13.10.2007 | 06:15
Læknaklám 10. kapítuli
Nú víkur sögunni að afdrifum gangastúlkunnar ungu Beidi-lyng. Í færslunni hér fyrir neðan er hægt að hlýða á lestur sögunnar í flutningi hins frábæra lesara Karls Stefánssonar eða þá að leita eftir kafla 10. í Útvarpi Ólínu hér til vinstri á síðunni.
,,Á vaktinni"
Beidi-lyng hafði sloppið við illan leik undan Aðalbjörgu deildarstýru og sat nú og kastaði mæðinni á strætisvagnastöðinni. Nýfallinn snjór var yfir öllu og þó vissulega væri fallegt um að litast þá var ekki laust við að hrollur færi um hið viðkvæma austurlandablóm.
Ekkert í þessu framandi umhverfi minnti á heimahaga hennar þar sem lótusblómin spruttu í hverjum haga og á hverjum hól. Og þar sem pandabirnir voru jafn algeng sjón og flækingskettir hér um slóðir.
Hún var örþreytt enda búin að hafa endaskipti á átján einstaklingum á öldrunardeild. Sífelldar háðsglósur og klípur þeirra öldruðu voru þreytandi til lengdar þó Beidi-lyng hefði eðlislægt langlundargeð.
Henni fannst eins og eitthvað innra með henni væri að bresta og hún kastaði sér í götuna og grét sáran. Hvað var hún að gera á þessu hroðalega landi?
Við því var einfalt svar. Hér bjó velgjörðarmaður hennar Benedikt Skúlason gröfubílstjóri. Hann einn skildi hana og þó að þau gætu ekki talað saman á nokkru tungumáli þá virtist táknmál ástarinnar nægja þeim. Með augngotum og handapati tjáðu þau hvort öðru tilfinningar sínar. Í þessu höfðu þau náð mikilli leikni og gátu núorðið komið hvort öðru í skilning um allflesta hluti.
Hvar var Benedikt Skúlason gröfubílstjóri nú þegar hún þurfti mest á honum að halda?
Beidi-lyng lá á grúfu og óskaði þess að jörðin gleypti sig. Snjónum kyngdi niður og huldi nú líkama þessarar smávöxnu gangastúlku utan einn rauðan vettling sem stóð upp úr skaflinum sem hafði myndast utan um hana. Engan hefði getað grunað að þar lægi stúlka frá fjarlægu landi í slíkri örvinglan sem raun bar vitni. Enda ók strætisvagnabílstjórinn framhjá grunlaus um að þar leyndist manneskja sem hafði augnabliki áður ætlað sér að ferðast með vagninum á fullu fargjaldi.
Mikil mildi var því að Svanhvít hafði óvart læst bíllyklana sína inni í litla Subarunum sínum og hafði af þeim sökum ákveðið að taka strætisvagninn heim. Ef Svanhvíti hefði ekki borið að garði þá skal látið ósagt hver örlög Beidi-lyng hefðu getað orðið. Þótt hríðarkófið blekkti sýn þá rak Svanhvít augun í rauða vettlinginn sem stakk verulega í stúf við alhvíta jörðina. Svanhvít var mikil áhugamanneskja um hannyrðir og gat því ekki stillt sig um að seilast eftir prjónlesinu.
Henni brá heldur en ekki í brún þegar í ljós kom smágerð hönd og þekkti Svanhvít strax þar hendi Beidi-lyng því hún bar á vísifingri baug sem hafði lengi vakið athygli Svanhvítar. Hringurinn var með því sniði að þar tókust á fornaldardreki mikilúðlegur og sjaldgæf skjalbökutegund og mynduðu þau nokkurskonar hringekju á fingri Beidi-lyng.
Svanhvít tók til við að grafa ofan af Beidi-lyng því hér gat hver mínúta skipt sköpum. Skaflinn var nú orðinn mannhæðarhár og því þurfti Svanhvít að hafa sig alla við. Hún varð blóðrissa á höndunum en hún lét það ekki aftra sér og ruddi snjónum ofan af samstarfsstúlku sinni. Loks glitti í svart hárið og náfölt andlitið. Þarna lá hún þessi ofurfínlega og ástúðlega stúlka eins og lágmynd og ógerningur að vita hvort hún var lífs eða liðin.
Augu Svanhvítar fylltust af tárum og hún renndi í bað fyrir hana í huganum. En hér gafst enginn tími fyrir dagdrauma og því vatt Svanhvít sér í að blása lífi í Beidi-lyng. Hún lagði þóttafullar varirnar að þunnum bláleitum vörum Beidi-lyng og blés og blés. Eftir þó nokkurn tíma færðist loks roði í kinnar Beidi-lyng og Svanhvít klappaði saman lófunum og hrópaði af gleði.
þetta vakti athygli þó nokkurra vegfarenda sem áttu leið hjá en Svanhvít lét sér fátt um finnast.
Hvað varðaði hana um almenningsálitið þegar mannslíf voru annars vegar?
Athugasemdir
Ég get svarið það, hvaðan sprettur þessi bókmenntagjörningur? "...á fullu fargjaldi." Snilld. Algjört möst að hlusta líka ;o)
Sigga Hjólína, 13.10.2007 kl. 15:52
Rosalega verð ég graður af því að lesa þetta. Er búinn að segja upp áskriftinni að Playboy.
Steini Briem (IP-tala skráð) 13.10.2007 kl. 18:57
Ég er yfirkomin og í endorfínvímu (sú eina sem ég hef leyfi fyrir). Takk fyrir að veita mér hana og útvarpið er að gera sig "big time".
Jenný Anna Baldursdóttir, 13.10.2007 kl. 23:03
Hmmm? finn ekki 10. kaflann á radíóinu. Aðeins hinn 9. Sem er afskaplega underholdende og skemmtilegur. "Hún renndi í bað fyrir hana í huganum..." Þvílíkur prósi....hallelúja!
Jón Steinar Ragnarsson, 14.10.2007 kl. 04:00
Jón Steinar ...10.kafli er líka á hljóðfæl í færslunni á undan
Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, 14.10.2007 kl. 05:01
Þakka góða skemmtun Steinunn Ólína...kveðja frá Rvíkinni.
Heiða Þórðar, 14.10.2007 kl. 18:23
Þúsund þakkir. Ég var farin að örvænta, biðin var orðin svo löng. En svo koma þessi dásemdarskrif, með endaskiptum, táknmáli ástarinnar, prjónlesi og svo ótal mörgu öðru.
Takk.
Ragnhildur Sverrisdóttir, 15.10.2007 kl. 14:00
Það er mikið vald þarna á íslenzkunni greinilega, og mergjuð skrif. Mjög margt er svo innilega góðar lýsingar, og er ekki laust við að ég finni stundum part (örlítinn), af minni aðferðafræði frá atvinnu minni. En karakterarnir eru allir raunverulegir, og stórkostlegt að geta lesið þetta allt með bros á vör. Tímabær skrif, en ég vil endilega bók.
Sólveig Hannesdóttir, 16.10.2007 kl. 13:13
Lesarinn Karl Stefánsson er einstaklega raddfagur maður.
Gísli Ásgeirsson, 22.10.2007 kl. 22:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.