23.6.2007 | 21:05
Placido Domingo og Kirk Douglas í Hollywood Bowl !
Sumrinu var fagnað í 86. sinn í Hollywood Bowl í gærkvöldi. Lengst af var þetta sumarheimili LA Fílharmóníunnar en í tæpa tvo áratugi hefur Hollywood Bowl hljómsveitin átt þar heima undir stjórn John Mauceri.
það er hreint ævintýri að vera viðstaddur tónleika í þessu glæsilega útitónleikahúsi. Fólk byrjar að streyma að löngu áður en tónleikarnir hefjast og borðar út í guðsgrænni náttúrunni.
Fólk kemur með körfur og kælibox hlaðin af sælkeramat. Vín að eigin vali. Við fjölskyldan keyptum okkur reyndar aðföng á staðnum enda úrvalið gríðarlegt. Nýmatreitt snildarsushi...samlokur...frábært vín og bjór.
þetta tekur maður síðan með sér inn í sjálfa skálina þar sem áhorfendur sitja í hálfhring í kringum sviðið.
Hollywood Bowl er eitt af stærstu útileikhúsum í heimi og rúmar tæplega 18.000 manns.
Mér fannst ég nú helst hafa lent í tímavél þegar Kirk Douglas steig á svið. Hann byrjaði á því að tala um það hversu heitt hann óskaði þess að vera aftur orðin 86 ára (þ.e.a.s. jafngamall Hollywood Bowl) en Kirk er fæddur 1916.
Hann fékk slag fyrir um tíu árum síðan sem hafði mikil áhrif á talgetu hans en það aftraði honum ekki frá því að gera stólpagrín að sjálfum sér og vini sínum Placido Domingo sem hann var þarna að hylla. Kirk tók síðan nokkur danspor og söng af hjartans lyst.
Svo sagði hann frá því hversu oft hann og fjölskyldan hefðu notið tónleika í Hollywood Bowl ,, Under The Stars" og hálf klökknaði. Hann var eiginlega alveg dásamlegur og var honum ákaft fagnað af LA búum sem sannarlega kunnu að þakka þessum ástsæla aldna leikara.
Stjórnandinn John Maurceri var heiðraður í ræðu af leikaranum Jason Alexander sem margir muna eftir úr Seinfeld þáttunum. Hann gerði sér líka lítið fyrir og flutti sjö söngleiki á sjö mínútum.
leikkonan og söngkonan Carol Lawrence sem var sú leikkona sem fyrst fór með hlutverk Maríu í söngleiknum Westside Story á Broadway 1957 kom fram og sagði gamansögur af ,,stráklingunum" Bernstein og Sondheim.
Síðan kom John Mauceri sjálfur á svið og stjórnaði Strengjaserenöðu í C-dúr Op.48 eftir Tchaikovsky og ungar ballerínur fluttu fyrsta kafla hins fallega ballets ,,Serenade" eftir George Balanchine.
Eftir hlé var fyrstur á svið æringinn og leikarinn Jack Black. Hann var úfinn og órakaður og sagðist vita að fólk liti svo á að hann ætti ekki heima á þessu sviði þar sem hann væri ekki ,,klassískur". Hann fullvissaði fólk um að það væri kolrangt því hann væri algerlega ,,klassískur" og hoppaði um sviðið og æpti: ,,Ég er klassískur" ,,Ég er klassískur"
Hann var þarna kominn til að minna á ,,Music Matters" einskonar ,,Músík fyrir alla" sem rekið er á vegum LA Fílharmóníunnar og mikilvægi þess að allir ættu möguleika á því að njóta tónlistar og þá sérstaklega börn.
Hann söng síðan frumsaminn texta við m.a. 5. sinfóníu Beethoven í sprenghlægilegri syrpu við undirleik hljómsveitarinnar og gerði það frábærlega.
Nú var komið að því að heiðra Placido Domingo fyrir ævistarf sitt og bjóða hann velkominn í ,,Hall of Fame" Domingo þarf vart að kynna en hann hefur verið listrænn stjórnandi LA óperunnar allt frá upphafi. Hann fer líka með stjórn óperunnar í Washington. það fer ekki á milli mála að LA búar eru ákaflega stoltir og hrifnir af honum.
Fyrstur til að heiðra Domingo var Sean Connery og þar á eftir leikarinn Joe Mantegna. Hann hélt því fram að Domingo hefði aldrei tekið það í mál að koma fram nema á þeim stöðum þar sem hann gat komist til að horfa á góðan fótbolta. ,,Haldið að það sé tilviljun að Domingo er gjarnan að syngja þar sem heimsmeistarakeppnin í fótbolta fer fram" Undir þessari ræðu birtust myndbönd og myndir af Domingo að spila fótbolta við ýmsar kostulegar aðstæður til dæmis í fullum óperuskrúða. Ætli hann hafi spilað fótbolta í hléum á óperusýningum? Leikarar taka sér nú ýmislegt fyrir hendur þegar beðið er baksviðs...ég man eftir einum sem gjarnan æfir golf....þó nokkrir prjóna....en algengasta tómstundagamanið er að tala í símann.
Og loksins kom sjálfur Domingo á svið. Hann er svo sjarmerandi að það er beinlínis lífshættulegt. Hann talaði lengi um ævistarf sitt af mikilli hæverskni. Er það ekki athyglisvert að flestir alvöru listamenn eru gersamlega lausir við hroka? Domingo Þakkaði áhorfendum um allan heim fyrir móttökurnar í gegnum árin. Talaði um hugðarefni sín m.a. ungt tónlistarfólk og nauðsyn þess að gera tónlistarmenntun eðlilegan þátt að námi allra barna. Domingo hefur ekki bara starfað sem söngvari heldur hefur hann stýrt óperum og unnið sem hljómsveitarstjóri um allan heim. Domingo er fæddur á spáni en fluttist snemma með fjölskyldu sinni til Mexíkó. Hann þakkaði að endingu klökkur LA óperunni og WNO fyrir gæfuríkt samstarf.
Domingo er auðvitað orðinn fullorðinn en röddin er mjög falleg ennþá. Hann söng þrjú lög við undirleik hljómsveitarinnar þar á meðal Granada eftir Augustin Lara sem hann gerði af innlifun og mikilli tilfinningu. Ég snýtti mér í vasaklút. Síðan kom hin frábæra leik og söngkona Kristin Chenoweth og söng með honum ,,Make belive" úr söngleiknum Showboat.
kvöldið endaði síðan á því að hljómsveit Hollywood Bowl flutti svítu eitt og tvö úr Carmen eftir Bizet undir stjórn Alexanders Mickelthwate sem nýtekinn er til starfa sem stjórnandi hljómsveitarinnar. Frábær flugeldasýning og ég verða að segja að ég hef aldrei séð flugeldum leikstýrt jafn skemmtilega.
Kvöldinu öllu var stýrt af mikilli smekkvísi og fágun. Efniviður kvöldsins var kannski í léttari kantinum en listamennirnir voru þungavigtar og kvöldið eftir því eftirminnilegt.
Athugasemdir
Já það er alltaf svo gaman að fara í Hollywood Bowl, nokkrir tónleikar sem mig langar að fara á þar í sumar. Gott að þið áttuð gott kvöld í gær, það sama átti nú ekki alveg við okkur þar sem við enduðum með dótturina niðrá ER. En allt fór vel að lokum.
knús á línuna,
Sirrý
Sirry (IP-tala skráð) 23.6.2007 kl. 22:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.