Það rann hins vegar upp fyrir mér ljós þar sem ég í leiðindum var farin að stúdera flugblaðið sem var í vasanum á sætinu fyrir framan mig að Kansas er alls ekki í Minnesota heldur Missouri. En bæði ríkin byrja náttúrlega á M.
Ég fékk ekki gluggasætið frekar en fyrri daginn þannig að ekki gat ég séð neitt af þeirri meintu náttúrufegurð sem sessunautur minn var stanslaust að mæra. Ég sé ekkert hérna sagði ég, afskaplega pirruð. Sessunauturinn benti mér á að líta út um gluggann hinum megin við ganginn. Þar var ekkert að sjá nema fegurðardís sem sat og hnerraði í sífellu. Tókst bókstaflega á loft í verstu köstunum og hnausþykkt brúnt hárið flaksaðist til og frá.
Eftir flugferðina tók við tveggja tíma akstur. Við vorum á leið til Bunceton. Smábæjar í hjarta Miðvesturríkjanna.
Morguninn eftir rann það upp fyrir okkur að við vorum komin upp í sveit. Afskaplega langt frá glamúrnum í Hollýhú. Þetta minnti helst á Hellu eða Hvolsvöll hvað landslagið snertir.
Við fengum okkur morgunverð á kaffihúsi innfæddra. Það var sannast sagna upplifun. Bændur af nærliggjandi bæjum í kúrekaskyrtum og sumir meira segja með hatta sátu í makindum og drukku morgunkaffið sitt. Eins og klipptir út úr kúrekabíómyndum. Starfsstúlkurnar á óræðum aldri, allar með afskaplega mikið ljóst túperað hár og upp í þeim tennur meira svona af rælni.
Í Missouri-ríki er mesta framleiðsla af metamphetamínlyfjum enda lyfjalöggjöf Bandaríkjanna svo götótt að það er barnaleikur að framleiða lyfið heima í stofu. Það eru víst í miklum meirihluta konur sem standa í framleiðslunni.
Í Buncetown eru 200 börn í barnaskólanum. Það eru uggvænlegar aðstæður sem þau búa við. Yfir fjörutíu prósent foreldranna sitja í fangelsum eða eiga yfir höfði sér dóma. Eiturlyfjaneysla harðra efna þekkist allt niður í þriðja bekk. Og svo eru áttatíu prósent þeirra sem þurfa á fjárhagslegum stuðningi að halda vegna fjárskorts foreldra.
Og þetta er velferðarríkið Bandaríkin!
Kennari í barnaskólanum er með rétt um tuttugu og fimm þúsund dollara í árslaun. Og af þeim launum er kennurum uppálagt að greiða hluta af efniskostnaði nemenda. Og þeir kennarar sem ég talaði við eyða að jafnaði tvö til þrjú þúsund dollurum úr eigin vasa á ársgrundvelli. Æ, þetta var heldur dapurlegur veruleiki sem blasti við manni.
Við keyrðum um sveitirnar. Á nokkurra kílómetra fresti litlir smábæir. Allir frekar lotlegir og lítið hirt um að halda hlutum í horfinu.
Smábærinn Kalifornía hér átti lítið sameiginlegt með þeirri Kaliforníu sem ég þekki. En kannski gefur nafngiftin til kynna einhverja óskhyggju um betra líf. Óttalegt eyðiland. Þar var reyndar frábær verslun sem við duttum inn í. Rekin af Amish-fólkinu sem töluvert er af á þessum slóðum. Furðulegt að koma þar inn. Starfsstúlkurnar allar eins klæddar með skuplur á höfðinu og spjallandi saman á þessu furðulega afsprengi hollensku sem Amish-fólkið talar sín á milli svo þeir "ensku" skilji það ekki. Heimagerðar sultur og brauð. Handgert sælgæti svo fallegt að ég hef aldrei séð annað eins. Heimagerðar sápur úr geitamjólk og ilmolíum. Afskaplega haganlega smíðuð húsgögn og gjafavara alls konar.
Þegar heim var komið lagðist öll fjölskyldan í flensu. Hverju sem það er um að kenna þá bölvaði ég fegurðardísinni úr flugvélinni í hljóði.