28.5.2007 | 23:42
Læknaklám 2. kafli
Í fyrsta kafla kynntumst við lítillega Guðbrandi lækni og Svanhvíti skurðhjúkrunnarkonu.
Mér var bent á af bloggsystur minni Evu Þorsteinsdóttur að betur mætti ef duga skyldi og því held ég áfram með ráðleggingar hennar að leiðarljósi.
Á vakt-inni.
2. kapítuli
Svanhvít skurðhjúkrunarkona gekk hröðum skrefum eftir ganginum og vatt sér inn í lín herbergið.
Skurðaðgerðin hafði heppnast vel og aldraði embættismaðurinn var nú á batavegi. Hann sat nú í rúmi sínu og sötraði sykurvatn í gegnum plaströr.
Svanhvít var hinsvegar sárþjáð. Hún gat ekki hætt að hugsa um Guðbrand hvernig sem hún reyndi.
Hún var nú gersamlega á valdi þessa færa skurðlæknis sem daglega bjargaði mannslífum jafn auðveldlega og að drekka vatn.
Svanhvít lokaði á eftir sér og á augabragði afklæddist hún og lagðist nakin á grænyrjóttan linoleumdúkinn.
Gæsahúðin hríslaðist um líkama hennar og hún velti sér nokkra hringi á ísköldu gólfinu.
Loksins gat hún hugsað skýrt. Átti hún að segja upp? Hversu lengi myndi hún halda út þessa návist við Guðbrand?
Klossasmellir starfsystra hennar sem þrömmuðu framhjá línherberginu glumdu í eyrum hennar og töfðu úrvinnslu hugsana hennar.
Í aðra röndina skammaðist hún sín fyrir óþreyjufullar langanir sínar í garð Guðbrandar.
Hún skammaðist sín óttalega og eitthvað sagði henni að hún þyrfti að bægja þessum löngunum frá sér með valdi. Línherbergið var hillulagt í hólf og gólf. Drifhvítur spítalafatnaðurinn lá samanbrotinn og beið þess að umfaðma nýinnskrifaða fársjúka einstaklinga sem þurftu á skjóli að halda í veikindum sínum.
Í efstu hillu ofan við sokkastaflana rak hún augun í snæriskefli sem bókstaflega hrópaði til hennar.
Þarna var lausnin komin.
Hún teygði sig eftir keflinu og byrjaði að vinda ofan af því. Hún bjó til lykkju á enda snærisins og brá henni utan um hillufót. Hún greip í flýti sokkapar og tróð því upp í munninn á sér.
Að því búnu vafði hún snærinu listilega um líkama sinn og hillufæturnar og að síðustu reyrði hún sig þar til hún gat sig hvergi hreyft.
Hún líktist helst Gúllíver í Putalandi þar sem hún lá stöguð niður á köldu gólfinu.
Órarnir helltust yfir hana og hún sá fyrir sér her dvergvaxinna karlmanna sem kepptust við að losa hana úr prísundinni.
þessar hugsanir voru svo magnþrungnar að Svanhvít missti meðvitund eitt augnablik.
Skyndilega var hurðinni hrundið upp og inn gekk Guðbrandur í allri sinni dýrð.
Á þeirri stundu hrundi veröld Svanhvítar.
Hvernig átti hún að útskýra það sem fyrir augu Guðbrandar bar?
Hún leitaði í orðabók síns aðþrengda huga en allt kom fyrir ekki.
Það var eins og tungumálið hefði verið hrifsað frá henni. Hún lá bara eins og flóttamaður í varnarleysi sínu landlaus og mállaus. Ekki bætti úr skák að sokkaparið fyllti enn munn hennar.
Guðbrandur af sinni alkunnu fagmennsku lét ekki á sér sjá að sér væri brugðið þrátt fyrir að þetta væru vissulega óvenjulegar kringumstæður. Svanhvít hafði réttri stundu áður staðið við hlið hans þar sem hann fjarlægði lófastóran fæðingarblett af baki ungrar verkakonu.
Guðbrandur læddi hendi í brjóstvasa sinn og tók upp gyllta öskju. Askjan var gjöf frá starfsfélögum hans. Í henni geymdi hann eftirlætis skurðhnífinn sinn. Þessi fínlegi hnífur veitti honum ótrúlegt sjálfsöryggi því með hárbeittu fínlegu blaðinu hafði hann endurtekið fjarlægt mein og meinvörp úr helsjúkum líkömum og fyrir vikið gefið fólki annað tækifæri til heilbrigðs lífs.
Þegjandi og hljóðalaust skar hann Svanhvíti lausa. Hann varaðist að mæta augnaráði hennar.
Þjáðist þessi elskulega samstarfskona virkilega svona hans vegna?
Guðbrandur vissi vel hvað hér var á ferðinni. Hann þekkti sjúkdómseinkennin allt of vel.
Svanhvít var því miður ekki fyrsta konan sem hafði sturlast af hans völdum.
.
Athugasemdir
Hahahahaha........ þetta er allt að koma, bráðskemmtileg lesning....... bíð spennt eftir 3. kapítula ;)
Eva Þorsteinsdóttir, 28.5.2007 kl. 23:47
Nú magnast dramað- hvað er næsta skref Guðbrands?
María Kristjánsdóttir, 29.5.2007 kl. 07:14
Meira, meira!!
Ragnhildur Sverrisdóttir, 29.5.2007 kl. 11:46
Guðbrandur - dýrlega rómantískt nafn! Er ekki líka eitthvað að frétta af ástaraunum Járngerðar Brynju sjúkraliða og Guttorms svæfingarlæknis?
Hlynur Þór Magnússon, 29.5.2007 kl. 14:35
Er þetta upp úr Rauðu Ástarsögunum??
Ásdís Sigurðardóttir, 29.5.2007 kl. 22:02
Sæll Erlingur,
varðandi spurningu þína er ég ekki með verðlista spítalanna hér í LA á reiðum höndum.
Það kostar hinsvegar í kringum 20.000 dollara að eignast hér barn.
Ef þú ert að hugsa um lýtalækningar bendi ég þér á síðu www.awfulplasticsurgery.com
víti til varnaðar
kk
Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, 29.5.2007 kl. 22:48
He he he..... góð spurning hjá Erling miðað við kringumstæður Þ.e.a.s. læknaklámið, er örugglega alveg æstur í að láta leggja sig inn!
Annars sýnist mér þetta vera að renna ansi ljúft í landann og ekki langt í að Ellý falli af toppnum? það er bara eitthvað við lækna og sjúkrahús.......... ;)
Eva Þorsteinsdóttir, 29.5.2007 kl. 23:38
Satt er það...það eru ekki miklir peningar fyrir það kraftaverk sem það væri ef þú eignaðist barn...Nú eru að vísu hálfsjötugar kerlingar að fæða börn þannig að hver veit?
En Erlingur....hér í LA eru allir leikarar...þannig að...hvað áttu við?
Ég þykist til dæmis alltaf vera tannlæknir eða flugvirki ef ég er spurð.... allt eftir því hvernig liggur á mér....fólk einhvernveginn spyr einskis frekar sem er kostur...
mér dettur ekki í hug að segjast vera leikkona að mennt það er svo óbærilega óspennandi í þessum kringumstæðum
Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, 30.5.2007 kl. 00:59
Ég bíð spennt eftir næsta kafla
Supergirl, 1.6.2007 kl. 16:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.