Opal-Tópas-kynslóðin

Ég átti kost á því að fara sem grúpppía til Vestmannaeyja á nýafstaðinni þjóðhátíð.

Ég stóðst ekki mátið því að mér var alltaf bannað að fara á útihátíðir þegar ég var barn og hlaut af því nokkurn skaða, því alltaf þegar ég sé myndir af unglingum á leið út á land um verslunarmannahelgi finn ég eins og fyrir leyndri þrá sem seint verður fullnægt.

Veðrið margumrædda var með allra leiðinlegasta móti en það kom ekki að sök því að fólk var svo vel búið að enginn átti á hættu að verða úti.

Ég minnist með skelfingu minna eigin unglingsára þar sem ég arkaði miskunnarlaust í miðbænum í öllum veðrum flestar helgar, berfætt í kínaskóm og hlaut af óafturkræfar kalskemmdir.

En nú er öldin önnur og 66 gráður norður sjá unglingum fyrir hátískupollagöllum í öllum regnbogans litum. Fyrir nú utan allar flíspeysurnar og húfurnar. Og enginn er maður með mönnum nema vera rétt gallaður.

Á svokölluðu Húkkaraballi tók ég nokkra unglinga tali og spurði þau spjörunum úr.

Aldurshópurinn var svona á aldrinum 13-17 ára. Öll utan tvö þeirra sem ég ræddi við voru vel við skál en fjarskalega glöð og haldin einbeittum skemmtanavilja.

Það vakti athygli mína að hvert og eitt þeirra hafði borið með sér til Eyja rúmlega þyngd sína í brennivíni. Að minnsta kosti tvo bjórkassa hver plús sterka drykki og langflestir með barnatískudrykkina Tópas-Opal-skot.

Enda augljóst hver markhópur þeirra er sem þá drykki framleiða. Markaðssetning sem slær í gegn hjá þeim sem rétt eru hættir að heimta bland í poka.

Ég sting upp á að þessir sömu framleiðendur hugi að því að búa til áfengt bland í poka því þá væri hægt að ná til jafnvel enn yngri og stærri markhóps.

Flestar af stúlkunum sem ég ræddi við höfðu fengið orð í eyra um að passa sig á ljótu köllunum og ein móðirin hafði farið fram á það við dóttur sína og vinkonur hennar að þær svæfu í sundbolum í tjöldunum til að gera hugsanlegum óþokkum erfiðara fyrir.

Kannski ætti Speedo að fara að framleiða sundboli með einhvers konar viðvörunarbúnaði - nútíma skírlífisbelti.

Öll börnin voru vel smokkuð upp enda var gefið óheyrilegt magn af smokkum, bæði um borð í Herjólfi og á Reykjavíkurflugvelli.

Einn 13 ára drengur var með alla vasa fulla af smokkum en sagðist reyndar vera hreinn sveinn. En helgin var nú rétt að byrja svo að hann hafði ákveðnar væntingar um að eftir helgina yrði raunin önnur og því gott að vera vel birgur.

Annars fór þetta umrædda ball bara alveg sérlega vel fram.

Um gæsluna sáu föðurlegir menn frá ÍBV og gættu barnanna af einstakri natni. Komu fram við ballgesti af fullkominni kurteisi og elskulegheitum og voru til taks ef einhver hafði týnt Palla eða Stínu eða þurfti að æla.

Ekkert var um það að verið væri að móðga börn eða spæla, hvað þá hirta að ástæðulausu enda engin ástæða til. Þau skemmtu sér öll svo vel.

Stúlkurnar glæsilegar í pæjuhlýrabolum og pollabuxum yfir.

Engar stimpingar eða slagsmál og það held ég ekki síst vegna þess hve gæslunni var sinnt á fagmannlegan hátt. Átti að loka hundruð drukkinna unglinga inni fyrir drykkju undir lögaldri og eyðileggja fyrir þeim helgina? Gera þau að glæpamönnum fyrir það eitt að sulla í sig smávegis af áfengi?

Til hvers í andskotanum? Hverju hefðu þau verið bættari með það? Hellt sig helmingi fyllri kvöldið eftir í mótmælaskyni. Krakkar drekka áfengi. Það er staðreynd. Hvort sem okkur líkar betur eða verr.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband