Það er ekki fyrr en í kringum 1840 að siðurinn berst til Bandaríkjanna með írskum innflytjendum. Í þá daga fólust hrekkirnir víst helst í því að velta við útihúsum og opna hlið nágrannannabænda svo þeir misstu skepnur sínar út um allt.
En nú er þetta stærri iðnaður en sjálf jólin. Við fórum í hrekkjavökubúð eftir fortölur dætranna. Og misstum okkur. Leðurblökuljósaseríur, beinagrindur og fljúgandi draugar prýða nú húsið okkar, öllum til ómældrar ánægju og reyndar líka nokkurrar skelfingar. Svo var þetta líka svo ódýrt. Fyrir andvirði einnar jólaseríu á Íslandi gat ég keypt vampírubúninga á alla fjölskylduna. Þá meina ég tennur, kufla, gerviblóð, allan pakkann.
Fyrir utan að vera gósentíð verslunarmanna er þetta líka uppskeruhátíð. Hausti lokið og ástæða til að gleðjast yfir gjöfulu sumri. Okkur var boðið í graskersskurðarpartí og fórum því á graskerssölu. Þetta var virkileg amerísk sveitastemmning. Tilheyrandi heybaggar og ilmandi grillaðir kornstönglar á boðstólum. Það reyndist þrautin þyngri að velja sér grasker því þau eru eins og mannfólkið hvert með sitt svipmót. Ég heyrði konur velta vöngum yfir lit og sköpulagi þessara undarlegu ávaxta. Hvernig grasker á ég nú að vera með í ár? Já það er ekki vandalaust að velja.
En yfir í aðra sálma.
Við skruppum á enskan pöbb sem er í hverfinu. Eins breskur og þeir gerast, teppi á gólfum og enskur bjór á krana. Konu einni sauðdrukkinni var vísað vingjarnlega á dyr af vertinum. Hún gerði sér lítið fyrir og skellti sér í jörðina fyrir utan grindverkið og vildi meina að karlinn hefði hrint sér. Enginn viðstaddra hafði þó orðið vitni að því. Hún lá á stéttinni og spangólaði þar til um hana hafði safnast hópur manna. Hún heimtaði að það yrði kallað á sjúkrabíl. Hún virtist nú samt nokkuð ánægð með athyglina sem hún fékk og ekki leið á löngu þar til hún var búin að hagræða sér á stéttinni á afar djarfan hátt og farin að brosa daðurslega framan í vildarmenn sína sem stumruðu yfir henni. Ekki var á þessari stundu ljóst hvort hún vildi sjúkrarúm eða samfarir.
Nú renndi í hlaðið brunabíll og út stukku tveir slökkviliðsmenn í fullum skrúða. Mér var hulið hvers vegna brunaliðið var komið á staðinn því ekki stóð konan í ljósum logum, þótt undir niðri kraumaði augljóslega óhamin ástríða. Þeir gerðu sér lítið fyrir og skelltu kvenbelgnum í lóðréttri stöðu í stólgrind ekki óáþekka þeirri sem mannætan Hannibal Lecter var fluttur í á milli fylkja. Síðan var henni rúllað á stólnum inn í bílinn að aftanverðu og undir þessu þandi konan raddböndin. Annar brunakallanna kom út og setti upp gúmmíhanska og fór aftur inn í bílinn, og þá fyrst þögnuðu lömbin.
Fyrir þetta þarf veslings konan eflaust að borga talsverðar upphæðir því þjónusta af þessu taginu er nú ekki gefins í henni Ameríku. Ég tala nú ekki um ef hún hefur verið færð á slysadeildina til skoðunar.
Þetta fyllerí gæti því reynst henni dýrkeypt spaug. Happí Halló-vín!