Breiðgata hinna brostnu drauma

Fyrrum nágrannakona mín bankaði upp á hér seint í gærkveldi. Hún var grátbólgin og átti erfitt með að halda aftur af tárunum sem runnu niður kinnarnar. Mér brá heldur við því ég hef nú ekki haft mikið af henni að segja annað en að spjalla lítillega við hana hérna þegar ég hef rekist á hana.

Hún er á miðjum aldri, sennilega einhvers staðar á milli fertugs og fimmtugs, og flutti hingað fyrir tæpu ári frá Denver, Colorado, ásamt aldraðri móður sinni og hundi sem kippir í kynið. Það er nú gjarnan svo að hundar líkjast eigendum sínum og öfugt. Furðulegt.

Hún gengur með handritshöfund í maganum og kom hingað upphaflega eins og þúsundir annarra til að freista gæfunnar í draumasmiðjunum í Hollywood. Hún hefur skrifað nokkur kvikmyndahandrit í gegnum árin og ákvað að láta gamlan draum rætast og fylgja þessari ástríðu eftir af heilum hug.

Þegar ég hitti hana hér fyrst snemma í haust var hugur í henni. Hún var ánægð með þessa ákvörðun sína og reiðubúin að takast á við Hollywood- hákarlana þrátt fyrir að þekkja hér engan. En það var nú eitthvert annað hljóð komið í skrokkinn í gær.

Hún var búin að senda mömmu gömlu með flugi til Denver og var að leggja lokahönd á að þrífa leiguhúsnæðið sitt. Hún var reið og bitur. Ég er búin að senda handritin mín út um alla borg, sagði hún. Ég hef ekki fengið svo mikið sem eitt einasta svar, ekki eitt. LA er óþolandi borg, fólkið hérna er kalt og ópersónulegt! Það er ekki hægt að búa hérna!

Tækifærin höfðu látið á sér standa og hún var eðlilega svekkt. Búin að eyða hér dýrmætum tíma og að henni fannst til einskis. Ég gat ekki annað en fundið til með henni. Það þarf töluvert hugrekki fyrir konu á miðjum aldri að hyggja á frama sem handritshöfundur hér. Nú skal ég ekkert segja um það hvort hún hafði einhverja hæfileika sem höfundur til að bera. Það kann að vera að hún hafi verið arfaléleg og handritin hennar ekki svaraverð. Það skiptir samt minnstu. Þegar maður skoðar framleiðslu bíómynda hér þá spyr maður sig nú oft hvernig standi á því að eitt eða annað hafi hlotið náð framleiðanda. Þvílíkt offramboð er á rusli. Innihaldslausu, illa skrifuðu og umfram allt leiðinlegu, sem er auðvitað höfuðsynd. Hér gengur velgengni út á heppni og kunningsskap. Hæfileikar skipta að því er virðist ekki öllu máli. Auðvitað eru líka framleiddar hér frábærar bíómyndir en þar virðist líka eins og tilviljanir ráði ferðinni.

Við eigum kunningja hér sem lifað hafa góðu lífi á því að selja handrit sem aldrei hafa verið kvikmynduð. Þann hóp rithöfunda fylla þúsundir manna. Hvort ætli sé nú skárra að selja aldrei handrit eða selja handrit sem aldrei verða bíómyndir? Ég veit það hreinlega ekki.

Annar vinur minn sem líka er handritshöfundur og hefur starfað hér í mörg ár segist löngu vera hættur að láta sig dreyma, sem auðvitað er sorglegt. Hann segir: "Ekki treysta því að neitt verði að veruleika fyrr en þú hefur fengið greitt fyrir það og eytt peningunum í eitthvað sem þú getur séð afraksturinn af í klósettinu.

Þetta þarfnast vonandi ekki frekari útskýringa, en svo mörg voru þau orð.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband