Ég er að læra á bíl. Á gamals aldri. Nokkuð sem ég hélt að ég myndi komast hjá að gera. Ég var búin að sjá fyrir mér grafskriftina "Hún fór í gegnum lífið á fæti, blessuð sé minning hennar" og þar fyrir neðan skrautritað Umferðarráð.
Ég er að læra á bíl. Á gamals aldri. Nokkuð sem ég hélt að ég myndi komast hjá að gera. Ég var búin að sjá fyrir mér grafskriftina "Hún fór í gegnum lífið á fæti, blessuð sé minning hennar" og þar fyrir neðan skrautritað Umferðarráð.
Fyrir þessu bílprófsleysi eru margar ástæður mis haldbærar. Ég hef mikla samúð með samborgurum mínum þar sem ég er fremur viðutan og hef alltaf verið sannfærð um að ég yrði afleitur bílstjóri.
Ég byrjaði nú reyndar í bílatímum að sumarlagi einhvern tíma fyrir tvítugt en hætti nær samstundis því mér fannst það svo óskaplega leiðinlegt. Ég sótti tíma hjá hálfgerðri goðsögn í bílakennarabransanum. Virðulegur maður komin af léttasta skeiði. Tímarnir gengu nú helst út á það að keyra hann eitt og annað. Í banka, á pósthús og bíða fyrir utan Kaffivagninn meðan hann sporðrenndi kaffibolla með félögum sínum.
Mér fannst heldur illa farið með minn tíma og fannst honum betur varið á Austurvelli þar sem ég gat skoðað sæta stráka. Mér er einn sérstaklega minnisstæður. Ákaflega fríður strákur sem seldi Dagblaðið. Einhver hafði sagt við hann að hann væri svo sætur þegar hann svæfi þannig að á Austurvelli svaf hann á bekk heilt sumar og leyfði öllum sem vildu að njóta fegurðar sinnar.
Ég þurfti bara aldrei á bíl að halda. Átti góða að. Barnfóstru sem komst hraðar en allir aðrir og lét umferðarreglur og reykvískt gatnakerfi í engu aftra sér að komast leiðar sinnar. Ég ferðaðist líka mikið með Hreyfli. Lét þá jafnvel koma með mér í matarbúðina ef því var að skipta. Miklu þægilegra að vera á leigubílum. Koma inn í heitan bíl hvernig sem viðraði. Fá að kíkja í blöðin. Fá fyrstu fréttir af mönnum og málefnum. Þurfa aldrei að fara og setja bensín á bílinn eða skipta um dekk. Leigubílstjórar rata líka út um allt og keyra mann út á land ef því er að skipta og ef maður á pening. Ég hef líka fengið uppskriftir af sósum í leigubílum. Einstök þjónusta.
Löngu síðar byrjaði ég öðru sinni í bílatímum og nú hjá alveg frábærum kennara. Ég var komin langleiðina með að ganga með annan lögerfingjann, komin í barneignarleyfi og hafði nægan tíma til að læra. Mér fannst þetta allt vera að koma hjá mér en ég átti þó afskaplega erfitt með að bakka. Kennarinn minn hvatti mig til að fara í verklega prófið áður en ég yrði léttari því þá yrði tekið tillit til ástands mín og fram hjá því litið hversu mikill klaufi ég væri. Barnið kom áður en ég náði að fara í prófið þannig að ég er eftir sem áður bílprófslaus.
Hér í Los Angeles er ekki gert ráð fyrir öðru en að fólk keyri. Hér sjást varla gangandi vegfarendur enda hvergi ummerki um gangbrautir eða að minnsta kosti eru þær ákaflega sjaldséðar. Í sumum betri hverfum borgarinnar er maður hreinlega stoppaður ef maður leyfir sér að ganga spölkorn og spurður hvað maður sé að vilja upp á dekk. Almenningssamgöngur eru líka með allra slakasta móti, ófullburðugt lestarkerfi og ferðalög með almenningsvögnum með þvílíkum endemum að þau eru síst fyrir þá sem vilja komast leiðar sinnar. Ég átti engra kosta völ.
Ég hringdi í bílaskóla og var spurð hvort ég væri eldri en átján ára. Ég svaraði því að ég væri tvisvar átján ára og var þá tjáð að ég þyrfti ekki að taka bílatíma. Hvaða bull er nú það! Er það að keyra bíl eitthvað sem lærist ósjálfrátt með aldrinum? Ég hváði og sagði "en það er fáránlegt". Bílaskólasímadaman tók fálega undir og sagði "svona eru lögin, þú getur bara farið í prófið". Ég hélt áfram. "En get ég ekki fengið að taka bílatíma?" "Viltu það?" spurði daman eins og hálf hissa og endurtók "en þú þarft það ekki".
Ég sá mig í anda fara út á hraðbrautina á háannatíma og grafskriftina sem yrði þá á leiðinu mínu sem ég ætla ekki að birta hér.
"Ég ætla að fá 15 tíma," sagði ég að lokum og fyrirframgreiddi þá í gegnum símann.