Út um hótelgluggann horfi ég yfir heilmikið byggingarsvæði. Hér er verið að reisa háhýsi við hlið Marriott hótelsins í hjarta borgarinnar. Þegar ég kom hingað í fyrradag voru hæðirnar fimmtán. Í dag eru þær orðnar sautján. Húsið rís á ógnarhraða. Ætli verði hlaupið svona til verka þegar kemur að uppbyggingu New Orleansborgar?
Eftir að hafa skoðað Toronto á korti nokkra stund varð hverfið Entertainment District fyrir valinu. Í nafninu felast vissulega fyrirheit um skemmtilegheit.
Og af stað hélt ég með kortið límt á nefinu. Í þessu hverfi reyndist mjög gaman að rölta um. Litlar búðir sem selja föt ungra hönnuða, smávörubúðir allskonar og litlir barir og veitingastaðir. Eftir svolítið bæjarrölt er ég samt engu nær um það hvers konar borg Toronto er. Við fyrstu kynni virðist hún bæði evrópsk og bandarísk. Einhver blanda af þessu tvennu. Mjög ruglandi.
Það er óvenju heitt í borginni um þessar mundir og það kom mér á óvart hversu mikill raki er í loftinu. Hálfgert hitabeltisloftslag. Ég er með heimþrá. Ekki er það Ísland heldur Los Angeles sem ég sakna. Þar er óvenju kalt um þessar mundir, aðeins fimmtán gráður.
Í síðustu viku byrjaði dóttir mín í skóla. Það var merkilegt að lesa skólareglurnar sem fylgdu barninu heim að loknum fyrsta skóladegi. Bannað að koma vopnaður í skólann! Fjarri íslenskum raunveruleika en því miður ekki að ástæðulausu hér.
Í Bandaríkjunum hefur það því miður gerst allt of oft að börn séu vopnuð og hafi slasað og jafnvel drepið skólafélaga sína..
Heilmikill pési fylgdi líka um kynferðislegt ofbeldi og á fyrsta skóladegi eru allir nemendur kallaðir á sal þar sem ýtarlega var rætt um kynferðislegt áreiti og ofbeldi af ýmsu tagi.
Þar var það vandlega útskýrt fyrir börnunum hvernig þau ættu að bregðast við ef þau lentu í slíkum aðstæðum. Þetta finnst mér alveg hreint frábært. Auðvitað á að tala opinskátt við börn um þessa hluti, ekkert hálfkák takk fyrir.
Í kringum skólann er fjögurra metra hátt rammgert járngrindverk. Börnum er hleypt inn á skólalóðina til klukkan átta, eftir það er hliðinu læst og enginn fær inngöngu fyrr en kennslu lýkur síðdegis. Enginn fær að koma inn á skólalóðina meðan á kennslu stendur án þess að gera vandlega boð á undan sér og gera grein fyrir ferðum sínum.
Allt er þetta af öryggisástæðum. Í þessu samhengi rifjast upp fyrir mér að það er nú ekki langt síðan á Íslandi að karlmaður narraði stúlkubarn upp í bílinn sinn þar sem hún var á leið heim úr skóla. Börnin í skólanum mega heldur ekki fara af lóðinni með hverjum sem er. Aðeins foreldrar eða forráðamenn mega sækja barnið og svo má gefa upp einn annan aðila sem hefur heimild til að sækja ef nauðsyn krefur.
Það er brottrekstrarsök að gera grín eða hæðast að öðrum vegna útlits, kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar foreldra. Þetta er auðvitað grundvallaratriði í 900 barna skóla þar sem ægir saman börnum frá yfir 30 þjóðlöndum. Enska er móðurmál aðeins ríflega þrjátíu prósenta nemenda. Í frímínútum eru skipulagðir leikir sem stjórnað er af kennurum og enginn kemst undan því að taka þátt í þeim. Nú skulu allir leika sér saman hvað sem það kostar. Ekkert svigrúm til þess að rotta sig saman í litlum hópum og skilja útundan. Við þurfum nefnilega öll að læra að lifa og leika okkur saman. Það er kúnst að lifa í þessu samfélagi sem veröldin er. Þar sem íkornarnir finnast jafnt brúnir og svartir.