6.9.2007 | 17:55
Læknaklám 8. kafli
,,Á vaktinni"
Áttundi kapítuli
Guðbrandur vatt sér úr sloppinum og þerraði svitann. Hann hafði fyrr um morguninn framkvæmt áður óhugsandi aðgerð er hann flutti hluta af lifur ungrar íþróttahetju og kom henni haganlega fyrir í rosknum lifrarþega.
Hann var stoltur af þessari einstöku aðgerð því hann vissi sem var að hann var fyrsti læknir á jarðarkringlunni sem hafði tekist þetta áður óvinnandi verk.
Guðbrandur sá fyrir sér hvernig hann yrði hylltur á næsta læknaþingi og velti því fyrir sér hvort hann ætti yfirleitt að mæta. Það gat jafnvel sýnt enn meiri persónustyrk að láta ekki sjá sig. Og sýna með því að aðdáun alheimsins væri honum lítils virði, honum væri einungis hugleikinn bati sjúklinga sinna. Kannski ætti hann að slá tvær flugur í einu höggi og senda móður sína í sinn stað og sýna þar með fram á hversu kært væri á milli þeirra. Það myndi líka gleðja móður hans ósegjanlega en hún hafði af því ærna skemmtun að fara á mannamót og njóta þeirrar athygli og aðdáunnar sem því fylgdi að vera móðir hans.
Hann heyrði öfundarraddir starfsfélaga sinni hljóma í höfði sér. Gubbi, alltaf skal hann verða fyrstur. Gubbi, bölvað beinið.
En þessu var Guðbrandur auðvitað alvanur, það var nánast daglegt brauð að hann væri hylltur af sjúklingum, aðstandendum og starfsfólki spítalans, allt frá ræstingafólki af erlendu bergi brotnu upp í þrautlærða sérmenntaða lækna. Að baki lofinu lá þó gjarnan öfund og óheilindi sem var hægðarleikur fyrir Guðbrand að greina í raddblæ starfsfólksins.
Hann ákvað þó að fara með möntruna sína:
Sjúklingana í fyrsta sæti ! Með hverri aðgerð ég mig bæti!
Þessa möntru notaði Guðbrandur daglega til að minna sig á mikilvægi þess að vera trúr yfir litlu og láta ekki glepjast af velgengni sinni og yfirburðum. Er hann hafði farið með möntruna fyrir munni sér ákvað hann af skyldurækni að líta til sjúklinga sinna.
Sá roskni var himinlifandi með lifrarsneiðina og lágu þau nú hlið við hlið unga íþróttahetjan og sá gamli og spiluðu rommý. Guðbrandur staldraði við hjá þeim augnablik en mátti þó engan tíma missa því framundan voru fjórtán aðgerðir og allar ákaflega vandasamar.
Það nægði honum að sjá að sjúklingarnir höfðu tekið upp frístundaiðju og spjölluðu um atburði líðandi stundar. Það var augljóst batamerki.
Guðbrandur óskaði þess að Járngerður Brynja yrði með honum á vaktinni þennan daginn.
Því fylgdi gríðarleg öryggistilfinning fyrir sjúklingana að hafa svo traustvekjandi sjúkraliða í návist sinni. Guðbrandur gat reitt sig á Járngerði Brynju í einu og öllu.
Hvort sem heldur var að róa sjúklinga fyrir svæfingar eða ganga frá umbúðum eftir holskurði eða ágræðslur. Hann hafði í fjarlægð oft dáðst að verklagi Járngerðar. Hvernig hún tók jafnt stálpaða pilta og fullorðnar konur í fangið og róaði fyrir aðgerðir.
Stundum þurfti fólk jafnvel ekki á svæfingu að halda eftir faðmlög Járngerðar Brynju því svo undur sefandi áhrif hafði hún á sjúklinga sína jafnt unga sem aldna.
Guðbrandi myndi seint líða úr minni þegar farandverkamaður einn hafði verið lagður inn á bráðavakt að næturlægi með gríðarlegt gallsteinakast og alveg hreint emjandi af kvölum. Járngerður Brynja hafði þá með augnaráðinu einu saman friðað manninn, tekið hann síðan í fangið og haldið honum þéttingsfast að barmi sér. Það leið ekki á löngu þar til farandverkamaðurinn svaf svefni hinna réttlátu og þurfti ekki frekari svæfingar við.
Í augnablik óskaði Guðbrandur sér þess að hann gæti lagst í fang Járngerðar og hvílst stutta stund. Hann var þreyttur. Þreyttur eins og barn að afloknum fyrsta skóladegi. Álagið sem hann hafði verið undir síðustu mánuði var farið að segja til sín.
Hvað hann myndi ekki gefa fyrir að fá að halla aftur augunum þó ekki væri nema eitt andartak í faðmi þessarar stórbeinóttu, fílefldu starfssystur sinnar.
Athugasemdir
skemmtileg móðurtengingin - það vantar náttúrulega enn meinatækni - og einn illskeyttan, valdasjúkan úr stjórnarapparatinu- og litla erlenda ræstingakonu sem enginn sér.
María Kristjánsdóttir, 6.9.2007 kl. 19:41
góðar ábendingar Maja...ég kemst alveg á flug sér í lagi með ósýnilega austurlandablómið
Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, 6.9.2007 kl. 19:57
Sammála Maríu, vantar einn úr stjórnarapparatinu, bíð eftir meiru um Guttorm, og Járngerður, ég er alltaf jafnspennt hvernig hún gengur upp. En áfram Steinunn Ólína.
Sólveig Hannesdóttir, 6.9.2007 kl. 22:38
Finnst óþarfi að láta hæla mér svona fyrir það eitt að vinna vinnuna mína.
Kveðjur,
Járngerður Brynja Líkafrónsdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir, 7.9.2007 kl. 10:21
Hér hef ég komist í feitt.
Ég er nefnilega búin að lesa allar bækurnar eftir Ingibjörgu Sigurðar nema Hauk lækni en þá bók finn ég hvergi, því miður. Læknaklám á margt sameiginlegt með sögum Ingibjargar; skýr persónusköpun, náungakærleikur, sjúkrahús...það sem helst greinir á milli er að ástin fellur svolítið í skuggann af fýsnum en það er kannski því höfundur eru ekki af sömu kynslóð, já svo vantar líka nærveru almættisins.
En ég hlakka verulega til næsta kafla.Sara (IP-tala skráð) 7.9.2007 kl. 21:48
'Eg get ekki stillt mig varðandi spekulationir mínar varðandi hina umhyggjusömu Járngerði, en þiggur þessi kona laun?
Sólveig Hannesdóttir, 7.9.2007 kl. 22:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.