21.8.2007 | 20:03
Læknaklám! Læknaklám! 6.kafli
Á vaktinni
Sjötti kapítuli
Guðbrandur læknir kyngdi fleytifullu vatnsglasi og heilsaði upp á næturvaktina.
Hann hafði rokið í hendingskasti upp á spítala þar sem hann var á bakvakt þessa nóttina.
Að vera á bakvakt var samt ekkert sumarleyfi í augum Guðbrands og því fylgdi að honum fannst jafn mikil ábyrgð og því að vera á spítalanum í eigin persónu.
Þegar hann var á bakvakt klæddist hann ætíð hvíta sloppnum sínum svo að hann þyrfti ekki að eiga það á hættu að þurfa að leita dyrum og dyngjum að vinnufötunum ef hann yrði óvænt kallaður til vinnu.
Þetta hafði löngum vakið kátínu í vinahóp Guðbrands því svo trúr var hann þessum vana sínum að hann mætti jafnvel svo til fara í kvöldverðarboð sem og á leikhússkemmtanir.
Það hafði reyndar komið sér vel eitt sinn þar sem hann horfði á sjónarspilið um Hamlet danaprins og ein leikkonan sem þjáðist af sviðshita hafði fengið aðsvif. Þá reyndist auðvelt að auðkenna Guðbrand frá öðrum áhorfendum sökum klæðaburðar hans og gat hann samstundis komið leikkonunni til hjálpar.Guðbrandur hafði þá sem frægt var orðið tekið að sér að fara með lokaræðu leikkonunnar þar sem hún lá meðvitundarlaus og þótti flutningur Guðbrands með ólíkindum góður.
Það hafði reyndar verið í leikhúsferð sem Guðbrandur fékk vitrun um það sem fyrir honum átti að liggja. Hann hafði þá verið aðeins sex vetra ásamt móður sinni að horfa á leikritið um kumpánana Karíus og Baktus. Strax þá barn að aldri hafði hann fundið fyrir ósegjanlegri löngun til að hrekja á brott þá óværu sem gerir sig heimakomna í líkömum mannanna hvort sem heldur er í munni eða mænu.
Guðbrandur hafði vanið sig á að vera ávallt viðbúinn þegar hann var á bakvakt og svaf því lítið sem ekkert þessar nætur og hafðist að mestu við í sitjandi stöðu í hægindastól sem hann hafði rétt við útgöngudyrnar. Læknatöskuna hafði hann nærtæka á vinstri hönd og bíllyklana á litlu innskotsborði til hægri handar. Símboðann hafði hann við hjartastað og hafði Guðbrandur ,,litla áminnarann eins og hann kallaði tækið jafnan stilltan bæði á titring og hringingu til að eiga það aldrei á hættu að missa af kalli.
Hann hafði verið kallaður til vegna tvítugrar skólastúlku sem hafði í ógáti hellt yfir sig brennandi hamsatólg. Tólgin hafði slest yfir bringu hennar og þjóhnappa þar sem hún hafði í óðagotinu snúist á hæli og borið bakhlutann fyrir sig. Þetta var falleg greindarleg stúlka og bar það með sér að vera vel ættuð. Guðbrandur kynnti sig fyrir stúlkunni sem lá emjandi af kvölum á bedda inn af bráðavaktinni. Hann tók þéttingsfast í hönd hennar og kynnti sig. Hann fullvissaði hana síðan að kvalir hennar yrðu senn á enda því hann myndi gera allt sem í hans valdi stæði til að lina þjáningar hennar.
Svanhvít hafði verið á heimleið þegar hún varð þess vör að Guðbrandur var komin á vaktina. Hún gerði sér upp helti við samstarfskonur sínar og hélt því fram fullum fetum að hún hefði einungis gott af því að halda sér að vinnu fram eftir morgni því hún gæti þá náð á Sigurfinn bæklunarlækni í morgunsárið. Hún smeygði sér úr heilsárskápunni og smokraði sér í starfsloppinn sinn og rauk inn á herbergið þar sem Guðbrandur stumraði yfir skólastúlkunni. Það var ófögur sjón sem blasti við Svanhvítu þegar hún gekk inn.
Guðbrandur var að fjarlæga gallabuxnaafganga af afturhluta skólastúlkunnar sem höfðu greypt sig í hold hennar þegar óhappið henti. Svanhvít fylltist svo ósegjanlegri afbrýðisemi að henni varð flökurt. Hún hentist fram á gang og kastaði upp í dall sem geymdi notaðar sprautunálar og sondubúta. Hún var enn helsjúk af ást til Guðbrandar.
Athugasemdir
Ég hló og hló, og þvílíkur munur að lesa þetta miðað við annað netþvaður
Helga (IP-tala skráð) 21.8.2007 kl. 21:21
Vúps, "heavy and hardcore"
Jenný Anna Baldursdóttir, 22.8.2007 kl. 02:56
Ó, himneskt!
"Strax þá barn að aldri hafði hann fundið fyrir ósegjanlegri löngun til að hrekja á brott þá óværu sem gerir sig heimakomna í líkömum mannanna hvort sem heldur er í munni eða mænu"
"...hún hafði í óðagotinu snúist á hæli og borið bakhlutann fyrir sig"
"Hún gerði sér upp helti við samstarfskonur sínar"
Hjálpi mér allir heilagir!!! Klukkan ekki orðin sjö að morgni og ég þegar lömuð úr hlátri!!
Ragnhildur Sverrisdóttir, 22.8.2007 kl. 07:00
Frábærlega skemmtileg lesning. Líður fulllangt á milli kafla. Herða sig...
Rögnvaldur Hreiðarsson, 22.8.2007 kl. 09:36
Meira, meira, en ekki svona langt á milli.Sammála Rögnvaldi..herða sig.
Halldór Egill Guðnason, 22.8.2007 kl. 15:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.