18.6.2007 | 18:55
Rafmagnaðar sögur
Stefán keypti sér lítinn hákarl til að leika sér með í lauginni sem kannski er ekki í frásögur færandi nema fyrir það að hann reyndist vera lifandi, eða því sem næst.
Í gærkvöldi sátum við úti og horfðum á stjörnurnar (eða þannig) og þá fór hákarlinn allt í einu af stað einn síns liðs. Hann synti um laugina hring eftir hring. Af og til lenti hann á einhverri fyrirstöðu því laugin var full af leikföngum og þá minnti hann óneitanlega á Keiko þegar hann nauðgaði dekkinu hvað mest um árið.
þetta var furðulegt því það var löngu búið að slökkva á kvikindinu. Ekki er allt sem sýnist.
þetta minnti mig af einhverjum ástæðum á tvær eldri konur sem ég þekki býsna vel.
Sagan af þeim ætti vel heima í Íslenskri Fyndni.
Þær kellur voru einhverju sinni á leiðinni norður í land. Bíllinn var drekkhlaðinn af dóti því þær ætluðu að dvelja sumarlangt í húsi fyrir norðan. Ferðin gekk nú bara býsna vel þar til að þær komu í Hrútafjörðinn. Þá brast á með ærandi diskótónlist.
Sú sem sat í bílstjórasætinu hélt að hún hefði rekið sig í útvarpið og fór því eitthvað að eiga við það.
Allt kom fyrir ekki og ekki reyndist vinnandi vegur að þagga niður í græjunum.
því sátu þær sem eftir lifði ferðarinnar í beljandi hávaða alla leið inn á Akureyri.
þegar þangað var komið fannst þeim orðið nóg um þessa hávaðamengun og óku drossíunni inn á bílaverkstæði. Elskulegur starfsmaður kom aðvífandi og spurði hvort hann gæti orðið þeim að liði. Þær héldu það nú og báðu manninn að aðstoða sig við að lækka í fjárans útvarpinu.
Starfsmaðurinn bograði yfir tækinu góða stund en hafði ekki erindi sem erfiði og reif þá tækið hreinlega úr sambandi. Allt kom fyrir ekki og tónlistin hélt áfram að dynja í Eyjafirðinum.
Klóruðu þau þrjú sér nú dágóða stund í kollinum.
Þá mundi skyndilega önnur konan að hún hafði hafði tekið með sér útvarpstæki sem hún hafði pakkað ofaní tösku. Og var þar skýringin komin.
Athugasemdir
dásamlegt-
María Kristjánsdóttir, 18.6.2007 kl. 19:04
Hehe frábært :D
Ragga (IP-tala skráð) 18.6.2007 kl. 19:15
Það ber líka að varast að fara í ferðalög með rafmagnstannbursta..... mæli ekki með því!
Eva Þorsteinsdóttir, 18.6.2007 kl. 19:19
Góður þessi. Ég hakka til að fylgjast með skrifum þínum.
Jórunn Sigurbergsdóttir , 19.6.2007 kl. 10:09
Ég er ennþá að bíða eftir myndum sem ein fröken Steinolía sagðist myndu senda mér fyrir nokkru síðan...og hér sit ég þá bara áfram og bíð :)
knús á liðið
kolls&Co
Kolla (IP-tala skráð) 19.6.2007 kl. 17:04
Kolla min ég kann ekki að senda myndir..sendi B bara með þær heim til íslands á diski.
Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, 19.6.2007 kl. 21:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.