Ísland gamla Ísland

Það var undurfagurt að fljúga frá Íslandi. Grænland í allri sinni dýrð. Hvít hrikaleg og stórskorin skella í bláu hafinu. Úr sætinu mínu sáust örfá rafmagnsljós innst í stórum firði. Allt og sumt sem benti til þess að þarna byggju manneskjur. Þvílíkt land. Þvílíkt flæmi. Snjóbreiðan eins og fölgulur þeyttur rjómi yfir öllu. Og sólarlag í þokkabót.

Amerísk kona sem sat fyrir framan mig góndi út um gluggann eins og ég, sneri sér við í sætinu og sagði stundarhátt við mig: "Bjútífúl." Ég var henni hjartanlega sammála.

En hvers konar land er Grænland? Ég veit ekkert um Grænland, að minnsta kosti skammarlega lítið. Og þetta eru nágrannar okkar. Hvers konar meðvitundarleysi er þetta í manni eiginlega? Ég hundskammast mín. Í vetrarsólinni í Kalíforníu er ég staðráðin í að lesa mér til um inúítana og allt sem ég kemst yfir um Grænland.

Hvað gæti ég sagt útlendingum að gera einn dag í Reykjavík var síðan það næsta sem hvarflaði að mér. Í fyrsta lagi þarf ég að komast hjá því að þurfa að sýna þeim Hringbrautarumhverfisspjöllin. Með göngubrúm sem liggja að því að manni helst virðist inn í eilífðina. Í London er götubrú sem gengur undir nafninu Suicide Bridge eða Sjálfsmorðsbrúin og ekki að ástæðulausu. Best að halda sig í miðbænum.

Morgunverður á Gráa kettinum á Lindargötu gluggamegin og ljúga að þeim að Þjóðleikhúsið sé gamalt fangelsi. Labba síðan upp á Arnarhól í von um að hitta róna. Skutlast til að skoða Sólfarið og taka eina ljósmynd og labba síðan í gegn um Kolaportið. Láta ferðalangana smakka hákarl og kaupa sér söl. Heilsunnar vegna. Hlaupa gegnum Listasafnið og ganga niður á höfn. Skoða skipin og segja þeim af sjósókn Íslendinga meðan allir áttu ennþá fiskinn í sjónum. Muniði?

Eftir að hafa rutt úr mér pólitískum áróðri og kennt útlendingunum að berja sér til hita er hungrið sennilega farið að gera vart við sig aftur. Hreyta smá ónotum í Dani fyrir að hafa eignað sér Ísland í öll þessi ár og klykkja út með því að það eina sem Danir geti sé að búa til góðan snaps og þess sé ekki langt að bíða að Danmörk verði að stærstum hluta í eigu Íslendinga. Og þá liggur beint við að fara í hádegismat hjá jómfrú Jakobi í Lækjagötu.

Jómfrúin er eins og hún hafi alltaf verið þarna. Ekki er staðurinn íburðarmikill eða sérlega smekklega innréttaður. En maturinn frábær og þjónustan einstök. Ekki síst fyrir þær sakir að margt af starfsfólkinu hefur verið þar um árabil og einhvern veginn er stemmningin þar heimilisleg og prófessjónal í senn. Og reykta öndin í desember! Hjálp! Þvílík snilld!

Síðan myndi ég segja þeim að labba Bankastrætið, stoppa hjá mæðgunum í Stellu og kaupa sér varasalva til að varnar frostbiti í gnauðandi vindinum. Fá sér þar næst espressobolla og skála við Sævar Karl. Skjótast inn í Spaksmannsspjarir til að komast í ullar-silki-kanínu orgíu og þjóta síðan upp Skólavörðustíginn og skoða íslenska listasmíði í öllum gluggum. Leyfa þeim að skoða Leif. Og skjótast inn í Ásmundarsafn.

Kakóbolli á Mokka. Stoppa í Máli og menningu og láta þá kaupa sér Sjálfstætt fólk á ensku og Gling-gló Bjarkar. Stoppa síðan hjá dauðanum sjálfum listamanninum Jóni Sæmundi og kaupa sér eitthvað eins og leikstjórinn Quentin Tarantino á dögunum.

Þetta held ég að væri ágætis skammtur í svona stuttu stoppi. Síðan myndi ég að sjálfsögðu stinga upp á dagsferð til Grænlands ef tíminn leyfði. Af algerlega eigingjörnum hvötum auðvitað því þangað hef ég aldrei komið. Þá væri ég búin að klára Skandinavíu eins og sagt er og gæti sagt með rentu að ég væri Skandínavi. Þetta myndi einfalda mér stórkostlega að útskýra tilvist mína. Því hér í Kaliforníu vita fáir hvað Ísland er hvað þá hvar það er.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband