Ég var við hliðina á Jack Nicholson á rauðu ljósi fyrir stuttu. Hann var að vanda með svört sólgleraugu og virtist við hestaheilsu. Að öðru leyti hef ég lítið haft af honum að segja.
Ég hitti síðan heimsfræga leikkonu í boði á páskadag. Hún er frægust fyrir leik sinn í myndinni A Fish called Wanda. Þetta er reyndar ekki í fyrsta skipti sem ég hitti Jamie Lee Curtis. Eitt sinn gekk ég út úr lyftu á hóteli í Beverly Hills og velti "Jamie" eins og ég kýs að kalla hana núorðið nánast um koll. Ég næ henni reyndar aðeins í brjóst því svo hávaxin er hún þannig að þetta var ákaflega vandræðaleg uppákoma að öllu leyti.
Henni hefur sennilega ekki þótt þetta jafn eftirminnilegt og mér því hún minntist ekkert á þetta við mig um páskana.
Þá sat ég einu sinni á útiveitingahúsi og á þarnæsta borði sátu strandverðirnir Pamela Andersson og David Hasselhoff.
Tugir ljósmyndara stóðu fyrir framan þau og mynduðu hvern munnbita sem ofan í þau fór. Ég gat ekki annað en dáðst að leikhæfileikum beggja sem létu þetta ekkert raska ró sinni og svöruðu köllum ljósmyndaranna af skilyrðislausri hlýðni.
Pamela! Brostu! David! Taktu utan um hana! Pamela sýndu okkur meiri brjóstaskoru! Gerðu það!
Á öðrum tíma á sama stað sá ég mömmu Michaels Jacksons en missti af kauða þar sem hann fékk að fara út í gegnum eldhúsið ásamt hauspokaklæddum börnum sínum Prince og Paris til að verjast ágangi fjölmiðla. Þetta var að nýafstöðnum réttarhöldum yfir honum. Hann hefur sennilega verið að fagna.
Þegar ég hugsa út í það rifjast upp að ég hef áður gengið niður heimsfræga manneskju. Og í það sinn í bókstaflegri merkingu.
Það var á Heathrow-flugvelli fyrir um 17 árum. Ég var að koma í gegnum hliðið og þar biðu mín skólafélagar sem höfðu boðist til að sækja mig. Í óðagotinu hljóp ég niður lítinn svarthærðan mann. Ákaflega tætingslega til fara í rifnum gallabuxum og rytjulegum stuttermabol. Ég baðst auðvitað afsökunar og gekk áleiðis til vina minna sem stóðu skellihlæjandi hjá.
Sástu ekki hver þetta var spurðu þau.
Nei, svaraði ég, hver var þetta?
Keith Richards.
Keith Richards? Hver er það?
Keith Richards í Rolling Stones, er ekki í lagi með þig?
Ákaflega skemmtileg viðkynning það.
Á Heathrow-flugvelli, þar sem fræga fólkið heldur greinilega til, heilsaði ég fyrir um það bil tveimur árum manni með virktum sem ég var viss um að ég nauðaþekkti. Hann tók fremur vingjarnlega undir kveðju mína en áður en ég spurði hann um líðan fjölskyldu hans rann upp fyrir mér ljós.
Ég þekkti manninn alls ekki neitt. Þetta var Ghandi eða leikarinn Ben Kingsley. Heldur svona pínlegt.
Í brúðkaupi í Bretlandi hitti ég stórstjörnuna Hugh Grant. Ég stóð við barinn. Hann spurði á mjög uppskrúfaðri ensku:
Would you happen to know where the little boys rooms are? Eða... "Vill nokkuð svo vel til að þú vitir hvar litlu drengirnir pissa?"
Ég sagði honum það. Hann kom að vörmu spori og bauð mér af enskri kurteisi upp á hvítvínsglas. Ég afþakkaði, en með okkur tókst örstutt spjall. Ég var af einhverjum sökum í hnýflótta horninu mínu og ég fæ enn þann dag í dag bjánahroll þegar ég rifja upp eftirfarandi samtal.
Hugh spurði mig hvort ég væri vinkona brúðarinnar og ég jánkaði því og spurði hann á móti hvað hann gerði.
Hann varð hálfhvumsa og svaraði vandræðalega.
Ég... ég... er leikari.
Já, er það virkilega, svaraði ég og þagði en ákvað síðan að bæta gráu ofan á svart.
Og í hverju hefur þú leikið?