7.7.2007 | 04:59
Læknaklám 4. kafli
Ég tek eftir því að enn eru erótískar sögur efstar á vinsældalista moggabloggsins. Ég hóf fyrir stuttu að skrifa sögu sem ég kalla Læknaklám. Þrátt fyrir litlar undirtektir og engar vinsældir sögunnar hef ég ákveðið að halda ótrauð áfram og birtist því hér fjórði kafli.
Fyrstu þrjá kaflana má finna hér á blogginu mínu en sagan er þess eðlis að hana má lesa hvort sem heldur er afturábak eða áfram. Ekki er hér um stílbragð að ræða heldur er sagan einfaldlega svo rýr að efnisburðum að litlu skiptir hvernig hún er lesin og sennilega er fólki hollast að lesa hana alls ekki.
4. Kapítuli
Járngerður Brynja mataði aldraða embættismanninn af stakri natni. Það þurfti bæði fagmennsku og lagni til að koma vellingnum ofaní aldraða embættismanninn því hann var á mörkum svefns og vöku sökum þeirra feiknarlegu lyfjaskammta sem æddu um æðar hans. Vellinginn hafði Járngerður lagað sjálf eftir uppskrift úr dönsku sjúkraliðablaði.
Aldraði embættismaðurinn var ennþá gríðarlega máttfarinn og hugsaði Járngerður Brynja með sér að hún þyrfti sennilega að veita manninum rúmbað að máltíð lokinni. Það væri óðs manns æði að ætla að hann gæti gengið óstuddur inn á baðherbergið svona stuttu eftir aðgerð. Hvað ef honum myndi skrika fótur eða villast um afkima spítalans. Á það var hreinlega ekki hættandi, því Járngerður vissi sem var að þjóðaröryggi væri í húfi.
Járngerður Brynja vildi líka fá að annast hann ein. Að baða aldraða embættismanninn var nokkuð sem hún vildi ekki fyrir nokkurn mun deila með starfsystrum sínum. Hana langaði í eitt augnablik til að klæða gamla manninn úr baðmullarfötunum og umvefja hann örmum eins og barn. Hún vissi sem var að þetta gæti hún ekki látið eftir sér því það samræmdist ekki siðareglum starfsmanna í heilbrigðisgeiranum. Hún yrði þrátt fyrir fýsnir sínar að sýna fyllstu fagmennsku í allri umgengni við aldraða embættismanninn.
Allt í einu veitti hún því athygli að annar fótur aldraða embættismannsins stóð undan sænginni. Fölur nær hárlaus grannur leggur og hvítur sokkur merktur spítalanum. Ekki ólíkt biðukollu á haustdegi lífs síns. Járngerður fylltist losta við þessa sýn og hjartslátturinn varð örari. Hún lagði frá sér vellinginn á náttborðið og hneppti varlega frá efstu tölunni á níðþröngum sloppnum sem hún klæddist.
Járngerður veitti því athygli að það færðist roði í kinnar aldraða embættismannsins og henni snögghitnaði allri. Aldraði embættismaðurinn virtist vilja segja henni eitthvað því hann reyndi í sífellu að mynda orð með bláleitum vörunum.
Járngerður gat ekki vel greint hvað hann vildi henni þó hún væri afbragðsgóð í varalestri en sætti lagi og spurði hann hvort honum væri það nokkuð á móti skapi að hún baðaði hann í einrúmi. Aldraði embættismaðurinn muldraði fáein orð til samþykktar og virtist frekar hlakka til baðsins.
Járngerður fylltist eftirvæntingu við tilhugsunina.
Að fá að strjúka aldraða embættismanninum með ylvolgum þvottapoka hátt og lágt.
Hún þeyttist fram á gang og hljóp við fót inn á línið. Hún blístraði lagstúf úr ítalskri gamanóperu sem hún hafði séð sem barn og hló með sjálfri sér.
Þegar inn á lín var komið tók hún til tvö drifhvít þvottastykki til ofanþvotta og fjóra fölgræna svampa til neðanþvotta. Svo mikill var gassagangurinn í Járngerði að minnstu mátti muna að hún fengi yfir sig bala með sterkri klórblöndu sem einhver hafði skilið eftir í efstu hillu.
Járngerður staðnæmdist við latexhanskaboxið og ákvað að láta þá eiga sig í þetta sinn.
Hún vildi veita aldraða embættismanninum persónulega þjónustu ef þetta bað yrði hans síðasta.
Athugasemdir
Ég er með sama blæti. Æsileg frásögn. OMG
Jenný Anna Baldursdóttir, 7.7.2007 kl. 12:17
Ég get ekki beðið eftir næsta kafla ... Bold and the Beautiful fölna við hliðina á læknaklámi þínu Steina mín.
Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir, 7.7.2007 kl. 13:16
Amen Steina, en þú gleymir lýsingarorðunum sem eru vinsæl hjá öðrum klám bloggara.......dæmi "víðlesna en feimna vinkona mín, leit í augun á sveiganlegu, vandfýsnu vinkonu sinni"....Ef að ég hefði lesið þetta í skóla hefði ég náð þessu með lýsingarorðunum.... Mætti kannski panta sögu hjá þér?
Garún, 7.7.2007 kl. 13:31
Er langt í 5. kafla?
Halldór Egill Guðnason, 7.7.2007 kl. 14:02
Sæl Garún,
þér er velkomið að panta sögu hjá mér. Hvernig sögu? spennusögu...ástarsögu...örlagasögu...gamansögu...hryllingssögu ...just name it!
Einnig tek ég að mér að yrkja tækifærisvísur og semja minningagreinar.
Hvenær næsti kafli birtist er óvíst á þessari stundu.
Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, 7.7.2007 kl. 20:27
You had me at Járngerður. Æsispennandi.
krossgata, 8.7.2007 kl. 00:09
Hver er prísinn fyrir minningargrein.? Nægir að senda "brief summary"um viðkomandi, eða þarf það að vera í "detailes"?
(Bíð spenntur eftir fimmta kafla Læknakláms)
Halldór Egill Guðnason, 8.7.2007 kl. 01:39
Ég tek engar greiðslur fyrir viðvikið.
Halldór... ég treysti mér fullkomnlega til að skrifa minningargreinar um fólk án þess að vita nokkur deili á því. Hægur vandi.
Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, 8.7.2007 kl. 07:17
fullkomlega átti það auðvitað að vera
Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, 8.7.2007 kl. 07:18
Vinsælu klámsögurnar finnst mér ekki fyndnar, samt er ég sérlega hláturmilld og skondin skrúfa en sögurnar þínar bókstaflega gera útaf við mig af hlátri.... og bloggin þín eru sérlega skemmtileg lesning takk fyrir að vera bloggvinkona mín
Elín Katrín Rúnarsdóttir. , 9.7.2007 kl. 01:36
OK. Þar sem stutt er í mína grein, óska ég eftir henni....pronto. "Time is running out" Vantar samt enn verðið...? Vil ekki rýra erfðaskrána.
Halldór Egill Guðnason, 9.7.2007 kl. 02:28
Spurningin um verðið sýnir svo ekki verður um villst, hversu stutt er í að greinina sárvanti.
Halldór Egill Guðnason, 9.7.2007 kl. 02:29
Já og takk fyrir að gerast bloggvinkona.. ef ske kynni að ég meikaði ekki næstu færslu.
Halldór Egill Guðnason, 9.7.2007 kl. 02:37
Halldór....enn og aftur....ég tek engar greiðslur fyrir...
hvað viltu helst að komi fram í minningargreininni þinni?
kk
Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, 9.7.2007 kl. 05:30
Hvað meinarðu engar vinsældir? Ég sé ekki betur en hálf þjóðin standi á öndinni af spennu. Ég meðtalin. Átti leið um Soho um daginn og leit inn í nokkrar fullorðinsbúðir. Haggaðist ekki. Nú er ég komin með léttan fiðring! Áfram, áfram...
Svo býst ég við að öruggast sé að skrifa sína eigin minningargrein og hafa tilbúna. Það veit jú enginn betur en maður sjálfur hvað maður er ótrúlega frábær og spes.
Edda Jóhannsdóttir, 9.7.2007 kl. 10:41
Eitthvað sem enginn veit, væri ágætt. Verið ferlega lélegur að koma fólki á óvart gegnum tíðina og væri því dálítið "töff" að klikkja út á endastöðinni með óvæntum upplýsingum um mig í minningargreininni. (Það gæti allavega enginn jagast í manni eftir lestur hennar )
Halldór Egill Guðnason, 9.7.2007 kl. 15:41
Er einhver sem hefur tíma til þess að lesa svona langlokur?
Gísli Bergsveinn Ívarsson, 9.7.2007 kl. 17:16
Þessi erótíska saga er tær snilld! Ég er að velta fyrir mér hvort ég á að halda áfram að lesa hana hérna á blogginu eða bíða eftir bókinni, sem hlýtur að koma. Nú, eða bíómyndinni, en hún verður þá að vera þýsk, minna dugar ekki fyrir Járngerði.
Ragnhildur Sverrisdóttir, 9.7.2007 kl. 20:02
Mwahahahhaha!
Hrafnhildur (IP-tala skráð) 10.7.2007 kl. 13:47
Ég bið um minningargrein. Ég vil að þar segi höfundur kost og löst á mér sem félagsmeinafræðingi og mannfýlu og dragi ekkert undan.
Már Högnason (IP-tala skráð) 10.7.2007 kl. 19:22
Haltu þig bara við læknaklámið, minningargreinabransinn er töff......
Eva Þorsteinsdóttir, 13.7.2007 kl. 21:56
Líst betur á læknaklámið heldur en síðu keppinautar þíns! bíð spennt eftir framhaldinu
Guðrún Sæmundsdóttir, 14.7.2007 kl. 12:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.