Það stóð ekki á framleiðslunni. Það ruddust frá henni teikningar á alveg gríðarlegum hraða. Hún teiknaði höll með mörgum herbergjum og rennibrautum úr öllum gluggum sem lágu beint út í feiknastóra sundlaug. Í garðinum voru apar og tígrisdýr og alls kyns fuglar. Hún teiknaði sjálfa sig á stóru sviði og sagðist ætla að verða súperstjarna.
Sú eldri átti í meira basli með þetta. Var fljót að segja að draumar væru asnalegir, þvældi allt fyrir sér með rökhugsun um að þetta og hitt væri hreint ekki mögulegt.
Í framhaldi af þessu fór ég að velta því fyrir mér hvenær við missum hæfileikann til að trúa á það að okkur séu allir vegir færir. Og hvað það er í sjálfu sér sorglegt. Því það er auðvitað í raun að missa trúna á sjálfan sig að einhverju leyti.
Eðlilega er ellefu ára barn skynsamara og raunsærra en fimm ára barn, það segir sig sjálft, en mér fannst samt svolítið leiðinlegt hvað sú eldri var tilbúin að slá því föstu að lífið væri flókið, fullt af hindrunum og eins og hún orðaði það: Já, en ég á aldrei eftir að geta þetta og hitt!
Ég ákvað að gera slíkt hið sama og settist niður til að skrifa hvernig ég vildi að framtíðin yrði, hverju ég vildi breyta í eigin lífi og hvað ég vildi sjá gerast. Það var ekki vandkvæðalaust að gera það og á mörkunum að ég gæti sett nokkuð niður á blað án þess að finnast það meira en lítið hjákátlegt.
En hvers vegna skyldum við ekki láta okkur dreyma? Hvers vegna erum við sífellt að refsa og afneita sjálfum okkur með einum eða öðrum hætti. Við erum sjálf manna fyrst til að drepa okkar eigin hugmyndir og langanir í fæðingu. Hvers konar masókismi er það eiginlega?
Það sem þarf til að hugmynd fái brautargengi er tiltrú þeirra sem hugmyndina eiga. Hvernig stendur á því að fólki tekst að hrinda hinu ómögulega í framkvæmd? Einhverju sem áður þótti óhugsandi!
Kunningi minn Guðni sem kenndur er við Rope Yoga, sem er speki sem ég þekki í sjálfu sér lítið, spurði mig um daginn, þegar við sátum og spjölluðum, hvaða tilgang ég hefði á jörðinni. Ég varð nú að viðurkenna að ég upplifði algjört tilgangsleysi þegar ég fékk þessa spurningu framan í mig. Guðni sagði að svo væri nú um flesta. Flestir lifi lífinu eins og þeir séu slys. Ráfi um án markmiða og tilgangs. Frekar kostuleg sýn á mannlega tilveru en ekki alveg galin. Kannski erum við flest slys. Treystum lítt á eigið ágæti því ekki viljum við vera kölluð sjálfselsk sem er höfuðsynd.
Ég vann í leikhúsi frá því að ég var unglingur og allt til ársins 2004. Í starfi mínu ólst ég upp við það að byggja sjálfsmynd mína að töluverðu leyti á áliti annarra. Leikarastarfið gengur jú út á það. Að sæta stöðugri gagnrýni leikstjóra meðan á vinnuferli stendur og taka síðan við ánægju eða vanþóknun áhorfenda og gagnrýnanda.
Það hefur tekið mig töluverðan tíma að sætta mig við það að það er enginn sem klappar fyrir mér á kvöldin og reyndar var ég að hugsa um að fjárfesta í klappvél á tímabili til að hressa aðeins upp á egóið. Mér fannst ég hreinlega ekkert geta gert ein míns liðs. Ég held ég ætti að taka mér fimm ára dóttur mína til fyrirmyndar og leyfa mér að dreyma og láta drauma mína rætast.
Mér finnst reyndar að dagdraumar ættu að vera á kennsluskrá allra skóla. Mannrækt þar sem börnum er kennt að viðhalda trúnni á sjálf sig og allar þær stórkostlegu og óheftu hugmyndir sem þau fá.
Fyrir þá sem eru trúaðir segir í Biblíunni að Guð hafi skapað manninn í sinni mynd. Nú ef Guð skapaði heiminn þá hljótum við eftir því að dæma öll að vera skaparar heimsins. Og samkvæmt því er ekki eftir neinu að bíða heldur hefjast handa við sköpunarverkið.