26.5.2007 | 00:41
Litli sósíalistinn!
Ungabarnið á heimilinu gengur undir nafninu sósíalistinn.
Ekki vegna pólitísks innrætis hennar (Hún hefur aldrei heyrt minnst á Marx) en nafngiftin kemur til af því hversu félagslynd hún er.
Hún er sumsé ákaflega sósíal og vill helst láta skemmta sér þær stundir sem hún heldur sér vakandi.
það eru ekki margir í dag sem kalla sig sósíalista, nú heita menn jafnaðarmenn ekki satt?
Muniði þegar fólk þorði að kalla sig sósíalista?
Í útlöndum kallast fólk socialite sem eyðir mestum tíma í að skemmta sér og skemmta öðrum.
Ég legg til að orðið sósíalisti verði héðan í frá notað um skemmtanasjúkar félagsverur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.5.2007 | 23:34
Nú geta allir orðið bankastjórar!
Á CNN í gær var frétt um ung hjón sem hafa í tæp tvö ár rekið samtök þar sem einstaklingum gefst kostur á að lána fátækum einstaklingum um allan heim fjármagn til að koma undir sig fótunum og stunda eigin rekstur.
Á heimasíðu þeirra http://www.kiva.org eru einfaldar leiðbeiningar um það hvernig þessi smáu fyrirtækjalán fara fram og fyrir litla 25 dollara er hægt að gera fólki kleift að verða sjálfbært.
Athugið að þetta eru lán og eru greidd til baka.
Aðstoð við fólk í vanþróaðri löndum byggjast gjarnan á gjöfum en raunveruleg aðstoð felst auðvitað i þvi að gera fólki kleift að vinna fyrir sér.
Hér er fréttin frá CNN
http://www.cnn.com/SPECIALS/2007/cnn.heroes/
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
25.5.2007 | 04:03
Faute De Mieux
Faute De Mieux
Travel, trouble, music, art,
A kiss, a frock, a rhyme-
I never said they feed my heart,
But still they pass my time
Dorothy Parker
1893-1967
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.5.2007 | 22:20
Læknaklám 1. kafli
Mér sýnist ljósbláar sögur njóta hvað mestra vinsælda hér á vefnum og því legg ég af stað með sögu sem ber heitið ,,Á vakt-inni"
Ég lofa nú engu um framhaldið en hér kemur fyrsti kafli.
Á Vaktinni
1. Kapítuli
Guðbrandur læknir þvoði sér vandlega um hendurnar með mildri sótthreinsandi sápu og leyfði sér að kasta mæðinni. Átta hjartaþræðingar voru að baki og þó var klukkan rétt að ganga ellefu.
Hann fann þó ekki beinlínis fyrir þreytu heldur fremur fyrir ólýsanlegri vellíðan.
Hann var frábær læknir. Það vissi hann.
Aðdáun skein úr andlitum allra þessara fársjúku kvenna og manna sem hann stundaði af þeirri nærgætni sem fólk að öllu jöfnu sýnir aðeins sínum nánustu.
Réttu mér hnífinn sagði Guðbrandur læknir við Svanhvíti skurðhjúkrunarkonu og skotraði augunum í átt að glugganum. Það var óvenju heitt í veðri og að auki hafði um nokkurt skeið verið hálfgert ólag á loftræstikerfi spítalans. Því var óvenju mollulegt á skurðstofunni þó allir gluggar væru opnir.
Græni skurðsloppurinn loddi þétt upp að líkamanum og það leyndi sér ekki að Gubbi eins og hann var gjarnan kallaður var einstaklega vel á sig kominn í vöðvafræðilegum skilningi.
Svanhvít skurðhjúkrunnarkona rétti hnífinn yfir sjúklinginn sem var aldraður embættismaður og lá sofandi kviknakinn á skurðborðinu.
Guðbrandur hafði aldrei áður veitt því eftirtekt hversu smáhent Svanhvít var.
Latexhanskarnir hreinlega gleyptu þessar fínlegu fingur og kjúkur. Þær eru hreint listaverk þessar hendur hugsaði Guðbrandur með sér um leið og hann tók við hnífnum úr hendi hennar. Á þeirri stundu hvarflaði að honum að gaman væri að svæfa Svandísi og gera að henni.
Hann hló með sjáfum sér að þessari hugsun og sagði með mjúkri röddu:
,,Þakka þér fyrir Svan... "
,,Hvít" sagði Svanhvít og brosti álkulega. Hjartað ólmaðist í brjósti hennar og hún fann hvernig hún roðnaði upp fyrir haus og niðrá torg eins og mamma hennar var vön að taka til orða.
Hún var enn með sontuna í annari hendinni og í einhverju fáti beit hún viðvaningslega í hana. Munnvatnsframleiðsla Svanhvítar var fram úr hófi og þurfti hún því að súpa hveljur til að halda sönsum.
Hún varð að berja niður þennan óslökkvandi losta sem hún bar til Guðbrandar og því einbeitti hún sér að því að hugsa um einfættu konuna sem hún hafði séð á gangi kvöldinu áður. Lostinn vék fljótt fyrir meðaumkun í garð þeirrar einfættu og gat Svanhvít nú aftur einbeitt sér að embættismanninum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.5.2007 | 18:33
Móðirin sýgur brjóst barnsins. Hver var það sem barð´ana?
Ég var að hugsa um að biðja bóndann að viðra mig svolítið í dag. Maður verður hálf ruglaður svona fyrstu vikurnar í brjóstaþokunni miklu. Mér finnst mér lítið verða úr verki nema að gefa brjóst.
Sá barn á fjórða ári rífa upp um móður sína og heimta brjóst og varð eiginlega hálf óglatt. Hún hefði rétt eins getað verið með afa sinn á brjósti.
Datt í hug ljóð sem við Margrét Örnólfsdóttir vinkona mín sömdum þegar við vorum unglingar
Móðirin sýgur brjóst barnsins.
Hver var það sem barð´ana?
Dagarnir líða einhvernveginn áfram án þess að ég taki eftir því. Furðulegt. Þessu fylgir mikið jafnaðargeð sem er óvanalegt fyrir undirritaða þar sem geðslagið einkennist nú að öllu jöfnu af sveiflum.
Stefán hafði á orði við mig um daginn ...þú ert svo stóísk að þú ert bara að verða eins og Sverrir Guðjónsson.
Fyrir þá sem ekki þekkja Sverri fer þar alveg sérlega dagfarsprúður maður enda búddisti eftir því sem ég best veit.
Annars er hugur minn þessa stundina bundinn við Franklin litla sex ára son Blöncu barnfóstru sem er um þessar mundir á hættulegu ferðalagi frá El Salvador til Los Angeles. Ólöglega að sjálfsögðu og nú hefur ekkert frést frá karlinum sem er að flytja barnið yfir í rúma tvo daga.
Blanca er að vonum skelfingu lostin og nú síðast í morgunfréttum var sýnd handtaka manns við mexíkönsku landamærin. Hann var með bílinn fullan af börnum eins og Franklin sem biðu þess að komast til mæðra sinna í Ameríku.
Maðurinn sem er að flytja Franklin yfir er þekktur í heimalandi sínu fyrir hæfni sína til að koma fólki yfir landamærin. Hann setti upphaflega upp fimmþúsund dollara fyrir að koma barninu yfir en hefur á leiðinni heimtað þrjúsund dollara til viðbótar.
það er ekki erfitt að svíða peninga út úr mæðrum í þessari aðstöðu.
Þær borga hvað sem er til að tryggja öryggi barna sinna.
Meira hvað þetta er andstyggilegt allt saman.
En nú hefur karlinn semsagt ekki látið ná í sig í rúma tvo daga. Svarar ekki símanum því númerið sem hann gaf upp síðast er ekki lengur í notkun. Hann hefur á leiðinni sífellt skipt um síma sennilega svo að erfiðara sé að henda reiður á honum. Blanca er hálf utan við sig af hræðslu.
Við drekkum kaffi og tölum saman á spænsku. Mér hefur nú farið fram að tala en þó er spænskan mín ennþá afar léleg. Blöncu virðist vera sama brosir góðlátlega að vitleysunum í mér og við látum móðann mása.
Ég reyni að stappa í hana stálinu en hef ekki erindi sem erfiði. Enda hvernig á að róa móður í þessari aðstöðu.
Hún veit ekkert hvar barnið er!
Já, ég hef það gott. Stóru stelpurnar mínar eru í skólanum, þar sem þeirra er vandlega gætt og litla barnið sefur og sefur. Ég hef ekki yfir neinu að kvarta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.5.2007 | 22:02
Heimaafeitrun
Þar sem ég er klafbundin með hvítvoðung og heima flestum stundum af þeim sökum gefst mér ótakmarkað ráðrými til að ráðskast með aðra fjölskyldumeðlimi.
Nú hef ég bannað sykurát um alllangt skeið og hef tekið eftir jákvæðum breytingum á geðslagi heimilismanna. Þetta var þó ekki alveg sársaukalaus afvötnun og fyrstu vikurnar var familían í mismiklu fráhvarfi.
Miðbarnið þjáðist af töluverðum svefntruflunum í fyrstu. Elsta dóttirin lagðist í þunglyndi og Stefán karl varð afspyrnu geðvondur. Ég veitti þessu enga athygli og hélt ótrauð áfram.
Verst er að finna hér í Los Angeles almennileg bakarí hvað þá bakarí sem selja sykurlaus brauð. Þau eru síður en svo á hverju strái.
Hér er því komið gullið tækifæri fyrir íslenskan snilldarbakara með amerískt atvinnuleyfi til að opna íslenskt lúxusbakarí eins og þau gerast best.
En áleggið er ekki síður martröð. Því hef ég brugðið á það ráð að búa það til sjálf. Það hlaut misgóðar undirtektir í fyrstu en ég gaf mig ekki því ég var viss um að ef ekkert annað væri á boðstólum myndu heimamenn þræla því í sig sökum hungurs.
Fyrst var að búa til hnetusmjör fyrir dæturnar. það var mér sérlega hugleikið því bæði finnst þeim það gott en kannski ekki síður að hér eru stanslausar fréttir af "contaminated peanut butter".
Ég mun hlífa viðkvæmum sálum við nákvæmum lýsingum en ráðlegg fólki þó að láta aðkeypt hnetusmjör eiga sig og búa til sitt eigið. Ég mun að minnsta kosti aldrei leggja mér búðarhnetusmjör aftur til munns nema ég verði einn daginn sérlega sólgin í skordýraeitur eða rottuskít og langi að leggjast inn á spítala.
Gott er að eiga mixer eða öfluga matvinnsluvél.
Það sem þarf í gott hnetusmjör er að sjálfsögðu góðar hnetur helst beint af hnetudýrinu.
Hráar, ósaltar og auðvitað ósykraðar. Ég geri hnetusmjör t.d. úr Cashew-hnetum, Valhnetum, salthnetum eins og þær kallast á Íslandi en auðvitað saltlausum og Pecan-hnetum. það er í raun hægt að nota hvaða hnetur sem er.
Blanda þeim saman að vild.
Ég er svo löt að ég er ekkert fyrir það að leggja þær í bleyti og afhýða þær og nota þær því beint úr pokanum.
Ég geri lítið í einu því þetta tekur enga stund og þá er engin hætta á að smjörið þráni eða skemmist.
3 kaffifantar Hnetur
Hnetur settar í mixerinn og tættar í spað.
Til að ná æskilegu viðnámi í hnetusmjörið nota ég síðan ýmist lífræna hnetuolíu, kókosmjólk eða nýkreistan appelsínusafa til að gera smjörið hæfilega þykkt. Ekkert salt og engan sykur. Það þarf ekki!
Þetta er ekki bara gott ofaná brauð því þetta er fyrirtaks ídýfa t.d. með eplum.
Svo má búa til sjóðheitt og æsandi hnetusmjör með því að bæta hvítlauk,kóríander, chili og ferskri engiferrót út í og DRUSSA því svo yfir salatið eða ofaná ristað brauð fyrir fullorðna.
Smá að lokum um hnetur...Hnetur slá á hungurtilfinningu!
eitt enn...
Marineraðar hnetur...algjört dúndur.
leggið t.d. pecan-hnetur í marineringu sem samanstendur af jómfrúarólífuolíu, anisfræum, kúmeni og pressuðum hvitlauk. Kryddið að vild og notið bara þau krydd sem ykkur lystir. Sjávarsalt og svartur pipar.
Þeta er líka hægt að gera með ferskar möndlur og alls ekkert síðra. Leyfa þessu að standa dagpart og henda síðan nokkrum ólífum saman við. Fallegt og fjarska gott!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
21.5.2007 | 00:31
Fiskur sem bjargar hjónaböndum
Ég ætla að deila með ykkur uppskrift sem bjargar hjónaböndum. Ég hef sannreynt það.
Ég get nánast leyft mér hvað sem er... ef ég í dagslok elda þennan rétt.
Og það besta við réttinn er sú staðreynd að hvaða bjáni sem er getur eldað hann. Það veit ég af eigin raun.
Vænar lúðusteikur
ferskur grænn aspas
hrísgrjón að eigin vali
Kókosmjólk í dós
kjúklingasoð
ólífuolía jómfrúar
soja
limesafi
fersk engiferrót
hvítlaukur
kóríander
sjávarsalt og svartur pipar eftir smekk
Lúðusteikur
Í marineringu/sósu þarf eftirfarandi:
4 mtsk ólífuolía
2 mtsk soja
safi úr 2 lime ( heita þær ekki límónur á íslensku?)
handfylli af kóríander
vænn biti af flysjaðri engiferrót
Smyrjið lúðusteikurnar með blöndunni og setjið í eldfast mót. Steikurnar eru síðan eldaðar við 275 gráðu hita í 12 mínútur.
Kókosgrjón
Sjóðið einn bolla af grjónum í kókosmjólk og kjúklingasoði. Skellið tveimur pressuðum hvítlauksrifjum út í og nokkrum sneiðum af engiferrót. Salt og pipar eftir smekk.
Ferskur aspas
Setjið upp vatn og látið suðuna koma upp. Aspasinn er soðinn í 4 mínútur. Hafið klakavatn í skál tilbúið til að skella aspasinum í að suðu lokinni. Þá helst hann stinnur og ferskur...
Síðast en ekki síst...
Grjónin eru sett á miðjan diskinn. Aspasinn lagður ofan á og að endingu lúðusteikin beint úr ofninum.
Afganginum af sósunni slett listrænt yfir diskinn. Opna eina góða ískalda Pinot Grigio og æpa: Matur!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.5.2007 | 22:22
Dagbók húsmóður 20.mai 2007
Hér sváfu allir fram eftir morgni. Meira að segja litla manneskjan sem liggur hér við hliðina á mér. Lúxus.
Beyglur með skoskum laxi,rjómaosti,sítrónu og svörtum pipar í morgunmat. Rótsterkt kaffi.
Þvældist um netblöðin ....mogginn...latimes....nytimes...sakna þess stundum að hafa ekki dagblöð á milli handanna lengur...
Hlustaði á þátt Viðars Eggertssonar,,Eins og dýr í búri" frá 17.mai sl. á ruv.is. Frábærlega vel gerður þáttur.
Byrja að blogga. því ekki það? Húsmæðrablogg. Mér finnst tilfinnanlega vanta húsmæðrablogg.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)