Svo eru allir með eins tennur, bláhvítar, þráðbeinar. Stinnir kúlurassar á sextugum konum er síður en svo sjaldgæf sjón. Kúlurassar eru þó ekki beinlínis einkennismerki Bandaríkjamanna heldur miklu frekar hamborgararassinn heimskunni sem verður strax á vegi manns um leið og borgarmörkunum sleppir. Þá fer maður nú heldur betur að kannast við sig. Vaxtarlag sem á sér engan líka. Þegar maður stendur sjálfan sig að því að vera farinn að góna á fólk og vera kjaftstopp vegna þess hvernig það er vaxið er nú fokið í flest skjól. Allir mannasiðir hverfa eins og dögg fyrir sólu og maður getur ekki haft augun af óhaminni líkamsfitu sem gengur fáklædd um strendur Kaliforníu. Að Íslendingar séu feitir er bara bull. Ég hef aldrei séð feita manneskju fyrr en hér. Aldrei. Ekki svona.
Nema hvað, við bókuðum okkur inn á vegahótel sem er miðja vegu milli Los Angeles og San Francisco rétt utan þjóðvegar 101, nánar tiltekið í San Luis Obispo. Vel staðsett ef einhver þarf á gististað á þessari leið að halda. Hótelið heitir Madonna Inn og er löngu orðið frægt í Kaliforníu og ekki að ástæðulausu.
Hótelið er svo yfirmáta smekklaust að í villtustu draumum mínum hefði ég ekki getað látið mér detta annað eins í hug. Það er allt bleikt! Matsalurinn er allur í bleikum bólstruðum básum, skreyttur með jólaseríum og gerviblómum. Barinn er líka bleikur og þar fékk dóttir mín bleikan kokkteil sem heitir Shirley Temple. Öll herbergin eru skreytt á ólíkan hátt eftir viðfangsefnum. Þar er að finna Hellisbúaherbergi, herbergi sem ber heitið Asísk fantasía, Bufflaherbergi þar sem uppstoppaður buffall fylgir og svona mætti lengi telja. Við gistum t.d. í "The Pony Room", herbergi sem er allt rauðmálað með gegnumgangandi hestaþema í gardínum, rúmfatnaði og skrautmunum. Fyrir börn er þetta náttúrlega æðislegt. Einhvers konar barnabókaævintýraheimur ljóslifandi kominn. En ljótt er það. Alveg hræðilega ljótt. Hr. Madonna, byggingaverktakanum sem byggði þetta hótel fyrir konu sína, tókst ætlunarverk sitt. Að byggja svo ævintýralega innréttað hótel að enginn gæti leikið það eftir. Og þau eru ekkert slor portrettin af þeim Madonna-hjónum sem drottna í anddyrinu. Þar sitja þau prúðbúin, skælbrosandi. Hún að sjálfsögðu í bleiku og með harmonikku í fanginu. Ég staldraði við stutta stund til að velta henni fyrir mér. Enda forvitnilegt að sjá konuna sem fékk að láta sköpunargleði sína njóta sín með svo hömlulausum og smekklausum hætti. Hefði sennilega verið álitin kolklikkuð hefði hún fæðst uppi á Íslandi. Í Kaliforníu er pláss fyrir allt og ekkert þykir skrýtið. Þar er allt svo skrýtið fyrir. Gamall barþjónn sagði mér að frú Madonna hefði oft á árum áður gripið í nikkuna og skemmt gestum með gömlum dægurlögum. Leiðinlegt að missa af því! Til gamans: www.madonnainn.com'
'2005-0807