Ameríkanar þurfa flestir að leggjast í ferðlög til að hitta sína nánustu um jól. Þetta hefur oft skapað mikið öngþveiti á flugvöllum landsins og fjölmörg dæmi þess að fólk eyði jólunum þar. Heldur ónotaleg tilhugsun. Og til að setja þetta í íslenskt samhengi þá getið þið ímyndað ykkur hvernig það væri að eyða aðfangadagskvöldi á Akureyrarflugvelli.
Annars eru fjölskyldusambönd með ýmsum hætti og þá dettur mér í hug önnur bíómynd sem tilvalið er að dusta rykið af yfir hátíðirnar þó hún sé alls ekki jólamynd heldur kannski miklu heldur hugleiðing um fjölskyldutengsl á ársgrundvelli. Það er myndin What ever Happened to Baby Jane með þeim Bette Davis og Joan Crawford. Þar er lýst sambandi tveggja fyrrverandi kvikmyndastjarna og systra. Hryllingsmynd af bestu sort og hríslandi góður leikur hjá Bette Davies.
Matur er stór þáttur af jólahaldi víða um heim og ekki síður drykkjarföng og þá finn ég mig knúna til að deila með ykkur uppskrift að Martini-kokkteil sem er ákaflega viðeigandi á aðventunni. Var í boði um daginn þar sem hann var fram borinn og það má segja að drykkurinn hafi startað boðinu með trukki. Ég tek það fram að ég er ekki mér vitanlega í venslum við víninnflytjendur á Íslandi.
Í kokkteilinn þarf eftirfarandi: Djús úr granateplum, gott vodka, cointreau og sítrónusafa. Falleg kokkteilglös á háum fæti. Gott er að bleyta glösin og stinga þeim inn í frysti stuttu áður en á að bera kokkteilinn fram. Þá fellur á þau hrím sem gerir þau auðvitað enn jólalegri. Eftirfarandi innihald nægir í tvö barmafull glös. Setjið í kokkteilhristara einn og hálfan bolla af granateplasafa, tvöfaldan vodka, einfaldan cointreu og klaka. Hristið síðan vel og vandlega og hellið í glösin. Kreistið síðan ofurlítinn sítrónusafa yfir drykkinn til að fá í hann skæran bjölluhljóm. Granateplasafi er líka meinhollur svo með því að innbyrða kokkteilinn má segja að maður sé að gera sér bæði gott og illt í senn.
Þó ég sé ekkert endilega að mæla með drykkjuskap um jólin þá verð ég að láta fljóta með leik sem er ansi háskalegur. Sérstaklega fyrir tvenn barnlaus hjón. Allavega myndi ég mæla með að börnum væri komið fyrir hjá afa og ömmu á meðan. Til að geta spilað leikinn þarf að eiga góðan bar og útvega eintak af bíómyndinni, Who's Afraid of Virginia Woolf frá 1966 með leikurunum Elizabeth Taylor og Richard Burton. Í þeirri mynd koma saman tvö pör og eiga saman heldur ónotalega kvöldstund. Leikurinn er síðan eftirfarandi. Hver leikmaður velur sér eina persónu sem hann ætlar að vera. Og myndin er sett af stað. Í hvert sinn sem viðkomandi karakter fær sér í glas í myndinni verður sá sem valdi sér hann að gera slíkt hið sama. Og í hvert sinn sem ímyndað barn hjónanna Mörtu og Georgs er nefnt á nafn verða allir að drekka. Þetta er auðvitað ávísun á heilmikið fyllirí og uppgjör en ágætt kannski til að byrja nýtt ár með hreint borð.
Daginn eftir er síðan tilvalið að baka piparkökur með börnunum, sleikja sárin og rifja upp gamlar og góðar myndir sem henta allri fjölskyldunni. Myndir á borð við Söguna endalausu frá árinu 1984, Litlu hryllingsbúðina frá 1986 og Home alone-myndirnar. Gleðileg jól!'
'2006-01-8