Ein manngerðin sem mér finnst sérlega eftirtektarverð er sú sem heldur því fram að veður sé bara hugarfarsástand. Ég hef greinilega afskaplega lélegt ímyndunarafl.
Þegar ég var lítil minnist ég þess að veturnir voru harðir og langir. Ég man eftir því að brjótast áfram örlítil með skólatösku á bakinu í snjóbyl dag eftir dag.
Ég man líka eftir sælutilfinningunni þegar tilkynnt var í útvarpinu að skólahald félli niður í mínu hverfi vegna veðurs. En þetta kemur varla fyrir núorðið. Því hér er ekkert veður lengur. Þetta er ekkert til að tala um.
Þetta er eiginlega orðin ein samfelld árstíð. Skaplaus og fyrirsjánleg.
Svolítið eins og samfélagið sjálft. Eða hvað?
Örfáar manneskjur hafa reyndar tekið höndum saman og eru að reyna að sporna við stóriðjustefnu Íslendinga sem væntanlega mun sökkva okkur öllum og landinu með á undraverðum tíma.
Ómar Ragnarsson ver öllum sínum tíma og fjármunum í eitthvert sérstæðasta og frumlegast verkefni sem nokkur Íslendingur hefur ráðist í. Hvers vegna þarf hann að berjast í bökkum?
Hvað ætla Íslendingar að gera við Vestfirði? Þar sem aldrei verður virkjað.
Eigum við bara að saga Vestfjarðarkjálkann af og láta hann sigla sinn sjó?
Ég gleymi aldrei auglýsingabæklingi sem ég rak augun í á Bolungarvík fyrir einhverjum árum. Á forsíðu var ljósmynd tekin í afleitu skyggni af krossmerktum minnisvarða sem stendur í hrikalegri Óshlíðinni. Undir myndinni stóð síðan feitletrað:
Bolungarvík-Endastöð sem kemur á óvart!
Hvað var átt við? Að þar væri tilvalið að enda lífdaga sína á óvanalegan hátt? Það er sérkennileg þversögn í almennu áhugaleysi Íslendinga á stóriðjumálum að nú keppast allir við að eignast lönd og spildur víðs vegar um landið.
Og þar er sko unnið að landvernd og landgræðslumálum. Gróðursett og sáð, hver sem best hann getur. Byggðar tjarnir og reist fuglahús í þeirri von um að fleygir gestir geri sig þar heimakomnir að vori. En hér vinnur hver fyrir sig og helst í samkeppni við nágrannann. Ég trúi að ef smáspildubændur tækju sig saman af sama kappi og þeir sinna sínum herlegu hekturum og létu til sín taka á Austfjörðum, væri þar komin öflugur her landverndarsinna sem erfitt væri að ráða við.
En Íslendingar hafa aldrei getað sýnt samhug í verki nema í tvo tíma í senn. Og þá í beinni útsendingu.
Listdansskóli Íslands var lagður niður á árinu og enginn lét sig það varða.
Bensínverð hækkar og öllum er sama.
Persóna sem er vart mælandi á erlenda tungu er orðin utanríkisráðherra.
Hvers konar skrípasamfélag er þetta eiginlega. Samfélag sem hægt er að ráðskast með að vild. Samfélag sem engar hefur skoðanir og lætur aldrei til sín taka.
Slíku samfélagi er auðvelt að stýra, því það er orðið jafn sniðlaust og veðrið. Skaplaust og fyrirsjánlegt.
Við skulum því endilega halda áfram að tala um veðrið.
Eða skella okkur í ferðalag um óspillta vestfirska náttúru alla leið til Bolungarvíkur- Endastöð sem kemur á óvart!