Læknaklám 5. Kafli

 Ég held nú áfram þar sem frá var horfið en bendi viðkvæmum á að fara varlega í lesturinn.

Nú víkur sögunni aftur að Svanhvíti skurðhjúkrunarkonu og afdrifum hennar…



Fimmti Kapítuli.

Svanhvít skurðhjúkrunarkona leysti upp Natrón í ofurlitlu vatni á grunnri undirskál og dreypti á.       Þetta gamla húsráð var að hennar mati besta hjálpin við þeim nöturlega brjóstsviða sem hún hafði þjáðst af allar götur síðan hún í óvitaskap saup á Ajax-upplausn þá fjögurra vetra.
Þetta atvik hafði valdið varanlegum truflunum í meltingu Svanhvítar og gert það að verkum að munnvatnsframleiðsla hennar var óvenju stríð. Hún gerði nú lítið úr þessum bagalega kvilla og gantaðist jafnvel með það við samstarfsfélaga sína að Drottinn hefði gleymt að drena sig, eins og hún orðaði það.


Hún var í góðu skapi þennan dag og vel útsofin sem var óvanalegt,en gott því framundan þennan morguninn voru fjórtán kirtlatökur. Guð einn mátti vita hvað eftirmiðdagurinn myndi bera í skauti sér. En Svanhvít var nú ekki að velta sér upp úr því. Hún var fagmanneskja og jafn vel undirbúin undir minniháttar aðgerðir sem og inngripsmikla líffæraflutninga.


Svanhvít vaknaði snemma og tók sér góðan tíma í morgunverkin. Hún lét renna í ylvolgt bað, ekki of heitt, því þá gat hún átt það á hættu að bresta á með svitaköstum og jafnvel með bannsettri roðflekkjapestinni sem hafði ágerst ef eitthvað var síðastliðnar vikur.
Svanhvít gerði sér grein fyrir hvað olli þessu og hafði af því nokkrar áhyggjur.

Guðbrandur. Guðbrandur Gunnvaldsson með stóru G-i.
Guðbrandur læknir vék ekki úr huga Svanhvítar þó hún hefði fylgt ítarlega ráðleggingum Andrésar geðlæknis sem hafði af alkunnu innsæi boðist til að annast hana þegar hann hafði orðið þess áskynja hversu þungt haldin Svanhvít var.


Andrés hafði ráðlagt Svanhvíti að gera sér í hugarlund eftirfarandi aðstæður þegar hún legðist til svefns á kvöldin. Hún átti að ímynda sér að hún væri stödd með Guðbrandi á afvikinni strönd í sólskini og eilífðarstillu. Ekkert nema hafið framundan og himininn yfir þeim. Hún átti síðan,í huganum, að standa á fætur, bein í baki, grípa farsímann sinn og panta leigubíl fyrir Guðbrand og senda hann á aðra strönd. Kalda hrjóstruga óvinsamlega strönd. Síðan átti hún að horfa á eftir bílnum inn í sólarlagi og veifa til hans fullviss um að þar hefðu leiðir þeirra skilið að fullu.


Svanhvít átti ekki erfitt með að lifa sig inn í aðstæður af þessu tagi því auðvitað vildi hún endurheimta sjálfstæði sitt og ná fullum bata. Hún hafði því samviskusamlega fylgt þessum ráðum Andrésar en það virtist ekki koma að fullu gagni því að í huganum var hún alltaf komin í humátt á eftir Guðbrandi í einkabíl og innan tíðar elskuðust þau af ákefð innan um rekavið, beitukónga og þangþúfur. Þar þvældu þau saman líkömum sínum í svörtum sandinum í ofsafengnum atlotum með beljandi hafið í bakgrunni og myrkan himininn yfir sér.


Kannski var það sökum þess að í þessari íhugun Svanhvítar þvældist ævinlega fyrir henni símanúmer leigubílastöðvarinnar sem hún átti að hringja í og einhvernvegin rauf innlifunina og um leið afvegaleiddi hana.


Svanhvít lagðist í baðkarið og lygndi aftur augunum. Svona morgnar voru hennar helgustu stundir. Kona og vatn. Vatn og kona. Hún lét ylvolgt baðvatnið leika milli fingra sér og og strauk rökum fingrunum yfir búlduleitt andlitið. Hún varð að slökkva þennan óstöðvandi eld sem hún bar í brjósti sínu af sama kappi og þeir eldberar sem hlaupa um með kyndilinn við upphaf ólympíuleikanna.

Með einhverju móti skyldi henni takast að berja niður hvatir sínar. Í þessum þönkum burstaði hún líkama sinn með grófum bursta svo húðin varð öll helrauð og upphleypt.

Hún kveinkaði sér þó ekki því hún vissi sem var að með illu skyldi illt út reka.





« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elín Katrín Rúnarsdóttir.

Nei! nú veina ég af hlátri  Þú drepur mig kona, púkarnir mínir horfa á mig eitt spurningamerki????? Hvað er að mömmu????? he he he......þetta minnir mig pínulítið á bílastæðaverðina í fóstbræðrum........manstu eftir því???? er Svanhvít dóttir Hafsteins, er Gunnar týndur, kemur Sigurður í leitirnar, fylgist með í næsta þætti

Elín Katrín Rúnarsdóttir. , 30.7.2007 kl. 11:13

2 Smámynd: Ragnhildur Sverrisdóttir

Takk kærlega

Viltu vera svo væn að láta ekki langan tíma líða í 6. kafla Læknakláms.

Ragnhildur Sverrisdóttir, 30.7.2007 kl. 15:22

3 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Ég segi einsog Ragnhildur- ekki of langan tíma. Þetta með númerið á leigubílastöðinni var flott.

María Kristjánsdóttir, 30.7.2007 kl. 18:41

4 Smámynd: Eva Þorsteinsdóttir

Aumingjans greyið Svanhvít .... ég táraðist.

Eva Þorsteinsdóttir, 30.7.2007 kl. 18:52

5 identicon

Ekki myndi ég nenna að sofa hjá hjúkkum sem þvælast bara niðri í skurðum úti á túni, svokölluðum skurðhjúkrunarkonum. Mikið skemmtilegra að vera með þeim sem eru úti um hvippinn og hvappinn, almennum hjúkrunarkonum.

Mási Móðason yngri (IP-tala skráð) 30.7.2007 kl. 22:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband