Þó er ekki hægt að skera úr um það með fullri vissu.
En þá er hægt að láta taka sýni úr legvatni eða fylgju til að komast nær sannleikanum en að vísu er þá örlítil hætta á fósturmissi.
En nútíminn býður upp á að því er virðist endalausar leiðir til að rannsaka börn í móðurkviði.
Þar sem við búum í Hollywood þar sem vitfirrtar stjörnur eiga þess kost að kaupa sér sónartæki og fylgjast með afkvæmum sínum daglega var ýmislegt við þessa læknisskoðun sem kom mér undarlega fyrir sjónir.
Ég hef ekki áður staðið frammi fyrir þeim kosti að geta haft svo mikið að segja um afdrif barnsins sem ég geng með.
Áður en hnakki barnsins var mældur var okkur hjónum boðið upp á genetíska ráðgjöf.
Á móti okkur tók fram úr hófi gleiðbrosandi kvenmaður sem virtist líkari eitilhörðum sölumanni en skólasystur Kára Stefánssonar.
Fraukan virtist barnung og því brá mér heldur í brún þegar hún sagði glaðbeitt að fyrir fimmtán árum þegar hún hóf störf hjá fyrirtækinu hefði hún ekki getað boðið upp á neitt af þessum dásamlegu nýjungum sem hún var um það bil að fara að leiða okkur í sanninn um.
Við vorum rétt búin að hitta konuna og mér var strax orðið í nöp við hana. Þetta var stökkbreyttur andskoti, það fór ekki á milli mála. Hvernig fór hún að því að líta svona vel út?
Hún kynnti hverja rannsókn fyrir sig líkt og um vörur í verslun væri að ræða.
Síðan teiknaði hún niður á blað af mikilli færni ættartré okkar beggja þar sem við eftir bestu getu reyndum að rifja upp þær meinsemdir sem hafa hrjáð fjölskyldumeðlimi okkar í gegnum aldirnar og fram á okkar daga.
Ég hef nú ekki legið í sjúrnölum fjölskyldunnar, því gekk okkur hjónum ekkert sérlega vel í þessu minnisprófi enda af hraustu fólki komin svona gegnumsneitt.
En þegar hingað var komið sögu var ég gjörsamlega miður mín og sannfærð um að eitthvað væri að. Því hræðsluaðferðin hefur tilætluð áhrif.
1. Yfirheyra fólk í lengd og breidd um hugsanlega sjúkdóma sem leynast í ættum þeirra.
2. Bjóða síðan upp á rannsóknarleiðir til að sjá fyrir hina og þessa galla þó með þeim formerkjum að ekkert sé óbrigðult í þeim efnum.
3. Kynna leiðir til að borga slíkar rannsóknir því ekki eru þær ókeypis.
4. Í framhjáhlaupi nefna þann valkost að ef um einhvern hugsanlegan genagalla sé að ræða, gefist manni kostur á að láta eyða fóstrinu allt fram að tuttugustu viku meðgöngu.
5. Að endingu spyrja elskulega hvað manni hugnist að láta framkvæma í dag. Ekki ólíkt því þegar maður fer og lætur klippa sig.
Ég spurði yngri dóttur mína einhverju sinni hvar hún hefði verið áður en hún fæddist.
Það stóð ekki á svörunum. Hún sagðist hafa verið uppi í skýjunum og fylgst með mér úr glugganum hjá Guði. Að því búnu hefði hún valið að ég yrði mamma hennar. Mér lætur betur að hallast að þeirri siðfræði að börnin velji okkur en ekki öfugt.