsnúningur þegar ég spyr hvort þetta ágæta fólk geti ekki að sama skapi aðstoðað mig við að bæla hvatir mínar til hins kynsins og kennt mér að snúa kynhneigð minni alfarið til kvenna.
Margar af mínum ástkæru vinkonum yrðu ágætis makar. Gallinn er bara sá að ég hef aldrei orðið ástfangin af neinni þeirra þó að ég hafi notið samvista við þær með ýmsum hætti. Konur finnast mér til dæmis oftar fallegri en karlmenn. Því er kannski von um að ég geti fengið aðstoð við að frelsast úr viðjum gagnkynhneigðar því heldur vil ég tilheyra þeim stóra hópi samkynhneigðs fólks sem berst fyrir sjálfsögðum mannréttindum öllum til handa burtséð frá kynhneigð.
Því það er hart þurfa að sitja undir því að liggja undir grun um að vera gagnkynhneigð vera sem gengur fram í fáfræði og fordómum með biblíuna að vopni. Amen. Gaymen.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
12.6.2007 | 08:14
Vertu hjá mér Dísa? ljóð gærdagsins!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.6.2007 | 19:09
Með sautjánda júní í aftursætinu!
Þegar komið var til Vegas í nótt var búið að loka bankanum og þurftu því ferðalangarnir að bíða þar til hann opnaði að nýju klukkan sjö í morgun.
Blanca, Rene og Jose lögðu lausnargjaldið inn á reikning coyotans og fengu uppgefið heimilsfang á móteli nokkru þar sem þeim var sagt að Franklin og Dinora væru.
Jón Ármann keyrði þau á áfangastað og hann lýsti því í samtali við mig að þetta væri risastórt mótel með hundruðum herbergja. Hann fylgdist með þeim úr bílglugganumþar sem þau gengu til endurfunda við þau Franklin og Dinoru. Jón hafði af því áhyggjur að þau væru ekki með rétt herbergisnúmer því þau virtust ekki finna herbergið. Þau gengu ráðvillt á milli herbergja og bönkuðu upp á en höfðu ekki erindi sem erfiði.
Loksins hurfu þau inn í eitt herbergjanna og þá tók við bið hjá Jóni Ármanni á bílaplaninu. Hann sagði mér að það væru einhverjir kónar þarna á sveimi fyrir utan og hafði af því áhyggjur hversu lengi þau hefðu verið inni. Við ákváðum að ég skyldi freista þess að hringja í Blöncu til að komast að því hverju sætti.
Þetta samtal var ótrúlegt! Blanca svaraði fyrstu hringingu og hló og grét í senn. Hún var komin með drenginn sinn í fangið! Dinora í faðm eiginmanns síns!
En þau máttu ekki fara. þau fengu fyrirmæli um það að halda til á herberginu þar til það væri staðfest að peningarnir hefðu skilað sér með símgreiðslu inn á reikning í Mexíkó. þeim var sumsé haldið í gíslingu á herberginu í rúma þrjá klukkutíma ofaní kaupið.
Það var þungu fargi af mér létt þegar ég fékk loks símtal frá Blöncu og hún sagði mér að þau væru nú öll komin upp í bílinn til Jóns. Ég spurði Jón hvernig ástandið væri á gíslunum og hann svaraði að bragði:
þetta er bara eins og sautjándi júní ! Hér er hlegið, sagðar ferðasögur og talar hver í kapp við annan!
Ég bað Jón um að gera mér þann greiða að kaupa allt það ameríska ullabjakk sem barnið gæti í sig látið.
Hafðu engar áhyggjur...hann situr hérna aftur í og er orðinn grænn af sælgætisáti!
það þóttu mér góðar fréttir.
Ég heyrði aðeins lítillega í Dinoru systur Blöncu og hún sagði mér það að síðustu dagarnir hefðu verið hræðilega erfiðir. þeim var haldið matarlausum síðustu þrjá sólarhringa.
Það stendur allt til bóta. Í þessum orðum skrifuðum er Jón með þeim í amerískri vegasjoppu. þar fá allir að borða og svo verður keyrt í einum grænum hingað til LA.
Loksins er þessi mánaðarlanga martröð á enda.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
6.6.2007 | 10:28
meðan nóttin líður...
Nú er klukkan að ganga fjögur um nótt hérna megin álfunnar. Ég sem er löngu hætt að vaka um nætur get ekki sofið. Kannski kominn tími á smá öppdeit á ferðir Franklins.
Eins og áður sagði var búist við Franklin til LA um kvöldmatarleytið á sunnudag. Það gekk ekki eftir.
Á mánudag um hádegisbilið hringdi Blanca í mig og tjáði mér það skelfingu lostin að systir hennar hefði hringt í sig með þær fregnir að þau Franklin hefðu verið aðskilin kvöldinu áður.
Hún vissi ekkert hvar barnið var eða með hverjum. Systur hennar hafði verið lofað að hún fengi að hitta systurson sinn að kvöldi mánudags. Annað vissi hún ekki. Þetta var víst gert af öryggisástæðum svo auðveldara væri að flytja þau inn til Kalíforníu.
Um tíuleytið á mánudagskvöld hringdi síðan Dinora systir Blöncu og þá var Franklin kominn í leitirnar.
þau bjuggust þá við að koma til LA um nóttina þ.e. í gærnótt.
Í morgun hringir síðan einhver kóni í Blöncu. Þá er upphaflegi gripaflutningastjórinn horfinn af vettvangi og búin að koma Dinoru og Franklin í hendur annara.
Viðkomandi tjáir Blöncu að hann sé staddur í Las Vegas og hótar öllu illu nema til komi frekari peningagreiðsla. Allir fyrri samningar eru sumsé orðnir að engu.
Í kjölfarið upphófust ýmsar vílingar og dílingar. Glæponinn vildi fá greitt inn á reikning en það þótti ekki ráðlegt þar sem að ljóst þótti að ef að samningum yrði strax gengið myndi bara koma önnur fjárkrafa.
því var ákveðið að Blanca og Rene foreldrar Franklins ásamt Jose manni Dinoru myndu keyra til Vegas í þeirri von að leysa út þau Franklin og Dinoru gegn lausnargjaldi.
Jón Ármann Steinsson vinur okkar sem margir þekkja eflaust sem fréttaritara stöðvar tvö bauðst til að keyra þau til Vegas og var það þegið með þökkum. þau hittust hér öll um tíuleytið í kvöld og svo var lagt í hann. Elín dóttir mín kastaði bangsa niður af svölunum og bað Blöncu um að gefa Franklin bangsann þegar hún myndi hitta hann. Ég sá á eftir þeim niður götuna og svo hófst biðin.
Ég er búin að heyra í ferðalöngunum tvisvar sinnum í nótt og ferðin gengur vel. þau eru um það bil að keyra inn til Vegas núna...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.6.2007 | 19:18
Kynferðislegur lögaldur á Íslandi
Á Íslandi þykir enn ekki saknæmt að fólk hafi samræði við 14 ára gömul börn.
Á Íslandi þykir ekki saknæmt að vinahópar taki sig saman og hafi samræði við 14 ára gömul börn.
Það sannar þessi dómur.
Hvenær verður íslenskt samfélag komið á eitthvert plan þar sem borin er virðing fyrir réttindum barna til verndar?
Hvert einasta krummaskuð á Íslandi (að höfuðborgarsvæðinu meðtöldu) býr yfir skuggalegum leyndarmálum þar sem brotið er á börnum daglega í fleirum en einum skilningi.
Hvenær geta börn á Íslandi sagt óttalaust frá því að önnur manneskja hafi brotið á þeim?
Hvenær má búast við því að á Íslandi verði tekið á kynferðisbrotum af tepruleysi og festu?
Hvenær hættir það að vera skammarlegt að hafa verið misnotaður?
Hvað er að í samfélagi sem elur af sér einstaklinga sem hafa litla sjálfsvirðingu og láta bjóða sér svona framkomu sbr. stúlkuna í umræddri frétt?
Hvað er að í samfélagi sem elur upp einstaklinga sem bera enga virðingu fyrir öðrum sbr. drengina í umræddri frétt?
í stað þess að ræða hvað fór úrskeiðis í umræddu partý væri nær að ræða hvað fór úrskeiðis í uppeldi þessara barna og þá á ég ekki eingöngu við foreldra þeirra heldur samfélagið allt.
Í landi þar sem lítil sem engin virðing er borin fyrir börnum er ekki hægt að ætlast til að þau vaxi úr grasi sem ábyrgir einstaklingar með heilbrigða sjálfsmynd.
Hvenær hættir það að teljast eðlilegt á Íslandi að börn stundi kynlíf?
Fjórir piltar sýknaðir af ákæru fyrir kynferðisbrot | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
4.6.2007 | 21:01
Helgin í stuttu máli...
Franklin og co. eru enn ekki komin til LA. Bílstjórinn ákvað að þau skyldu bíða í rúman sólarhring á leiðinni og var þeim komið fyrir í einhverri íbúð á meðan. Hvar veit ég ekki. En nú er búist við þeim um kvöldmatarleytið og það vonandi gengur eftir.
Annars var helgin tíðindalítil. Skólaskemmtun í skóla barnanna minna. Stefán fórnaði sér ásamt kennurum í skólanum og lét sig hafa það að leyfa börnum að grýta Glanna með boltum þar til að hann féll ofan í vatnsbala. Ég hafði boðist til að koma fram sem Ásta Sóllilja en það virtist enginn hafa nokkurn áhuga á því að drekkja henni.
Börnin höfðu af þessu mikið yndi. Að niðurlægja Robbie Rotten og ekki síður kennarana sína. Skólastýran Mrs. Mastead sem er sennilega á sjötugsaldri lét sig hafa það að fara fyrst klædd í trúðabúning. Ég sé ekki marga skólastjóra fara í fötin hennar. Til þess tekur fólk sig of alvarlega.
Annars er stundum furðulegt að vera leikari
Allir leikarar þekkja það að vera beðnir um að leika við undarlegustu aðstæður.
Í boðum t.d. : Ertu ekki til í leika eitthvað fyrir okkur? Leiktu eitthvað! Bara eitthvað!
Ég hef aldrei vitað til þess að rafvirkjar séu t.d. beðnir um að taka í sundur útvörp í boðum.
Eða að leigubílstjórar sem eru ekki á vakt séu beðnir um að skutla fólki heim úr partýum.
Eða að læknar séu beðnir um að skera upp í veislum.
:Heyrðu hún Lísa frænka er eitthvað slæm í hnénu. Ert ekki til í að krukka aðeins í hana fyrst þú ert hérna? Viltu meira gin?
Svo sæta leikarar gjarnan ásökunum um að vera ekki þeir sjálfir og spurningar á borð við...
Ertu að leika núna? eða Hvaða karakter ertu núna? eru afar algengar.
Ég fæ gjarnan spurninguna : Hvernig er að vera gift Robbie Rotten? Er hann ekki alltaf að fíflast?
Og ég svara að bragði : jú það er algjört djók að vera gift honum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.6.2007 | 20:17
Franklin í Arizona
Ekki komu þau í nótt Franklin og Dinora móðursystir hans.
Blanca kom til mín í gærkvöldi og sat hjá okkur fram á kvöld. Maðurinn hennar Rene kom með og bað um eitthvað hjartastyrkjandi. Stebbi gaf honum viský og svo var sest niður að spjalla.
Þegar Rene kom til Bandaríkjanna fyrir rúmum sex árum síðan gekk Blanca með Franklin undir belti. þau höfðu samt hvorugt hugmynd um það þá. Hann hefur sumsé aldrei hitt drenginn sinn litla og sagðist vera kvíðinn að hitta hann.
Ég vona að hann verði sáttur við mig sagði Rene og skellti í sig snafsinum. Rene er líka hræddur um drenginn því hann sjálfur kom þessa sömu leið og Franklin nú. Þá sögu þarf að segja síðar....
Blanca sagði mér að þau Dinora og Franklin sem ferðuðust þrjár nætur gangandi í eyðimörkinni í fylgd tveggja vopnaðra mexíkana hefðu sætt árás þriðju nóttina. Ekki voru þar bandítar á ferð heldur mexíkanska lögreglan! Komu að þeim í myrkrinu öllum að óvörum og beindu að þeim byssum.
þau voru neydd til að láta af hendi allar föggur sínar fatnað, peninga og vistir og tóku meira að segja leikfang sem Franklin var með í höndunum traustataki! þeim tókst auðvitað að græta barnið og Dinora var alveg miður sín þegar hún talaði við systur sína í síma.
Mexíkanska leikfangalögreglan! Hvað í andskotanum er að fólki! Þetta er geðslegt yfirvald eða hitt þó heldur.
Gripaflutningastjórinn hringdi í morgun og sagði að það hefði ekki verið ráðlegt að keyra síðastliðna nótt en nú eru þau komin langleiðina í gegnum Arizona fylki. Mesta hættan liðin hjá þó landamæralögreglan í Arizona sé sífellt á höttunum eftir ólöglegum innflytjendum og nýti sér óspart vald sitt til að snúa fólki við.
þau eru í felum í bílnum undir teppum og einhverju dralsi og nú heldur bílstjórinn að þau verði komin til Kalíforníu innan fárra tíma og í friðhelgi að minnsta kosti um sinn. Mér skilst að um leið og þau eru komin fáeinar mílur inn í Kalíforníu megi ekki lengur vísa þeim til baka. Nú bíðum við bara og vonum að þau skili sér í dag eða í nótt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
2.6.2007 | 00:45
Loksins fréttir af Franklin
Blanca fékk loksins símtal áðan frá manninum sem tók að sér að flytja son hennar og systur til LA.
Hann er komin með þau aftur upp í bílinn og því gangan á enda. Hann bjóst við að komast til LA um fjögurleytið í nótt. Ég vona bara að það gangi eftir! Franklin var búinn að fá að drekka og borða og svaf vært.
Karlfuglinn sem er búin að fá ríflega greitt fyrir þessa svaðilför, heimtaði að fá greidda fimmhundruð dollara til viðbótar...afhendingargjald....þvílíkt og annað eins.
Læt vita um framhaldið. Ég sagði Blönku að það væri fullt af fólki að hugsa til hennar á Íslandi...það fannst henni fyndið og þakkar fyrir hlýjar kveðjur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.6.2007 | 19:47
Bréf til mín vegna skrifa um Franklin
Mér barst bréf frá Helgu Sverrisdóttur og hún gaf mér leyfi til að birta það hér á blogginu.
>> Sael Steinunn Olina,
>>
>> Eg er i doktorsnami i stjornamalafraedi her i Cornell med innflytjendur
>> sem sersvid. Eg hef sed thad sem thu hefur skrifad um Franklin litla sem
>> er ad reyna ad komast yfir landamaerinn a blogginu thinu. Mig langadi
>> til thess ad segja ther fra thvi sem eg veit um thessi mal.
>>
>> Thad er skelfilegt astandid vid landamaeri Bandarikjanna og Mexico. Thad
>> er med algjoerum olikindum ad thad se latid vidgangast ad folk haetti
>> lifi sinu med thessum haetti vid thad ad fara yfir thau. Thetta var ekki
>> svona fyrir ca 20 arum. Tha var haegt ad fara mun vidar yfir landamaerin og
>> thad var ekki oalgengt ad folk sem vann her faeri regulega "heim" i fri.
>> Operation Gatekeeper i kringum 1990 vard hinsvegar til thess ad erfidara
>> og haettulegra er ad komast yfir landamaerin. Nu er svo komid ad adeins
>> er haegt ad fara yfir a oerfaum stoaedum, thad tekur lengri tima og svaedid
>> sem fara tharf yfir er mun haettulegra en adur var. Tviskynungurinn
>> felst svo i thvi ad thorfin fyrir vinnuafl innflytjenda hefur sist minnkad a
>> sama tima og adgerdir gegn innflytjendum hafa verid hertar til muna.
>>
>> I Altar i Mexico safnast yfirleitt their saman sem aetla i gegnum
>> eydimoerkina i Arizona. Hun er mjog haettuleg eins og naerri ma geta. Eg
>> skrifa thetta ekki til ad hraeda ykkur meira en ef barnid er ad fara
>> yfir verndarsvaedi indjana i Arizona er eg er hraedd um ad thad se meira en
>> einnar naetur ganga sem thad a i vaendum. Their sem rannsakad hafa
>> algengustu leidirnar tharna yfir tala yfirleitt um 2 -3 daga. Voandi er
>> hopurinn sem barnid er med i med nog af vatni og med fylgdarmenn sem sja
>> til thess ad allir i hopnum fylgist ad. Sumum er alveg sama hvad their
>> skila moergum a leidarenda, lita ekki einu sinni vid til ad athuga hvort
>> allir sem loegdu af stad seu enntha med.
>>
>> Sem betur fer eru hjalparsamtok ad storfum baedi i Altar og vid
>> landamaerin. Herna megin landamaerin eru hjalparsamtok sem setja vatn og
>> sko a serstaka stadi sem the cayotes vita af. Engin veit hversu moergum
>> thessi samtok hafa bjargad a undanfornum arum. Sem betur fer komast
>> margir klakklaust a leidarenda. Eg vona innilega ad thad verdi raunin nuna!
>>
>> Eg mun hugsa til Franklins og Bioncu og vona thad besta.
>>
>> Thakka ther fyrir ad vekja athygli a thessu mikilvaega (en oft gleymda!)
>> mali.
>>
>> Kvedja
>>
>> Helga
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.6.2007 | 17:13
Læknaklám 3.kafli
Í síðasta kafla Læknaklámsins æstust nú leikar og mér barst eftirfarandi komment frá Hlyni Þór Magnússyni
Guðbrandur - dýrlega rómantískt nafn! Er ekki líka eitthvað að frétta af ástaraunum Járngerðar Brynju sjúkraliða og Guttorms svæfingarlæknis?
Þessu er fljótsvarað. Jú, Hlynur. Nú er tímabært að kynna til sögunnar Þau Járngerði Brynju og Guttorm!
Á vakt-inni
3. kapítuli
Guðbrandur lokaði sig inni á skrifstofunni og hallaði sér upp að jukkunni sem hafði fylgt honum allar götur síðan hann bjó á stúdentagarði í Uppsölum. Það var einhver náttúru kraftur í þessari stæðilegu hitabeltisplöntu sem gaf honum þrek til að takast á við þær margslungnu raunir sem fylgdu vandasömu starfinu.
Hann var jú daglega með lífið sjálft í höndunum.
Stundum gat hann staðið tímunum saman og haldið utan um gildan bolinn. Hlaðið batteríin eins og hann orðaði það. Eftir erfiðar aðgerðir gat starfsfólkið gengið að því vísu hvar Guðbrand var að finna.
Vinnufélagar hans báru virðingu fyrir þessu háttalagi hans þó einstaka sinnum mætti heyra háðulegar glósur falla og þá einna helst frá starfsfólki af erlendum uppruna.
Guðbrandur lét það ekki á sig fá og skaut fólki iðulega skelk í bringu með því að svara því í gamansömum tón á móðurmáli þess. Guðbrandur var mikill málamaður og varla það tungumál til á jarðarkringlunni sem hann talaði ekki lýtalaust. Hann var jafn vígur á latnesku sem líbönsku.
Atvikið með Svanhvíti vék ekki úr huga Guðbrands. Ekki var um að villast því sjúkdómseinkennin voru augljós. Svanhvít þjáðist af Erotómaníu. Þessari sjaldgæfu ýmindunarveiki sem lýsir sér á þann hátt að undirmanneskja telur sér trú um að yfirmaður elski hana stjórnlaust jafnvel þó það sé algerlega tilhæfulaust.
Guðbrandur rifjaði upp afar erfitt tilfelli. Strætóbílstýruna Sigurlínu Þrastardóttur sem um árabil hélt því fram að yfirmaður Strætisvagna Reykjavíkur elskaði sig.
Það var ill gerlegt að gleyma sturluðu augnaráðinu eða því hvernig hún néri sífellt skiptimiða milli handa sinna.
Guðbrandur var í þungum þönkum þegar síminn hringdi.
Hann þekkti strax rödd Járngerðar Brynju sjúkraliða. Aldrei fyrr hafði hann kynnst jafn dimmrödduðum kvenmanni. Rödd hennar var glettilega lík röddu bæjarstjóra í nærliggjandi byggðarlagi.
Járngerður Brynja nýtti sér til hins ýtrasta þessa óvanalegu guðsgjöf og tróð hún jafnan upp í starfsmannahófum sem eftirherma.
Erindi Járngerðar Brynju var fyrirspurn um það hvort aldraði embættismaðurinn mætti nú fara að fá fasta fæðu því honum væri farið að leiðast sykurvatnið.
Guðbrandur fullvissaði Járngerði Brynju um það að viðkvæm líffæri aldraða embættismannsins ættu nú að þola þunnar súpur og grauta. Hann bað hana jafnframt að huga að verkakonunni ungu sem þurfti að hafast við á grúfu vegna aðgerðar fyrr um daginn.
Guðbrandi líkaði vel við Járngerði Brynju. Hún var fyrirtaks sjúkraliði og ekki skemmdi fyrir að hún bjó yfir töluverðum kyntöfrum. Þóttafullur baksvipurinn og baritónröddin gerðu það að verkum að fáir karlmenn gátu staðist hana.
Að samtalinu loknu gerði Guðbrandur sig líklegan til að halda heim á leið. Hann átti nú aðeins eftir að afhenda kvöldvaktinni lífsnauðsynlegar upplýsingar til að tryggja áframhaldandi bata sjúklinga sinna.
Hann var rétt búinn að loka á eftir sér þegar hann heyrði nafn sitt kallað. Í fyrstu var hann á báðum áttum hvort hann ætti að svara því gangurinn virtist mannlaus fyrir utan fjórar helsjúkar manneskjur sem sváfu í rúmum sínum. Guðbrandur gekk að einu rúminu og brá heldur betur í brún því þar lá Guttormur svæfingarlæknir fullklæddur undir drifhvítu líninu og svaf svefni hinna réttlátu.
Guttormur var fallegur maður það gat jafnvel Guðbrandur viðurkennt. Hann fann þó til með Guttormi því það var á allra vitorði að hann átti í erfiðleikum í einkalífinu. Gat verið að Guttormur hefði svæft sig til að geta um stund gleymt hjónabandsörðugleikum sínum?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
31.5.2007 | 18:26
Barn á næturgöngu
Í gær bárust okkur þær fréttir að Franklin litli sem er á ferðalagi með móðursystur sinni væri staddur í bænum Altar í Mexíkó sem er um rúmrar klukkustundar akstursfjarlægð frá bandarísku landamærunum.
Nú hefur hann gengið sex ára gamall tvær heilar nætur í eyðimörkinni og á sennilega einnar nætur göngu eftir.
Og það er víst engin skemmtiganga. Í fjalllendi og eyðimerkurnæturkulda.
Bílstjórinn sem tók að sér að flytja þau yfir til Bandaríkjanna og tók fúlgur fyrir hafði lofað að barnið þyrfti ekkert að ganga en þau loforð eru orðin að engu. Hann sá þó til þess að þau fengju vopnaða fylgd.
Tveir mexíkanskir kónar fylgja þeim um nætur því hætturnar eru á hverju strái.
Banditar leynast víða á leiðinni og konu og barni síst óhætt.
Algengt er að fólk sé rænt nauðsynjum svo sem eins og fatnaði og drykkjarvatni.
Að konum steðjar auðvitað sú hætta að vera misnotaðar og börn ganga kaupum og sölum. Börn eru eftirsóttur gjaldmiðill. Það er nóg til af fólki sem sækist eftir börnum í kynlífsþrælkun og svo eru innyflin úr þeim dýrmæt söluvara. En margir deyja einfaldlega úr þreytu og vatnsskorti.
Blanca móðir hans er að vonum skelfingu lostin og hefur þungar áhyggjur af syni sínum. Að sögn móðursystur hans sem heitir Dinora er hann ákaflega þreyttur orðinn og pirraður. Hvernig á lítið barn að þola svona líkamlegt álag?
Dinora er sjálf uppgefin og auk þess hrædd um sig og barnið. Frá því að þau lögðu upp frá El Salvador eru nú liðnir 25 dagar. Nú væntum við þess að hann komist yfir landamærin í nótt eða snemma á morgun. Ef allt gengur að óskum.
Hér að neðan er linkur inn á fréttabréf frá Unicef skrifað 24. mai s.l. ... fróðleg lesning og óhugguleg.
http://www.unicef.org/infobycountry/mexico_39786.html
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
31.5.2007 | 05:46
Death be not proud
Death, be not proud, though some have called thee
Mighty and dreadful, for thou art not so;
For those whom thou think'st thou dost overthrow,
Die not, poor Death, nor yet canst thou kill me.
From rest and sleep, which but thy pictures be,
Much pleasure; then from thee much more must flow,
And soonest our best men with thee do go,
Rest of their bones, and soul's delivery.
Thou art slave to fate, chance, kings, and desperate men,
And dost with poison, war, and sickness dwell;
And poppy or charms can make us sleep as well
And better than thy stroke; why swell'st thou then?
One short sleep past, we wake eternally,
And death shall be no more; Death, thou shalt die.
John Donne
(1572-1631)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
28.5.2007 | 23:42
Læknaklám 2. kafli
Í fyrsta kafla kynntumst við lítillega Guðbrandi lækni og Svanhvíti skurðhjúkrunnarkonu.
Mér var bent á af bloggsystur minni Evu Þorsteinsdóttur að betur mætti ef duga skyldi og því held ég áfram með ráðleggingar hennar að leiðarljósi.
Á vakt-inni.
2. kapítuli
Svanhvít skurðhjúkrunarkona gekk hröðum skrefum eftir ganginum og vatt sér inn í lín herbergið.
Skurðaðgerðin hafði heppnast vel og aldraði embættismaðurinn var nú á batavegi. Hann sat nú í rúmi sínu og sötraði sykurvatn í gegnum plaströr.
Svanhvít var hinsvegar sárþjáð. Hún gat ekki hætt að hugsa um Guðbrand hvernig sem hún reyndi.
Hún var nú gersamlega á valdi þessa færa skurðlæknis sem daglega bjargaði mannslífum jafn auðveldlega og að drekka vatn.
Svanhvít lokaði á eftir sér og á augabragði afklæddist hún og lagðist nakin á grænyrjóttan linoleumdúkinn.
Gæsahúðin hríslaðist um líkama hennar og hún velti sér nokkra hringi á ísköldu gólfinu.
Loksins gat hún hugsað skýrt. Átti hún að segja upp? Hversu lengi myndi hún halda út þessa návist við Guðbrand?
Klossasmellir starfsystra hennar sem þrömmuðu framhjá línherberginu glumdu í eyrum hennar og töfðu úrvinnslu hugsana hennar.
Í aðra röndina skammaðist hún sín fyrir óþreyjufullar langanir sínar í garð Guðbrandar.
Hún skammaðist sín óttalega og eitthvað sagði henni að hún þyrfti að bægja þessum löngunum frá sér með valdi. Línherbergið var hillulagt í hólf og gólf. Drifhvítur spítalafatnaðurinn lá samanbrotinn og beið þess að umfaðma nýinnskrifaða fársjúka einstaklinga sem þurftu á skjóli að halda í veikindum sínum.
Í efstu hillu ofan við sokkastaflana rak hún augun í snæriskefli sem bókstaflega hrópaði til hennar.
Þarna var lausnin komin.
Hún teygði sig eftir keflinu og byrjaði að vinda ofan af því. Hún bjó til lykkju á enda snærisins og brá henni utan um hillufót. Hún greip í flýti sokkapar og tróð því upp í munninn á sér.
Að því búnu vafði hún snærinu listilega um líkama sinn og hillufæturnar og að síðustu reyrði hún sig þar til hún gat sig hvergi hreyft.
Hún líktist helst Gúllíver í Putalandi þar sem hún lá stöguð niður á köldu gólfinu.
Órarnir helltust yfir hana og hún sá fyrir sér her dvergvaxinna karlmanna sem kepptust við að losa hana úr prísundinni.
þessar hugsanir voru svo magnþrungnar að Svanhvít missti meðvitund eitt augnablik.
Skyndilega var hurðinni hrundið upp og inn gekk Guðbrandur í allri sinni dýrð.
Á þeirri stundu hrundi veröld Svanhvítar.
Hvernig átti hún að útskýra það sem fyrir augu Guðbrandar bar?
Hún leitaði í orðabók síns aðþrengda huga en allt kom fyrir ekki.
Það var eins og tungumálið hefði verið hrifsað frá henni. Hún lá bara eins og flóttamaður í varnarleysi sínu landlaus og mállaus. Ekki bætti úr skák að sokkaparið fyllti enn munn hennar.
Guðbrandur af sinni alkunnu fagmennsku lét ekki á sér sjá að sér væri brugðið þrátt fyrir að þetta væru vissulega óvenjulegar kringumstæður. Svanhvít hafði réttri stundu áður staðið við hlið hans þar sem hann fjarlægði lófastóran fæðingarblett af baki ungrar verkakonu.
Guðbrandur læddi hendi í brjóstvasa sinn og tók upp gyllta öskju. Askjan var gjöf frá starfsfélögum hans. Í henni geymdi hann eftirlætis skurðhnífinn sinn. Þessi fínlegi hnífur veitti honum ótrúlegt sjálfsöryggi því með hárbeittu fínlegu blaðinu hafði hann endurtekið fjarlægt mein og meinvörp úr helsjúkum líkömum og fyrir vikið gefið fólki annað tækifæri til heilbrigðs lífs.
Þegjandi og hljóðalaust skar hann Svanhvíti lausa. Hann varaðist að mæta augnaráði hennar.
Þjáðist þessi elskulega samstarfskona virkilega svona hans vegna?
Guðbrandur vissi vel hvað hér var á ferðinni. Hann þekkti sjúkdómseinkennin allt of vel.
Svanhvít var því miður ekki fyrsta konan sem hafði sturlast af hans völdum.
.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)