Walt Disney og uppeldið

Einhverju áður en frumkvöðullinn Walt Disney lagðist í frysti, var hann spurður hvaðan hugmyndin um Disneyland hefði sprottið. Hann svaraði því svo til að honum hefði fundist brýnt að byggja skemmtigarð þar sem börn og foreldrar gætu skemmt sér saman. Hann átti sér draum um að koma á laggirnar skemmtilegasta stað í heimi. Ekki vandalítið verk. Snemma á fimmta áratugnum tæpum 15 árum fyrir opnun Skemmtigarðsins fóru að heyrast háværar raddir frá yngri kynslóðinni. Hvar á Mikki heima? Ég vil hitta Mjallhvíti! Walt Disney áleit að börnum fyndist heldur tilkomulítið að sjá teiknara að störfum. En sú tilhugsun að geta skapað heim þar sem börn gátu hitt sínar eftirlætis teiknimyndapersónur var eitthvað sem hann gat ímyndað sér að myndi slá í gegn. Hann segir þannig frá því sjálfur að illa hafi gengið að fá fjárfesta til liðs við sig, kannski sökum þess að draumar hans þóttu óframkvæmanlegir, óraunhæfir. Hann veðsetti sig og þá sem næstir honum stóðu og framhaldið vitum við. Skemmtigarðar reknir undir merkjum Disney hafa slegið í gegn um allan heim. 17. júlí 1955 var garðurinn opnaður með pomp og prakt hér í Anaheim í Kaliforníu. Sá dagur er í Disney-sögunni kallaður Svarti sunnudagurinn og ekki að ástæðulausu. Fimmtán þúsund manns var boðið á opnunina en allt að 300.000 manns mættu. Mikil umferðarteppa skapaðist með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Alvarlegur gasleki kom upp í Fantasíulandi svo því varð að loka. Nýlagt malbikið á götum Disneylands bráðnaði í hitanum svo fínar frúr misstu af sér hæla og heilu skóna ofaní mjúka svarta leðjuna. Úrskurður óánægðra boðsgesta var eitthvað á þessa leið að garðurinn væri illa skipulagður og svo væri þetta allt of dýrt. Innan sjö vikna höfðu milljón manns heimsótt garðinn. Við fórum í Disneygarðinn um helgina. Á Netinu má finna alls kyns ráðleggingar um það hvenær best sé að fara. Á hvaða árstíma og þessháttar. Allskyns lestrarefni um það hvernig eigi að haga sér í biðröðum og hvernig eigi að gera biðraðir ánægjulegar, jafnvel eftirsóknarverðar. Og þar sem við erum Íslendingar tókum við þetta sérstaklega til okkar.

Því Íslendingar eru umfram aðrar þjóðir illa að sér í biðröðum. Þeir kunna ekki að fara í biðröð.

Ég verð alltaf töluvert kvíðin þegar heimsækja á skemmtigarða af þessu tagi. Sérstaklega þegar ég fann á Netinu tölfræði um þann fjölda gesta sem fer í gegnum garðinn á degi hverjum. Þar sem ég er svo léleg í stærðfræði reiknaði ég fyrst út að í kringum 360 þúsund manns heimsæktu garðinn daglega. Að fyrirhitta alla íslensku þjóðina og rúmlega það fannst mér vægast sagt hræðileg tilhugsun. Það reyndist töluverður vegur frá því rétta því talið er að garðurinn dragi til sín allt að 60 þúsund manns á degi hverjum. Alveg nóg samt.

Ekki ólíkt þeim fjölda sem Menningarnótt dregur til sín. Það sem kom mér kannski mest á óvart, var hvað allur þessi fjöldi fólks gekk vel um. Allt var tandurhreint. Hvergi umbúðadrasl, tyggjó eða sígarettustubbar. Hvernig stendur á þessu? 17. júní í Reykjavík og á Menningarnótt er maður farin að vaða drasl í ökkla um kvöldmatarleytið.

Fólk sleppir pulsubréfum og gosdósum bara þar sem það stendur. Börn hrækja úr sér tyggigúmmíinu eins og pabbi og mamma. Beint á götuna. Eins og það haldi að draslið muni gufa upp af yfirborði jarðar. Hvers konar virðingarleysi er þetta?

Svo er það framkoma í margmenni. Í Disneylandi ryðst enginn. Fólk er ekkert að olnboga sig áfram með frekju og yfirgangi. Þetta gengur bara eins og vel smurð vél, hvergi árekstrar.

Ekki er þetta fólk allt svona vel upp alið? Eða hvað? Skemmtilegasti staður í heimi kom mér verulega á óvart. Þetta var bara býsna skemmtilegt. Rosalegar skrautsýningar í tilefni 50 ára afmælis garðsins. Ákaflega tilkomumikið og vel gert. Og þúsundir brosandi barnsandlita. Ekki leiðinlegur félagsskapur það.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband