1.6.2007 | 17:13
Læknaklám 3.kafli
Í síðasta kafla Læknaklámsins æstust nú leikar og mér barst eftirfarandi komment frá Hlyni Þór Magnússyni
Guðbrandur - dýrlega rómantískt nafn! Er ekki líka eitthvað að frétta af ástaraunum Járngerðar Brynju sjúkraliða og Guttorms svæfingarlæknis?
Þessu er fljótsvarað. Jú, Hlynur. Nú er tímabært að kynna til sögunnar Þau Járngerði Brynju og Guttorm!
Á vakt-inni
3. kapítuli
Guðbrandur lokaði sig inni á skrifstofunni og hallaði sér upp að jukkunni sem hafði fylgt honum allar götur síðan hann bjó á stúdentagarði í Uppsölum. Það var einhver náttúru kraftur í þessari stæðilegu hitabeltisplöntu sem gaf honum þrek til að takast á við þær margslungnu raunir sem fylgdu vandasömu starfinu.
Hann var jú daglega með lífið sjálft í höndunum.
Stundum gat hann staðið tímunum saman og haldið utan um gildan bolinn. Hlaðið batteríin eins og hann orðaði það. Eftir erfiðar aðgerðir gat starfsfólkið gengið að því vísu hvar Guðbrand var að finna.
Vinnufélagar hans báru virðingu fyrir þessu háttalagi hans þó einstaka sinnum mætti heyra háðulegar glósur falla og þá einna helst frá starfsfólki af erlendum uppruna.
Guðbrandur lét það ekki á sig fá og skaut fólki iðulega skelk í bringu með því að svara því í gamansömum tón á móðurmáli þess. Guðbrandur var mikill málamaður og varla það tungumál til á jarðarkringlunni sem hann talaði ekki lýtalaust. Hann var jafn vígur á latnesku sem líbönsku.
Atvikið með Svanhvíti vék ekki úr huga Guðbrands. Ekki var um að villast því sjúkdómseinkennin voru augljós. Svanhvít þjáðist af Erotómaníu. Þessari sjaldgæfu ýmindunarveiki sem lýsir sér á þann hátt að undirmanneskja telur sér trú um að yfirmaður elski hana stjórnlaust jafnvel þó það sé algerlega tilhæfulaust.
Guðbrandur rifjaði upp afar erfitt tilfelli. Strætóbílstýruna Sigurlínu Þrastardóttur sem um árabil hélt því fram að yfirmaður Strætisvagna Reykjavíkur elskaði sig.
Það var ill gerlegt að gleyma sturluðu augnaráðinu eða því hvernig hún néri sífellt skiptimiða milli handa sinna.
Guðbrandur var í þungum þönkum þegar síminn hringdi.
Hann þekkti strax rödd Járngerðar Brynju sjúkraliða. Aldrei fyrr hafði hann kynnst jafn dimmrödduðum kvenmanni. Rödd hennar var glettilega lík röddu bæjarstjóra í nærliggjandi byggðarlagi.
Járngerður Brynja nýtti sér til hins ýtrasta þessa óvanalegu guðsgjöf og tróð hún jafnan upp í starfsmannahófum sem eftirherma.
Erindi Járngerðar Brynju var fyrirspurn um það hvort aldraði embættismaðurinn mætti nú fara að fá fasta fæðu því honum væri farið að leiðast sykurvatnið.
Guðbrandur fullvissaði Járngerði Brynju um það að viðkvæm líffæri aldraða embættismannsins ættu nú að þola þunnar súpur og grauta. Hann bað hana jafnframt að huga að verkakonunni ungu sem þurfti að hafast við á grúfu vegna aðgerðar fyrr um daginn.
Guðbrandi líkaði vel við Járngerði Brynju. Hún var fyrirtaks sjúkraliði og ekki skemmdi fyrir að hún bjó yfir töluverðum kyntöfrum. Þóttafullur baksvipurinn og baritónröddin gerðu það að verkum að fáir karlmenn gátu staðist hana.
Að samtalinu loknu gerði Guðbrandur sig líklegan til að halda heim á leið. Hann átti nú aðeins eftir að afhenda kvöldvaktinni lífsnauðsynlegar upplýsingar til að tryggja áframhaldandi bata sjúklinga sinna.
Hann var rétt búinn að loka á eftir sér þegar hann heyrði nafn sitt kallað. Í fyrstu var hann á báðum áttum hvort hann ætti að svara því gangurinn virtist mannlaus fyrir utan fjórar helsjúkar manneskjur sem sváfu í rúmum sínum. Guðbrandur gekk að einu rúminu og brá heldur betur í brún því þar lá Guttormur svæfingarlæknir fullklæddur undir drifhvítu líninu og svaf svefni hinna réttlátu.
Guttormur var fallegur maður það gat jafnvel Guðbrandur viðurkennt. Hann fann þó til með Guttormi því það var á allra vitorði að hann átti í erfiðleikum í einkalífinu. Gat verið að Guttormur hefði svæft sig til að geta um stund gleymt hjónabandsörðugleikum sínum?
Athugasemdir
Ég sagði þér að ég fílaði appelsínurnar........ ;)
Eva Þorsteinsdóttir, 1.6.2007 kl. 18:02
Þetta er að verða æsispennandi.... Bíð spennt eftir næsta kafla. Annars er ég sjálf hjúkka og ég vildi að það væri eitthvað svona spennandi að gerast inn á spítalanum. Annars var á tímabili aðal grínið ef eiginmenn hringdu inn á spítala og ætluðu að heyra í spúsu sinni þá svöruðu við hinar iðulega "Heyrðu hún var að fara inn á lín með lækninum, viltu að ég truflu þau?"
Inga (IP-tala skráð) 3.6.2007 kl. 22:12
schnilld!
Hrafnhildur (IP-tala skráð) 5.6.2007 kl. 13:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.