Móðirin sýgur brjóst barnsins. Hver var það sem barð´ana?


Ég var að hugsa um að biðja bóndann að viðra mig svolítið í dag. Maður verður hálf ruglaður svona fyrstu vikurnar í brjóstaþokunni miklu. Mér finnst mér lítið verða úr verki nema að gefa brjóst.

Sá barn á fjórða ári rífa upp um móður sína og heimta brjóst og varð eiginlega hálf óglatt. Hún hefði rétt eins getað verið með afa sinn á brjósti.

Datt í hug ljóð sem við Margrét Örnólfsdóttir vinkona mín sömdum þegar við vorum unglingar

Móðirin sýgur brjóst barnsins.
Hver var það sem barð´ana?

Dagarnir líða einhvernveginn áfram án þess að ég taki eftir því. Furðulegt. Þessu fylgir mikið jafnaðargeð sem er óvanalegt fyrir undirritaða þar sem geðslagið einkennist nú að öllu jöfnu af sveiflum.
Stefán hafði á orði við mig um daginn ...þú ert svo stóísk að þú ert bara að verða eins og Sverrir Guðjónsson.
Fyrir þá sem ekki þekkja Sverri fer þar alveg sérlega dagfarsprúður maður enda búddisti eftir því sem ég best veit.

Annars er hugur minn þessa stundina bundinn við Franklin litla sex ára son Blöncu barnfóstru sem er um þessar mundir á hættulegu ferðalagi frá El Salvador til Los Angeles. Ólöglega að sjálfsögðu og nú hefur ekkert frést frá karlinum sem er að flytja barnið yfir í rúma tvo daga.

Blanca er að vonum skelfingu lostin og nú síðast í morgunfréttum var sýnd handtaka manns við mexíkönsku landamærin. Hann var með bílinn fullan af börnum eins og Franklin sem biðu þess að komast til mæðra sinna í Ameríku.

Maðurinn sem er að flytja Franklin yfir er þekktur í heimalandi sínu fyrir hæfni sína til að koma fólki yfir landamærin. Hann setti upphaflega upp fimmþúsund dollara fyrir að koma barninu yfir en hefur á leiðinni heimtað þrjúsund dollara til viðbótar.
það er ekki erfitt að svíða peninga út úr mæðrum í þessari aðstöðu.
Þær borga hvað sem er til að tryggja öryggi barna sinna.
Meira hvað þetta er andstyggilegt allt saman.

En nú hefur karlinn semsagt ekki látið ná í sig í rúma tvo daga. Svarar ekki símanum því númerið sem hann gaf upp síðast er ekki lengur í notkun. Hann hefur á leiðinni sífellt skipt um síma sennilega svo að erfiðara sé að henda reiður á honum. Blanca er hálf utan við sig af hræðslu.

Við drekkum kaffi og tölum saman á spænsku. Mér hefur nú farið fram að tala en þó er spænskan mín ennþá afar léleg. Blöncu virðist vera sama brosir góðlátlega að vitleysunum í mér og við látum móðann mása.
Ég reyni að stappa í hana stálinu en hef ekki erindi sem erfiði. Enda hvernig á að róa móður í þessari aðstöðu.
Hún veit ekkert hvar barnið er!

Já, ég hef það gott. Stóru stelpurnar mínar eru í skólanum, þar sem þeirra er vandlega gætt og litla barnið sefur og sefur. Ég hef ekki yfir neinu að kvarta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Æ en hræðilegt fyrir barfóstruna...vonandi heyrir hún eitthvað fljótlega. Sem móðir skil ég angistina hennar.  Viltu segja henni að ég hugsa til hennar og drengsins hennar og bið fyrir góðri útkomu???

Til hamingju með barnið...

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 29.5.2007 kl. 17:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband