4.6.2007 | 21:01
Helgin í stuttu máli...
Franklin og co. eru enn ekki komin til LA. Bílstjórinn ákvað að þau skyldu bíða í rúman sólarhring á leiðinni og var þeim komið fyrir í einhverri íbúð á meðan. Hvar veit ég ekki. En nú er búist við þeim um kvöldmatarleytið og það vonandi gengur eftir.
Annars var helgin tíðindalítil. Skólaskemmtun í skóla barnanna minna. Stefán fórnaði sér ásamt kennurum í skólanum og lét sig hafa það að leyfa börnum að grýta Glanna með boltum þar til að hann féll ofan í vatnsbala. Ég hafði boðist til að koma fram sem Ásta Sóllilja en það virtist enginn hafa nokkurn áhuga á því að drekkja henni.
Börnin höfðu af þessu mikið yndi. Að niðurlægja Robbie Rotten og ekki síður kennarana sína. Skólastýran Mrs. Mastead sem er sennilega á sjötugsaldri lét sig hafa það að fara fyrst klædd í trúðabúning. Ég sé ekki marga skólastjóra fara í fötin hennar. Til þess tekur fólk sig of alvarlega.
Annars er stundum furðulegt að vera leikari
Allir leikarar þekkja það að vera beðnir um að leika við undarlegustu aðstæður.
Í boðum t.d. : Ertu ekki til í leika eitthvað fyrir okkur? Leiktu eitthvað! Bara eitthvað!
Ég hef aldrei vitað til þess að rafvirkjar séu t.d. beðnir um að taka í sundur útvörp í boðum.
Eða að leigubílstjórar sem eru ekki á vakt séu beðnir um að skutla fólki heim úr partýum.
Eða að læknar séu beðnir um að skera upp í veislum.
:Heyrðu hún Lísa frænka er eitthvað slæm í hnénu. Ert ekki til í að krukka aðeins í hana fyrst þú ert hérna? Viltu meira gin?
Svo sæta leikarar gjarnan ásökunum um að vera ekki þeir sjálfir og spurningar á borð við...
Ertu að leika núna? eða Hvaða karakter ertu núna? eru afar algengar.
Ég fæ gjarnan spurninguna : Hvernig er að vera gift Robbie Rotten? Er hann ekki alltaf að fíflast?
Og ég svara að bragði : jú það er algjört djók að vera gift honum.
Athugasemdir
Hehehehe...... góður..... annars er líka algjört djók að vera gift mínum ;)
Annars vona ég að strákurinn láti sjá sig í kvöld..... bið fyrir kveðju.
Eva Þorsteinsdóttir, 4.6.2007 kl. 21:52
hahahaha, góður pistill!
Heiða Þórðar, 4.6.2007 kl. 22:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.