22.5.2008 | 19:56
Læknaklám 11. kafli !!!
Svanhvít hjúkrunarkona svaf svefni hinna réttlátu á gulbrúna grjónapúðanum sem starfssystur hennar höfðu gefið henni fyrr um vorið. Púðinn var úr sterku segli og gat því rétt eins verið útivið ef vel viðraði. Svanhvít hafði glaðst mjög er hún fékk púðann af gjöf og hugsaði sé gott til glóðarinnar að geta á heitum sumardögum flatmagað á undirfötunum einum klæða á púðanum góða. En tíðin hafði verið óttalega slæm þessa vormánuði og því hafði Svanhvít brugðið á það ráð að hafa púðann í sjónvarpsholinu þar til veður yrði heppilegra.
Hún hafði sofnað útfrá frammúrskarandi sjónvarpsþætti um erfðir og efnasambönd og hafði orðið margs vísari. Svanhvít leit á starf sitt sem köllun og því nýtti hún hvert tækifæri til að sjúga í sig frekari þekkingu. Svanhvít var eins og vatnslaus ferðalangur í víðáttumikilli eyðimörk ef hún gat ekki svalað námsfýsn sinni.
Svanhvít var ein fárra hjúkrunarkvenna landsins sem höfðu farið í gegnum Háskólann tvisvar sinnum og það af gamni sínu því ekki höfðu slæmar einkunnir valdið, síður en svo. Svanhvít hafði dúxað í bæði skiptin og í hvorugt sinn hafði hún tekið námslán.
Einnig hafði hún lokið framhaldsnámi í sértækri hjúkrun og alhliða umönnun.
Svanhvít hrökk upp af værum blundi er síminn hringdi. Hún hnaut nánast um auglýsingapésa sem hún af misgáningi hafði ekki gengið frá áður en hún hringaði sig á grjónapúðanum góða. Það vildi henni til happs að hún gat gripið í blómasúlu sem stóð undir gríðarlegum krókus og náði því að sporna við fallinu.
Hver gat verið að hringja í hana svo síðla kvölds?
Ýmsir komu til greina en Svanhvíti grunaði þó að einhver starfsfélagi hennar væri að leita til hennar með eitt eða annað. Sá grunur reyndist á rökum reistur því er hún bar símtólið upp að sterklegum vanganum og heilsaði að gömlum sið þá gall við hvell rödd starfssystur hennar Járngerðar Brynju sem greinilega var mikið niðri fyrir.
Í stuttu máli útskýrði Járngerður fyrir Svanhvíti að hún yrði sem hraðast hún mætti að koma upp á deild því Guðbrandur læknir hefði læst sig inni á skoli og tekið með sér umtalsvert magn af sefandi lyfjum.
Svanhvíti dauðbrá við þessar fréttir og hún fann að hún mátti engan tíma missa.
Guðbrandur var þungt haldin eins og allir vissu af dauðaþrá þrátt fyrir að hann væri öllum fremri í starfi og leik. Einhver nöturlegur drungi átti til að skjótast upp úr hugarfylgsnum hans og ævinlega þegar illa stóð á.
Þetta gat varla borið að á verri tíma en nú því Svanhvít vissi sem var að Guðbrandur átti að mæta í fjórburakeisaraskurð sem hafði verið tímasettur árla næsta morgun. Því gátu mínútur skipt sköpum og ráðið úrslitum um heilsu Guðbrands og svo ekki sé minnst á framtíðarvonir fjórburana ófæddu.
Í hendingskasti ákvað Svanhvít að smeygja sér í hlaupaskóna og fara á tveimur jafnfljótum upp á deild. Hún batt á sig skóna með miklu offorsi og var næstum búin að reima fingurna fasta undir skótungunni því svo mikill var gassagangurinn.
Hún þeyttist af stað út í náttmyrkrið á náttkjólnum einum fata og þaut í gegnum næturfrostið eins og elding. Kaldur svalinn lék um líkama hennar og hjartað braust um í brjósti hennar.Guðbrandi varð hún að bjarga því fjögur lítil mannslíf voru í húfi.
Hann mátti ekki hverfa á vit geðrænnar sturlunar einmitt nú.
Svanhvít fór í huganum í gegnum fósturfræðin ef ske kynni að Guðbrandur væri nú þegar búin að taka inn róandi töflur og hylki og væri óvinnufær af þeim sökum.
Vel gat gerst að hún þyrfti þá sjálf að skera móðurina ungu sem beið í ofvæni eftir að líta afkvæmi sín fjögur. Svanhvít hafði aðeins einu sinni verið viðstödd barnsfæðingu en þá hafði hún verið stödd á ættarmóti austur í fljótum. Fjarskyld frænka hennar sem var óvenju feitlagin hafði þá öllum að óvörum og ekki síst henni sjálfri fengið harða sótt í miðju boðhlaupi.
Sú hafði fætt barn,myndarlegan strák er hún náði marki og hafði Svanhvít þá á augabragði soðið vatn á nærliggjandi prímus og gert að frænkunni feitlögnu. Frænkan hafði í þakkarskyni nefnt drenginn eftir Svanhvíti og bar hann nafnið Svanhvítur þó dökkur væri á brún og brá.
Athugasemdir
Ég slefa af unaði. Takk.
Hvar finn ég Svanhvíti? Ég ætla að drepa hana
Jenný Anna Baldursdóttir, 22.5.2008 kl. 21:36
Steina Darling, I love it when you talk dirty.
xxx
HHS
p.s. Til hamingju með strákinn -þetta verður sko alveg nýr kafli.
Hildur Helga Sigurðardóttir, 22.5.2008 kl. 23:59
Svanhvítar hjúkrun sértæk,
á sunnudögum alltaf tiltæk,
góð er í ungum,
grjónapungum,
aftur byrjuð eftir smástræk.
Þorsteinn Briem, 23.5.2008 kl. 14:39
Þetta verður spennandi. Hef verið að fletta eftir færslum. Takk
Sólveig Hannesdóttir, 25.5.2008 kl. 13:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.