24.5.2007 | 22:20
Læknaklám 1. kafli
Mér sýnist ljósbláar sögur njóta hvað mestra vinsælda hér á vefnum og því legg ég af stað með sögu sem ber heitið ,,Á vakt-inni"
Ég lofa nú engu um framhaldið en hér kemur fyrsti kafli.
Á Vaktinni
1. Kapítuli
Guðbrandur læknir þvoði sér vandlega um hendurnar með mildri sótthreinsandi sápu og leyfði sér að kasta mæðinni. Átta hjartaþræðingar voru að baki og þó var klukkan rétt að ganga ellefu.
Hann fann þó ekki beinlínis fyrir þreytu heldur fremur fyrir ólýsanlegri vellíðan.
Hann var frábær læknir. Það vissi hann.
Aðdáun skein úr andlitum allra þessara fársjúku kvenna og manna sem hann stundaði af þeirri nærgætni sem fólk að öllu jöfnu sýnir aðeins sínum nánustu.
Réttu mér hnífinn sagði Guðbrandur læknir við Svanhvíti skurðhjúkrunarkonu og skotraði augunum í átt að glugganum. Það var óvenju heitt í veðri og að auki hafði um nokkurt skeið verið hálfgert ólag á loftræstikerfi spítalans. Því var óvenju mollulegt á skurðstofunni þó allir gluggar væru opnir.
Græni skurðsloppurinn loddi þétt upp að líkamanum og það leyndi sér ekki að Gubbi eins og hann var gjarnan kallaður var einstaklega vel á sig kominn í vöðvafræðilegum skilningi.
Svanhvít skurðhjúkrunnarkona rétti hnífinn yfir sjúklinginn sem var aldraður embættismaður og lá sofandi kviknakinn á skurðborðinu.
Guðbrandur hafði aldrei áður veitt því eftirtekt hversu smáhent Svanhvít var.
Latexhanskarnir hreinlega gleyptu þessar fínlegu fingur og kjúkur. Þær eru hreint listaverk þessar hendur hugsaði Guðbrandur með sér um leið og hann tók við hnífnum úr hendi hennar. Á þeirri stundu hvarflaði að honum að gaman væri að svæfa Svandísi og gera að henni.
Hann hló með sjáfum sér að þessari hugsun og sagði með mjúkri röddu:
,,Þakka þér fyrir Svan... "
,,Hvít" sagði Svanhvít og brosti álkulega. Hjartað ólmaðist í brjósti hennar og hún fann hvernig hún roðnaði upp fyrir haus og niðrá torg eins og mamma hennar var vön að taka til orða.
Hún var enn með sontuna í annari hendinni og í einhverju fáti beit hún viðvaningslega í hana. Munnvatnsframleiðsla Svanhvítar var fram úr hófi og þurfti hún því að súpa hveljur til að halda sönsum.
Hún varð að berja niður þennan óslökkvandi losta sem hún bar til Guðbrandar og því einbeitti hún sér að því að hugsa um einfættu konuna sem hún hafði séð á gangi kvöldinu áður. Lostinn vék fljótt fyrir meðaumkun í garð þeirrar einfættu og gat Svanhvít nú aftur einbeitt sér að embættismanninum.
Athugasemdir
Já, þetta er ágætis byrjun, en ég held þú verðir að bæta við þetta nokkrum graftarkýlum, kynsjúkdómum, fetisma og undirgefni.........þá myndi þetta sjálfsagt vella betur oní landannn ;)
Eva Þorsteinsdóttir, 24.5.2007 kl. 22:39
Á hvíta tjaldið með þetta, stelpa! Engin spurning. Ég fór strax að kasta í hlutverk í huganum. Prófaði Gunnar Eyjólfs og Kristbjörgu Keld ... Pálma Gests og Ragnheiði Steindórs, Alla Bergdal og Sunnu Borg, þetta svínvirkar. Jæja, krúttið mitt, vildi að ég gæti knúsað þig núna, svona frammi fyrir alheiminum en það bíður betri tækni ... Ship o' hoj!
Magga Öööö (IP-tala skráð) 25.5.2007 kl. 09:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.