8.9.2007 | 05:07
Læknaklám 9. kafli!
,,Á vaktinni"
Níundi kapítuli.
Það ríkti urgur á deildinni. Aðalbjörg deildarstýra hafði birst fyrirvaralaust um morguninn með þau fyrirmæli að starfsfólkið mætti eiga von á heimsókn frá heilbrigðisráðuneytinu.
Aðalbjörg hafði nýlega verið skipuð deildarstýra þegar ljóst þótti að hún gæti ekki lengur starfað að aðhlynningu sjúklinga. Þetta var að margra dómi heldur seint í rassinn gripið því það var mál manna að hún hefði unnið meiri skaða en gagn í starfi sínu sem hjúkrunarkona.
Yfirstjórn spítalans hafði samt verið vandi á höndum því þó fyrir lægju sögusagnir um meinta skapbresti hennar lágu ekki fyrir beinar sannanir. Ekki bætti úr skák að systursonur hennar Víglundur Sigurfinnsson sjávarlíffræðingur sat í stjórn spítalans og hafði beitt pólitískri refskák til að tryggja að Aðalbjörg hlyti starfann.
Það þótti vitað að sjúklingar hefðu margsinnis hlotið líkamlega áverka af hennar völdum og jafnvel varanleg andleg mein. Sérstaklega þótti hún harkaleg í framgöngu sinni við fullorðna sjúklinga og það var engu líkara en hún hefði megnasta ýmugust á eldri borgurum. Þó starfaði hún lengst af sinn starfsaldur á öldrunardeild.
Enginn var þó til að vitna beint um framferði hennar því Aðalbjörg hafði lag á að vinna ofbeldisverk sín í skjóli nætur eða bak við luktar dyr.
Hún byrjaði morgunfundinn með því að skamma viðstadda fyrir að vera með fleiri en einn penna í brjóstvasanum. Hún sagðist ekki sjá í fljótu bragði neinn sem hefði tvær hægri hendur og því síður nokkurn sem skrifuðu samtímis með hægri hendi og þeirri vinstri og því hlyti einn penni að duga hverjum og einum.
Hún hafði þann undarlega ávana að horfa aldrei í augu þeirra sem hún ræddi við heldur virtist ætíð stara út í fjarskann líkt og hún væri að ávarpa fjöldasamkomu. Þar að auki var hún afskaplega tileygð og ógerningur að vita hvert hún var að horfa eða við hvern hún var að tala.
Svanhvít skurðhjúkrunarkona hafði löngum haft illan bifur á Aðalbjörgu vegna starfshátta hennar en Aðalbjörg var með afbrigðum aðfinnslusöm og átti það jafnvel til að sitja fyrir starfsfólki deildarinnar þegar það kom af klósettinu með áminningu um að þvo sér um hendurnar og reka það svo aftur til starfa með valdi.
Aðalbjörg var ákaflega þrekvaxin með mikið skollitað hár sem hún vatt upp í pylsu í hnakka sér.
Erindi hennar þennan morguninn ásamt því að boða komu heilbrigðisráðherra var að tilkynna að eftirleiðis yrði einungis leyfilegt að hafa eitt bekken í notkun á hverrri sjúkrastofu þar sem það væri nú yfirlýst stefna spítalans að sporna við hvers kyns bruðli. Sjúklingar yrðu eftirleiðis að gera með sér samkomulag um það hvaða tíma dags þeir hefðu afnot af bekkeninu.
Með það gekk hún á dyr og arkaði fram eftir ganginum.
Aðalbjörg var afskaplega stórstíg og leit sjaldan niður fyrir sig.
Það hafði því miður ítrekað gerst að hún gengi niður starfsfólk og þá sér í lagi gangastúlkuna Beidi-Ling sem átti jafnan fótum fjör að launa þegar Aðalbjörg var á gangi. Svanhvít fylgist með Aðalbjörgu strunsa niður ganginn og dáðist að því hversu lipurlega Beidi-Ling smeygði sér undan Aðalbjörgu sem geystist fram ganginn.
Beidi-Ling veigraði sér ekki við að stökkva yfir rúlluborð bókasafnskvennanna sem útdeildu jafnan bókum til fársjúkra sjúklinga á þessum tíma dags.
Svanhvít tók andköf af hrifningu þegar hún sá Beidi-Ling smeygja sér jafnvel upp í rúm hjá sjúklingum sem lágu á ganginum í reiðileysi til þess að vera ekki fótum troðin af Aðalbjörgu. Svanhvítu fannst eitt augnablik að hún væri að horfa á kínverskan loftfimleikasirkus eða köngulóarmanninn og langaði mest til að klappa.
Svanhvít kæfði hrifningarópin í grysjubút og lét sér nægja að hrífast í hljóði.
Það var eitthvað óendanlega fagurt við það hversu smágerð og fim Beidi-Ling var. Svanhvíti fannst ef eitthvað var hreyfingar Beidi-Ling minna sig helst á dans norðurljósanna.
Svo heltekinn var hún af erlendu stúlkunni að hún sló sjálfa sig utan undir til að missa hreinlega ekki ráð og rænu. Að því búnu hljóp hún inn á skol og læsti á eftir sér.
Hvaða kenndir voru þetta sem Beidi-Ling, austurlandablómið smáa hafði vakið innra með henni? Gremjan í garð Aðalheiðar deildarstýru var nú á bak og burt.
Blóðið þaut í æðum Svanhvítar og hana sundlaði. Gat verið að hún Svanhvít Elfarsdóttir væri orðin ástfangin af innflytjanda? Og stúlku ofan í kaupið?
Athugasemdir
GÓÐAN DAGINN.
Ég er nú bara alveg dolfallin, hvílík flétta. Kannast við þetta allt saman, og veit ekki hvort ég á að gráta eða hlægja, bíð spennt.
Sólveig Hannesdóttir (IP-tala skráð) 8.9.2007 kl. 11:00
Hvar endar þetta ?
Er að tapa mér enda alltaf í stólpípum.
Jónína Benediktsdóttir (IP-tala skráð) 8.9.2007 kl. 17:07
Steina þú átt svo marga merkilega bloggvini. Þeir þorast ekki að gerast mínir bloggvinir. Menn eins og Andrés, konur eins og Edda. Nei nei ekki vinur Jónínu, nei nei nei. En læknaklámið heldur vonandi áfram fallegust.
Jónína Benediktsdóttir (IP-tala skráð) 8.9.2007 kl. 17:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.