Ef ég væri fiskur

Að fæða í vatni er kostur sem mörgum konum þykir ákjósanlegur. Ætla sumir að það lini þær þjáningar sem því fylgja að eiga barn. Er þá konum boðið í þar til gerðar fæðingarkerlaugar sem jafnvel má fá heimsendar ef pláss og einbeittur vilji er fyrir hendi. Ég á börn og var mér kynntur þessi valmöguleiki þegar ég gekk með. Ég ræddi þetta við gamalreynda ljósmóður sem sagði mér umbúðalaust sína skoðun á þessu: "Þetta myndi ég aldrei ráðleggja nokkurri konu sem gengur með barn, öðru máli gegnir ef konan gengur með fisk." Allt um það.

Á dögunum álpaðist ég inn í kóreska heilsulind í hverfi í Los Angeles sem heitir einfaldlega Litla-Kórea. Stíllinn er einfaldur, fábrotinn. Búningsklefar með læstum skápum þar sem bíða manns hagkaupssloppar og handklæði. Mér var skipað úr öllum fötunum og leidd af vinalegri eldri konu inn í stóran baðsal. Þar gat að líta fjöldann allan af konum sem ýmist sátu eða stóðu og þvoðu sér af miklum krafti. Flestar Kóreukvennanna sátu á hækjum sér og virtust geta setið svoleiðis svo tímunum skiptir. Eftir nokkrar mínútur á hækjum mér er ég komin með skelfilegan sinadrátt og þarf helst að biðja einhvern nærstaddan að hrinda mér til annarrar hliðar ef ég á að geta sest upp aftur. Allslags kerböð eru til staðar. Sjóðandi heit og ísköld. Þarna var líka hægt að leggja sig í jurtate sem Kóreukonur telja allra meina bót. Blautgufur, þurrgufur, súrefnisgufur, jú neim it!

Þarna virðist tíminn standa í stað. Stemmningin er yfirmáta róleg, konurnar spjalla saman, þvo hárið og bakið hver á annarri og ef sígur á þær svefn pakka þær sér inn í handklæðin og leggjast til svefns á upphituðu jaði-gólfi. Eftir að ég hafði sturtað mig og svamlað í laugum og gufum á víxl var númerið á skápnum mínum kallað upp og ég í annað sinn leidd, en í þetta sinn inn á meðferðarsvæðið. Þar var ég lögð á grúfu upp á bekk. Kona um fimmtugt í svörtum brjóstahaldara og ósamstæðum svörtum nærbuxum sem náðu henni næstum upp á brjóst byrjaði á því að hella yfir mig vatni margendurtekið úr stærðarfanti. Síðan skrúbbaði hún mig hátt og lágt með grófum hönskum. Þetta voru engin vettlingatök, hröð, örugg handtök. Enginn blettur á líkamanum skilinn eftir og þegar hún hvítskúraði á mér eyrun var ekki laust við að mér fyndist ég aftur vera orðin barn. Minnist þess alla vega ekki að mér hafi verið þvegið jafn ýtarlega bak við eyrun síðastliðin þrjátíu ár. Síðan tók við áhrifamikið nudd með heitum olíum og bökstrum með sjóðandi vatni. Hársvörðurinn nuddaður með piparmyntu og andlitið burstað, nuddað, strokið. Og alltaf með reglulegu millibili skolað af manni með heitu vatni. Þetta var náttúrulega ólýsanlega gott og um tíma hélt ég að ég væri hreinlega á leið til himna, því þar ku svo dásamlegt að vera.

Eftir klukkustundar meðferð og þegar ég hélt að sælan væri úti tók við þurrkun. Sú svartklædda háttgyrta tók nú til við að þurrka mig með sjóðheitum handklæðum. Ég leyfði mér að opna augun og brá mér heldur þegar ég sá hvar önnur starfsstúlkan stóð við hlið hennar og mataði hana á dýrindis kóreskum mat meðan hún átti við mig. Ekki skiptust þær á orðum og ekki virtist það trufla handbragðið að hún mataðist á meðan. Að endingu, eftir að hún hafði þurrkað mig alla og nuddað inn í húðina krem, pakkaði hún mér eins og barni inn í handklæði og slopp. Sagði síðan við mig ákveðin: "No shower"... Ekki sturtu... og ég drafaði í vellíðunarvímu: "No shower? Never? Aldrei?

Hún hló og sagði: Jú auðvitað, bara ekki í dag. Á morgun.

Þegar ég gekk út í ljósaskiptunum var ekki laust við að mér fyndist ég vera endurborin. Það er kannski ekki svo slæmt að fæðast í vatni eftir allt.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband