Þá um morguninn sat ég í makindum í sjónvarpsholinu heima og var að gefa yngri dóttur minni brjóst þegar ég fékk símtal frá vinkonu minni sem sagði mér að kveikja á sjónvarpinu undireins. Í þann mund sem ég kveikti á kassanum flaug seinni flugvélin á tvíburaturnana.
Ég veit ekki hvort það var hormónastarfseminni að kenna og því að ég var með hvítvoðung í fanginu sem gerði það að verkum að ég brast umsvifalaust í grát.
Sömu sögu var að segja af vinkonunni hinum megin á línunni sem einnig var með nýfætt barn í fanginu. En þarna sátum við sumsé hvor í sínu húsi uppi á Íslandi og grétum yfir þessum hörmulegu fréttum frá Bandaríkjunum.
Eftirleikinn þekkja allir. Ítarlegur fréttaflutningur vikurnar á eftir gerði það að verkum að öll heimsbyggðin fékk samúð með New York-búum.
Sömu sögu er ekki hægt að segja um fréttaflutning frá Írak. Afskaplega loðnar fréttir orir að þar hafi í raun geisað stríð í fleiri ár.
Mannfall þar á óbreyttum borgurum sem fallið hafa fyrir hendi Bandaríkjamanna er orðið langt um meira en sá mannskaði sem Bandaríkjamenn urðu fyrir árið 2001.
Fjölskyldan flaug á dögunum til Bandaríkjanna í gegnum San Francisco. Tæplega níu klukkustunda langt flug. Alveg óþolandi langt. Mér finnst miklu skárra að fljúga þetta í tveimur áföngum. Einhvern veginn sálrænt styttra þó engu muni í tíma.
Við mæðgurnar lentum í úrtaki í útlendingaeftirlitinu og við glumdu viðvörunarbjöllur þegar brottfaraspjöldunum okkar var rennt í gegn.
Bóndinn slapp í gegn þó hann sé sýnu krimmalegastur okkar að mínu mati og yfirlýstur glæpamaður í barnasjónvarpi um víða veröld.
Við vorum innilokaðar í lítilli girðingu eins og hænsn í sláturhúsi allnokkra stund en síðan kom til okkar kona og tjáði mér að á okkur yrði framkvæmd ítarleg vopnaleit og farið yrði í gegnum farangurinn okkar.
Það hefur reynst mér best að segja sem minnst við þessa laganna verði á undanförnum árum og því brosti ég bara til samþykkis.
Loks kom að okkur mæðgum. Bóndinn stóð hinum megin við glerhlið og fylgdist með aðförunum. Við vorum allar þuklaðar upp úr og niður úr og sú yngsta, fimm ára gömul, var ítarlega skönnuð með sprengjuleitartækjum. Hún var síðan verðlaunuð með miða frá útlendingaeftirlitinu til að líma í barminn. Á honum stóð: "Ég stóð mig vel og sinnti skyldum mínum meðan leitað var á mér."
Meðan á þessu stóð gáfu sig á tal við bóndann amerísk hjón sem fylgdust með þessu og báðu hann innilega afsökunar á framkomu þjóðar sinnar gagnvart saklausum ferðamönnum. Bóndinn tjáði konunni sem vöknaði um augu að það væri ekki við amerísku þjóðina að sakast heldur forsetafíflið og föruneyti hans.
Ég er ekkert of góð til að fara í gegnum svona rannsókn, mér er það hinsvegar stórlega til efs að handahófskennd leit af þessu tagi skili nokkrum árangri.
Í raun er þetta eins og hvert annað lélegt leikrit sem fjallar um að Bandaríkjamenn séu að standa sig í stríðinu gegn hryðjuverkamönnum. Og kannski fyrst og fremst til þess ætlað að viðhalda ótta. Og á meðan vinna fylgiríki Bandaríkjanna stærstu hryðjuverkin undir því yfirskini að þau séu að frelsa hinn vestræna heim. Af því fáum við fréttir. En aðeins þær fréttir sem henta þykja.