5.6.2007 | 19:18
Kynferðislegur lögaldur á Íslandi
Á Íslandi þykir enn ekki saknæmt að fólk hafi samræði við 14 ára gömul börn.
Á Íslandi þykir ekki saknæmt að vinahópar taki sig saman og hafi samræði við 14 ára gömul börn.
Það sannar þessi dómur.
Hvenær verður íslenskt samfélag komið á eitthvert plan þar sem borin er virðing fyrir réttindum barna til verndar?
Hvert einasta krummaskuð á Íslandi (að höfuðborgarsvæðinu meðtöldu) býr yfir skuggalegum leyndarmálum þar sem brotið er á börnum daglega í fleirum en einum skilningi.
Hvenær geta börn á Íslandi sagt óttalaust frá því að önnur manneskja hafi brotið á þeim?
Hvenær má búast við því að á Íslandi verði tekið á kynferðisbrotum af tepruleysi og festu?
Hvenær hættir það að vera skammarlegt að hafa verið misnotaður?
Hvað er að í samfélagi sem elur af sér einstaklinga sem hafa litla sjálfsvirðingu og láta bjóða sér svona framkomu sbr. stúlkuna í umræddri frétt?
Hvað er að í samfélagi sem elur upp einstaklinga sem bera enga virðingu fyrir öðrum sbr. drengina í umræddri frétt?
í stað þess að ræða hvað fór úrskeiðis í umræddu partý væri nær að ræða hvað fór úrskeiðis í uppeldi þessara barna og þá á ég ekki eingöngu við foreldra þeirra heldur samfélagið allt.
Í landi þar sem lítil sem engin virðing er borin fyrir börnum er ekki hægt að ætlast til að þau vaxi úr grasi sem ábyrgir einstaklingar með heilbrigða sjálfsmynd.
Hvenær hættir það að teljast eðlilegt á Íslandi að börn stundi kynlíf?
Fjórir piltar sýknaðir af ákæru fyrir kynferðisbrot | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ættum kannski að taka okkur Amerískt réttarkerfi til fyrirmyndar í þessum málum, allvega virðist vera tekið ansi mikið harðar á slíkum afbrotum þar.
Eva Þorsteinsdóttir, 5.6.2007 kl. 19:45
Afbrotin geta verið á tvenna vegu. Saklaus drengur sakaður um nauðgun, sekur drengur sakaður um nauðgun. Birtingarmyndin er yfirleitt á þennan veg.
Ég er móðir drengs sem var ranglega sakaður um nauðgun og líf hans og fjölskyldu lagt í rúst í langan tíma á meðan rannsókn stendur yfir. Slík rannsókn tekur 2-4 mánuði, jafnvel lengur allt eftir fjölda vitna eða þeirra sem eru þátttakendur.
Eftir mína reynslu hef ég ávallt fyrirvarann á þegar ég les um nauðgun og ekki að ósekju. Ég geri mér líka grein fyrir því að það er ekki ákjósanlega staða en ég fordæmi slíkan glæp eigi hann sér stað.
Orðræðan í þjóðfélaginu þarf að breytast og ekki einungis um karlmann sem nauðgar kvenmanni, heldur líka kvenmann sem kærir karlmann fyrir nauðgun að ósekju. Málaflokkurinn er vandmeðfarinn og verður aldrei svo að hægt sé að taka á málum þannig að fullt réttlæti nái fram að ganga.
Ég leyfi mér að taka undir orð Ólínu um kynlíf barna, hvað veldur að börnum skuli liggja lífið á að prófa hinar ýmsu kynlífsathafnir og eigum við sem foreldrar og samfélag að samþykkja slíkt.
Eðli málsins samkvæmt kem ég ekki undir nafni.
NN (IP-tala skráð) 5.6.2007 kl. 20:04
Steinunn ertu búin að lesa dóminn?
Hér er linkur http://www.domstolar.is/domaleit/nanar/?ID=S200700262&Domur=2&type=1&Serial=1&Words=
Einar Þór Strand, 5.6.2007 kl. 20:20
Já. Afspyrnu óhugguleg lesning. Sérstaklega þar sem um ræðir börn í öllum tilfellum.
Samkvæmt skilgreiningu umboðsmanns barna eru allir einstaklingar undir 18 ára aldri börn.
Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, 5.6.2007 kl. 20:35
Steinunn heldur þú í alvöru að þú getir látið fólk bíða með kynlíf til 18 ára aldurs?
Reyndar er grunnatriðið þarna að fólk verður að standa við þegar það gefur samþykki, það er ekki hægt að vakna upp daginn eftir með bömmer og finna einhvern annan til að kenna um hvernig fór, hefðir þú í alvöru viljað að drengirnir hefðu verið dæmdir fyrir nauðgun eins og framburður hennar er í dómnum?
Í Kaliforníu hefði það ekki gerst og á ekki að gerast hérna heldur.
Einar Þór Strand, 5.6.2007 kl. 21:39
Nei, það held ég ekki. En mér finnst afstaða ungs fólks til kynlífs frekar uggvænleg.
Og kynferðislegan lögaldur þarf að hækka ég held það sé ljóst.
Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, 5.6.2007 kl. 21:56
Sæl Steinun
Í þessu máli eru allir þátttakendur undir kynferðislegum lögaldri. Allt unglingar sá elsti 17 ára. Það að hækka lögaldurinn breytir engu í þessum efnum.
En dómurinn er andstyggileg lesning. Þarna eru börn sem eru gersamlega búin að missa allt jarðsamband vegna klámvæðingarinnar og það sem er enn verra, í óreglu.
Stúlkan (14ára) hafði keypt sér landa og drukkið mikið og þáð amfetamín og gekk um nakin. Drengirnir voru voru allir drukknir og einn þeirra viðurkennir að hafa verið undir áhrifum amfetamíns.
14 til 17 ára krakkar að drekka landa og taka eiturlyf og klámvæðing. Þetta er því miður raunveruleikinn. Þetta er það sem við þurfum að taka á. Lang flestir Íslendingar hafa stundað eitthvað kynlíf fyrir 18 ára aldur og aðeins sárafáir verða nauðgarar. Mér dettur ekki til hugar að það verði til að fækka nauðgunum að hækka lögræðisaldurinn.
Ef við getum fengið börnin okkar til að taka ekki eiturlyf og vera ekki innan um slíkt fólk byrja seinna að drekka þá gætum við mögulega fækkað nauðgunum.
Sævar (IP-tala skráð) 6.6.2007 kl. 01:44
Ég tek undir það með Ólínu að það er fráleitt og villimannslegt að leyfilegt skuli vera að hafa mök við 14 ára börn. Hitt er annað mál að erfitt er að gera slíkt fortakslaust refsivert. Segjum t.d. svo að 14 ára stúlka verði ástfangin af 16 ára dreng. Eftir nokkurra vikna ástarsamband hafa þau kynmök. Mér þætti harkalegt að refsa drengnum fyrir það. Stúlkan væri auðvitað ekki sakhæf því hún er ekki orðin 15 ára. Drengurinn yrði hins vegar kynferðisbrotamaður. Það þykir mér fráleit niðurstaða.
Mér er alvarlega brugðið, líkt og Ólínu, yfir því að vinahópur hafi ákveðið að ganga með þeim hætti sem dómurinn lýsir, til hópkynlífs undir áhrifum fíkniefna. Dómurinn virðist þó ekki telja, og því er ég sammála, að sannað sé að um nauðgun hafi verið að ræða. Því er ekki um sökudólga að ræða í málinu og refsing ekki við hæfi.
Séu menn að leita að sökudólgum, þá vil ég benda á samfélag okkar. Þetta annars ágæta samfélag hefur hampað súlustöðum, klámsíðum og fjölmiðlarnir og bloggsíður eru full af greinum og lýsingum þar sem margvísleg óvenjuleg kynferðisleg hegðun er hafin upp til skýjanna. Það er ekki nema eðlilegt að börn á unglingsaldri séu ráðvillt á þessu sviði og taki rangar ákvarðanir, sérstaklega þegar þau eru undir áhrifum áfengis og annarra vímuefna.
Hreiðar Eiríksson, 7.6.2007 kl. 14:21
Rannsókn frá Svíþjóð sýndi að 25% 14 ára stúlkna hafa haft mök, sennilega svipað hér. Sjálfur átti ég 14 ára kærustu þegar ég var 16 ára. Ekki er hægt að gera unglingsstráka að kynferðisglæpamönnum, er það? Hinsvegar ef karlm. yfir 18 ára hefur mök við 14 ára stúlku finnst mér málið orfa öðruvísi við.
Gunnar Th. Gunnarsson, 8.6.2007 kl. 00:36
Þetta er skelfileg lesning! Einhvernvegin virðist manni að piltunum finnist ekkert athugavert við framkvæmdina, sem segir held ég meira um samfélagið og tíðarandann en þá. Enda ekki sakhæft! Eigandi tvo litla drengi er veldur það mér meiriháttar áhyggjum hvernig ég geti innrætt þeim einhver almennileg gildi þegar samfélagið gefur allt önnur skilaboð. Finnst ég stanslaust þurfa að vernda þá fyrir umheiminum. Sem er skrítin tilfinning...
Sólveig Arnarsdóttir (IP-tala skráð) 8.6.2007 kl. 11:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.