Súpa sem sameinar!

Súpa sem sameinar!

Þegar ég ákveð hvað ég á að hafa í matinn er það afar tengt því hvernig mér líður þá
stundina. Mér finnst leiðinlegt að borða til þess eins að seðja hungrið og því legg ég mikið upp úr því að gefa mér tíma til að matbúa og nota matseldina til að skapa mér næði til þess að velta hlutunum fyrir mér. Í óvissu ástandi eins og ríkir um þessar mundir í heiminum öllum er hætta á því að maður missi sjónir á því sem mikilvægast er í lífinu eða því að treysta fjölskylduböndin og gera sér og sínum til góða.
Og þegar peningar eru af skornum skammti þarf að vanda valið enn betur og hafa í huga hvað má leyfa sér og hverju skal sleppa.
það er ekki erfitt að elda góðan mat fyrir lítinn pening og því langar mig að deila með ykkur uppskrift af lauksúpu sem er sáraeinfalt að matbúa.
Gulbrúni laukurinn sem við þekkjum öll er nefnilega kjarnafæða. Fitusnauður en kolvetnaríkur og fullur af kalki járni og C-vítamíni, sumsé ansi fullkomið sköpunarverk.
Enska orðið onion er dregið af latneska orðinu unio sem þýðir eining og því er lauksúpa vel til þess fallin að sameina fjölskylduna. Hún er hæfilega matarmikil og frábær í haustkuldanum.
Um ágæti lauks hefur ýmislegt verið skrafað, allt frá því að laukur geti aukið hárvöxt til þess að mikið laukát hafi stappað stálinu í hermenn Alexanders mikla því það ku hafa verið trú hans að bragðsterk fæða á borð við lauk gerði menn aflmeiri.
Í tyrkneskum sögum er því lýst að þegar Djöflinum var hent út úr Paradís hafi laukur vaxið þar sem hann steig niður hægra fæti og hvítlaukur sprottið þar sem vinstri fótur hans snerti fyrst jörðu.
Enn er það til í miðausturlöndum að ungir brúðgumar beri innan á jakkaboðungnum ofurlítinn laukbita í þeirri trú að það hafi jákvæð áhrif á frammistöðu þeirra á brúðkaupsnóttina.
    Þegar maður velur lauk þá skal velja þá með hliðsjón af ákveðnum þáttum. Laukurinn skal vera skrjáfandi pappírsþurr að utan og engir sjánlegir myglu eða mjúkir blettir á yfirborði hans. Hann skal vera stinnur viðkomu og þungur í sér. Best er að velja hann í stykkjatali til að koma í veg fyrir að kaupa köttinn í sekknum.
Hafið þið ekki tekið eftir því að það er alltaf eins og það sé eitt skemmt epli í hverjum poka? Vörurýrnum sem bitnar á okkur þegar við erum of löt til að velja hlutina með hægð og forsjálni.
    Veljið fimm til sex fallega bústna lauka og kaupið einn lítra af kjötsoði eða nautakraftsteninga en varist kraftinn frá Knorr nema þið viljið visvítandi eitra fyrir fjölskyldum ykkar með óhóflegri MSG notkun. Fyrir grænmetisætur er rétt að taka fram að grænmetiskraftur er rétt eins brúklegur. Síðan þarf að splæsa í smá bita af Gruyére osti og ef hann er ófánlegur þá bita af Emmenthaler eða góðum Gouda osti.
Ég hef stundum notað Parmesan þegar ég hef ekki átt annað til og raunverulega er hægt að nota þann ost sem til er á heimilinu. Þetta er soldið smekksatriði og sjálfsagt að prófa sig áfram. Síðan þarf til smjör og hveiti, salt og pipar, gamalt myglulaust brauð og hvítlauk. Ég skelli stundum lárviðarlaufi eða afgangs ferskum kryddjurtum útí allt eftir geðþótta.Eftirleikurinn er barnaleikur.
Flysjið laukinn og skerið hann í hálfs sentimetra þykkar sneiðar.
    Allir þekkja það að tárast þegar maður sker lauk. Það virðist aðeins draga úr grenjum ef maður skolar laukinn úr köldu vatni áður en maður sker hann.
Annars er bara tilvalið að gráta svolítið við laukskurð, það ber ekki mikið á því og engin þarf að vita hvers vegna þú grætur í raun og veru.
    Að því búnu skal bræða smjör á pönnu þar til að það snarkar í. Skellið lauknum á pönnuna og látið hann brúnast við vægan hita í allt að þrjátíu mínútur. Gætið þess að hann brenni alls ekki heldur aðeins mýkjist og brúnist.
Þegar hér er komið sögu skal ,,drussa” eins of tveimur matskeiðum af hveiti yfir laukinn og blanda saman með sleif. Síðan hella út í einum líra af soði og setja út í lárviðalauf og tvö pressuð hvítlauksrif og krydda eftir smekk. Láta síðan herlegheitin malla við meðalhita í fjörutíu mínútur.
    Ristið eins margar brauðsneiðar og þarf eða eina á mann. Þessi súpa ætti að nægja fjórum sem aðalmáltíð. Rífið niður ostinn á rifjárni og setjið til hliðar. Hitið ofninn og stillið á grill.
    Meðan súpan mallar er upplagt að spjalla við fjölskyldumeðlimi og ræða atburði líðandi stundar, hjálpa börnum við heimalærdóminn eða setjast bara niður og húka sem er svo afar hollt.
Rétt áður en súpan er borin fram má skella í súpuna vínanda svo sem eins og koníaksleka eða dropa af púrtara ef vill og salta og pipra ef þurfa þykir.
Deilið súpunni bróðurlega í eldfastar skálar og setjið eina ristaða brauðsneið í hvora. Setjið rifna ostinn yfir og skellið súpuskálunum stutta stund inn í ofninn eða þar til osturinn bráðnar. Það tekur aðeins örfáar mínútur.
Kranavatnið er auðvitað langbesti kosturinn þegar kemur að drykkjarföngum en ekki er verra að sulla í sig eins og einu léttvínsglasi með súpunni til að losa um málbeinið og koma blóðinu á hreyfingu.
Verði ykkur að góðu.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Góðan daginn.  Hér ertu búin að blogga eins og mófó og ég hef ekkert séð.

Velkomin aftur.

Þetta mun vera hin franska lauksúpa er það ekki?  Ég skellti þessu inn í uppáhalds hjá mér enda kreppukona og veitir ekki af að læra að elda ódýran mat (eða minna dýran réttara sagt).

Ég ætla líka að læra að skafa mat af berum steinunum.

Takk fyrir mig.

Jenný Anna Baldursdóttir, 9.10.2008 kl. 08:12

2 Smámynd: Steinþór Ásgeirsson

Snilldar uppskrift.

Þvílíkur penni

Steinþór Ásgeirsson, 9.10.2008 kl. 11:34

3 Smámynd: Fríða Eyland

Takk fyrir hugulsemina.

Fríða Eyland, 9.10.2008 kl. 17:25

4 Smámynd: Jórunn Sigurbergsdóttir

Takk fyrir þetta.

Jórunn Sigurbergsdóttir , 9.10.2008 kl. 21:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband