30.6.2007 | 17:35
Baldin í umferðinni
Ég þekki eina fjörgamla konu. Öll hennar börn eru uppkomin fyrir löngu og barnabörnin og jafnvel barnabarnabörnin komin á fót. Sú gamla hefur að mestu legið í nútíma kör undanfarin ár. Hún hefur um árabil talið fjölskyldu sinni trú um að nú væri þetta að verða búið og má segja að allir hafi verið í jarðarfararstartholunum um lengri tíma.
Hún er lítið fyrir að fara af bæ og hefur hingað til verið afar rög að setjast upp í bíl sökum bílhræðslu. Útivist hefur heldur ekki átt við hana og því hefur hún að mestu setið inni við og hlustað á útvarpið.
Nýlega fór að bera á undarlegum persónuleikabreytingum hjá gömlu konunni. Hún er allt í einu orðin sólgin í sólböð og notar hvert tækifæri til að sleikja sólina. Hún er líka orðin æst í bíltúra og hvetur bílstjórana áfram og stefnir þeim eiginlega í hálfgerðan voða með kappsfullum hvatningarorðum: ,,Keyrðu hraðar" ,,Förum aftur í þessa brekku" og þar fram eftir götunum.
En þegar maður hugsar útí það þá er greinilegt hvað hér er á ferðinni. Gamla konan er augljóslega haldin gríðarlegri dauðaþrá.
Og hvernig er þá best að enda þetta? Snúast ekki margar fréttir um skaðsemi sólbaða og slys í umferðinni? það er sennilega ekki hlaupið að því að deyja úr húðkrabbameini en það eru töluverðar líkur á að enda lífið í umferðarslysum eins og umferðarmenningin er á Íslandi.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.