Þar af voru þrjátíu og þrjú börn undir tólf ára aldri.
Hvað þarf til að umræðan um andlega líðan barna okkar nái einhverju máli?
Það er sorglega einfalt. Þau mál eru ekki rædd fyrr en börnin stytta sér aldur með hvaða ráðum sem þau nú gera það.
Á árinu hafa ótal ungmenni látist í bílslysum. Önnur hafa fallið vegna eiturlyfjaneyslu og enn önnur hafa einfaldlega meðvitað stytt sér aldur.
Börn. Vansæl börn.
Við bregðumst við svona fréttum stutta stund og síðan er málið látið niður falla. Það berst enginn stjórnmálaflokkur á Íslandi svo heitið geti fyrir málefnum barna. Líðan barna skiptir litlu máli í þessu samfélagi okkar.
Sama gildir um aðra "minnihlutahópa" í þjóðfélaginu, samanber innflytjendur. Íslenskir atvinnurekendur hafa orðið uppvísir að því að undirborga erlendu verkafólki fyrir störf sín. Það þykja mér ekki fréttir.
Konur á Íslandi fá enn ekki sömu laun fyrir sömu vinnu árið 2006!
Allar götur frá því að við buðum öðrum þjóðum að setjast að í landinu okkar hafa móttökurnar einkennst af sýndarmennsku.
Það er nefnilega flókið að taka á móti gestum þannig að þeim líði vel.
Góðir gestgjafar láta gestinn vera í fyrirrúmi. Ef vel á að vera þarf gesturinn að geta notið sín og finnast hann vera velkominn.
Það er ekki nóg að gefa gestinum mat og húsaskjól heldur þarf ekki síður að skapa þannig aðstæður að gesturinn geti óheft tjáð sig. Gestinum þarf að finnast hann hafa frelsi sem einstaklingur til orða og athafna. Gesturinn verður að geta mætt gestgjafanum á jafnréttisgrundvelli.
Sú umræða sem hefur skapast í samfélaginu síðustu daga er varasöm.
Það þykir sýnt að börnum innflytjenda líður verr í skólanum en íslenskum börnum. Hvernig er talað um mál innflytjenda við kvöldmatarborðið á íslenskum heimilum?
Er börnum haldið utan við þá umræðu? Ég er hrædd um ekki.
Eruð þið hissa að börnum innflytjenda líði illa?
Hvernig eiga þau að mæta íslenskum skólafélögum sínum sem mæta í skólann með upplýsingar um það að útlendingar séu ekki velkomnir á Íslandi? Að útlendingar séu að hafa vinnu af mömmu og pabba og ættu með réttu að vera sendir aftur til síns heimalands.
Við berum ábyrgð á þeim upplýsingum sem við látum börnunum okkar í té.
Við berum ábyrgð á því að börnin okkar komi fram við aðra af sanngirni og virðingu.
Það er brottrekstrarsök í skóla barnanna minna að hæðast að útliti, uppruna eða trúarlegum skoðunum annarra. Ekki að ástæðulausu.
Í fjölmenningarsamfélagi sem Los Angeles hafa skólar engin önnur ráð en að reka börn sem verða uppvís að slíku beint til föðurhúsanna, þar sem fordómarnir verða til, því börn fæðast fordómalaus.
Börn eru varnarlaus gagnvart því munnlega ofbeldi sem þau þurfa að sitja undir af hendi fullorðinna, heimafyrir og í fjölmiðlum.
Íslensk börn hafa gott af því að kynnast fólki af öðrum uppruna. Það eykur víðsýni þeirra og skilning á framandi menningarheimum.
Börn eru nefnilega ólík fullorðnu fólki að því leyti að þau hræðast ekki nýjungar. Allt sem er nýtt er spennandi. Þau taka því sem er nýtt og framandi opnum örmum af einskærum áhuga og umfram allt fordómaleysi. Það ættum við sem fullorðin erum að taka okkur til fyrirmyndar.