17.6.2007 | 22:56
Himnasængin...í 46 gráðum
Litla manneskjan vaknaði fyrir allar aldir og tók þá við brjóstagjöf...
nú er klukkan farin að ganga þrjú eftir hádegi og ég er enn að...
Með þessu áframhaldi verður þess ekki langt að bíða að ég geti vafið brjóstunum um hálsinn á mér eins og trefli ..nú eða gyrt þau ofaní stígvélin ef hér skyldi rigna.
Á því er lítil hætta því við erum í eyðimörkinni og hitinn (46) er ógurlegur.....til marks um það þá setti tengdamamma súkkulaðið í sólbað í gær og bræddi það á augabragði.
Við dæturnar ætlum að reyna að spæla egg á stéttinni seinna í dag!
Við tengdó leiddum saman hryssur okkar í gærkvöldi og buðum familíunni uppá eftirfarandi kræsingar.
Rífandi Risarækjur!
Spínat
mangó
avocado
ferskt kóríander
lime safi
sjávarsalt og svartur pipar
Risarækju hráar og pillaðar
Ólífuolía
hvítlaukur
grænt chilli
Fljótlegt og ferskt!
Skella spínati á stóran disk. Skera avocado og mangó niður í bita... setja í skál ..rífa lúku af kóríander útí.
hella yfir dassi af ólífuolíu og limesafa. Salt og Pipar. Blanda saman og setja yfir spínatið.
Hita ólífuolíu á pönnu og gylla hvítlaukssneiðar og niðurskorið chilli. Rækjurnar síðan steiktar þar til þær eru fallega bleikar. Örstutt á hvorri hlið.
Raða rækjunum eftir smekk ofaná salatið og gæða sér síðan á!
og síðan er það súkkulaði himnasæng...
Það er dýrðlegur eftirréttur og ég er að hugsa um að láta uppskriftina prýða legsteininn minn.
Grafskriftin yrði þá eftirfarandi:
Hér hvílir:
Súkkulaði Himnasæng handa Stórfjölskyldu!
Myljið 20 hafrakexkökur í mél og blandið saman við 80 gr af bræddu sméri. Setjið í botninn á fallegri skál og kælið í ísskáp.
leysið upp 250 gr sykurpúða í 4 mtsk af mjólk við vægan hita. Alls ekki láta sjóða!
bræðið 350 gr súkkulaði ...helst eitthvað gott eins og Valhrona eða Lindt 70% í vatnsbaði. Eða úti á stétt!
þeytið hálfan lítra af rjóma.
Blandið 2 mtsk af rótsterku expressókaffi út í sykurpúðamjólkina. Blandið súkkulaðinu bræddu saman við og að endingu þeyttum rjómanum.
hellið svo öllu saman yfir kexbotninn sem nú er kaldur úr ísskápnum og setjið aftur inn í ísskáp og kælið þar til himnasængin er orðin stíf í skálinni. Ca. 4 tíma.
Blessuð sé minning hennar
Athugasemdir
Komin mið nótt og ég varð tryllingslega svöng við lesturinn. Wúman þú ert hættuleg
Jenný Anna Baldursdóttir, 18.6.2007 kl. 00:32
Úff, get ekki beðið eftir að komast heim og prófa þessa himnasængsuppskrift. Akkúrat sem kona þarf á svona erfiðum mánudögum.
Verða þetta að vera hvítir sykurpúðar?
Ibba Sig., 18.6.2007 kl. 09:27
Úff, get ekki beðið eftir að komast heim og prófa þessa himnasængsuppskrift. Akkúrat sem kona þarf á svona erfiðum mánudögum.
Ibba Sig., 18.6.2007 kl. 09:27
Ætla að biðja Jón að prófa þetta!
María Kristjánsdóttir, 18.6.2007 kl. 14:33
Ég myndi mæla með að hafa púðana eingöngu hvíta....svona af fagurfræðilegum ástæðum.....
Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, 18.6.2007 kl. 15:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.