Barn á næturgöngu


Í gær bárust okkur þær fréttir að Franklin litli sem er á ferðalagi með móðursystur sinni væri staddur í bænum Altar í Mexíkó sem er um rúmrar klukkustundar akstursfjarlægð frá bandarísku landamærunum.

Nú hefur hann gengið sex ára gamall tvær heilar nætur í eyðimörkinni og á sennilega einnar nætur göngu eftir.
Og það er víst engin skemmtiganga. Í fjalllendi og eyðimerkurnæturkulda.

Bílstjórinn sem tók að sér að flytja þau yfir til Bandaríkjanna og tók fúlgur fyrir hafði lofað að barnið þyrfti ekkert að ganga en þau loforð eru orðin að engu. Hann sá þó til þess að þau fengju vopnaða fylgd.
Tveir mexíkanskir kónar fylgja þeim um nætur því hætturnar eru á hverju strái.

Banditar leynast víða á leiðinni og konu og barni síst óhætt.
Algengt er að fólk sé rænt nauðsynjum svo sem eins og fatnaði og drykkjarvatni.
Að konum steðjar auðvitað sú hætta að vera misnotaðar og börn ganga kaupum og sölum. Börn eru eftirsóttur gjaldmiðill. Það er nóg til af fólki sem sækist eftir börnum í kynlífsþrælkun og svo eru innyflin úr þeim dýrmæt söluvara. En margir deyja einfaldlega úr þreytu og vatnsskorti.

Blanca móðir hans er að vonum skelfingu lostin og hefur þungar áhyggjur af syni sínum. Að sögn móðursystur hans sem heitir Dinora er hann ákaflega þreyttur orðinn og pirraður. Hvernig á lítið barn að þola svona líkamlegt álag?
Dinora er sjálf uppgefin og auk þess hrædd um sig og barnið. Frá því að þau lögðu upp frá El Salvador eru nú liðnir 25 dagar. Nú væntum við þess að hann komist yfir landamærin í nótt eða snemma á morgun. Ef allt gengur að óskum.

Hér að neðan er linkur inn á fréttabréf frá Unicef skrifað 24. mai s.l. ... fróðleg lesning og óhugguleg.

http://www.unicef.org/infobycountry/mexico_39786.html


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: María Kristjánsdóttir

það er alltaf jafn hræðilegt að heyra þetta- hugsa til ykkar Biöncu og Franklins sérstaklega.

María Kristjánsdóttir, 31.5.2007 kl. 21:25

2 Smámynd: Vilborg Valgarðsdóttir

Þetta er svoooo ömurlegt að það er varla hægt að hugsa það til enda. Vesalings barnið og vesalings konan, sem eru jafnframt hetjurnar í þessari sögu. Ekki er það bílstjóraræfillinn sem tekur peninga af örsnauðu fólki og svíkur það svo. 

Þú bloggar þegar eitthvað er að frétta ... ? 

Vilborg Valgarðsdóttir, 31.5.2007 kl. 22:12

3 identicon

Las póst þinn um Franklin í Mogganum um daginn.  Hvað ég vona að mamman fái strákinn sinn. Ég þekki það sem tveggja stráka mamma hvað maður á erfitt án þeirra. Vonandi að allar góðar landamæravættir gefi að Franklin komist til mömmu sinnar og til hennar Kaliforníu sem fyrst.

Drífam (IP-tala skráð) 31.5.2007 kl. 22:19

4 Smámynd: Eva Þorsteinsdóttir

Já þetta er ömurleg saga sem vonandi endar vel.

En af hverju skiptirðu út appelsínunni?

Finnst þetta soldið sterílt umhverfi fyrir litríka persónu eins og þig ;)

Eva Þorsteinsdóttir, 1.6.2007 kl. 00:13

5 Smámynd: Viðar Eggertsson

Áfram Steina, að segja okkur þessa sögu.... þetta er það sem skiptir meira máli en allt læknaklám heimsins...

Ég finn til með mömmu hans Franklins og honum... hvað getum við gert?

Viðar Eggertsson, 1.6.2007 kl. 02:57

6 identicon

Jesús! Aumingja barnið! Var enginn séns að flytja hann löglega inn í landið ?

Ég segi eins og hinir, þú verður að blogga þegar einhverjar fréttir berast! Ég ætla að biðja fyrir Franklin litla og mömmu hans. Úfffff.. fæ alveg sting í hjartað.

Ágústa (IP-tala skráð) 1.6.2007 kl. 09:50

7 identicon

gott að lesa hér

Helga (IP-tala skráð) 1.6.2007 kl. 11:06

8 identicon

Er búin að vera að kíkja reglulega inn á síðuna því þessi lesning var svo átakanleg. Jafnframt var linkurinn sem þú settir neðst fróðlegur en átakanlegur. Er ekki búin að hugsa um annað en vesalings litla drenginn og í framhaldi af því um öll þau börn sem þurfa að líða þjáningar og engan veginn bjóðandi aðstæður.

Leyfðu okkur að fylgjast með, ég verð að fá að vita hvort drengurinn komist á leiðarenda.

kv. Ragga

Ragga (IP-tala skráð) 1.6.2007 kl. 17:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband