21.5.2007 | 22:02
Heimaafeitrun
Þar sem ég er klafbundin með hvítvoðung og heima flestum stundum af þeim sökum gefst mér ótakmarkað ráðrými til að ráðskast með aðra fjölskyldumeðlimi.
Nú hef ég bannað sykurát um alllangt skeið og hef tekið eftir jákvæðum breytingum á geðslagi heimilismanna. Þetta var þó ekki alveg sársaukalaus afvötnun og fyrstu vikurnar var familían í mismiklu fráhvarfi.
Miðbarnið þjáðist af töluverðum svefntruflunum í fyrstu. Elsta dóttirin lagðist í þunglyndi og Stefán karl varð afspyrnu geðvondur. Ég veitti þessu enga athygli og hélt ótrauð áfram.
Verst er að finna hér í Los Angeles almennileg bakarí hvað þá bakarí sem selja sykurlaus brauð. Þau eru síður en svo á hverju strái.
Hér er því komið gullið tækifæri fyrir íslenskan snilldarbakara með amerískt atvinnuleyfi til að opna íslenskt lúxusbakarí eins og þau gerast best.
En áleggið er ekki síður martröð. Því hef ég brugðið á það ráð að búa það til sjálf. Það hlaut misgóðar undirtektir í fyrstu en ég gaf mig ekki því ég var viss um að ef ekkert annað væri á boðstólum myndu heimamenn þræla því í sig sökum hungurs.
Fyrst var að búa til hnetusmjör fyrir dæturnar. það var mér sérlega hugleikið því bæði finnst þeim það gott en kannski ekki síður að hér eru stanslausar fréttir af "contaminated peanut butter".
Ég mun hlífa viðkvæmum sálum við nákvæmum lýsingum en ráðlegg fólki þó að láta aðkeypt hnetusmjör eiga sig og búa til sitt eigið. Ég mun að minnsta kosti aldrei leggja mér búðarhnetusmjör aftur til munns nema ég verði einn daginn sérlega sólgin í skordýraeitur eða rottuskít og langi að leggjast inn á spítala.
Gott er að eiga mixer eða öfluga matvinnsluvél.
Það sem þarf í gott hnetusmjör er að sjálfsögðu góðar hnetur helst beint af hnetudýrinu.
Hráar, ósaltar og auðvitað ósykraðar. Ég geri hnetusmjör t.d. úr Cashew-hnetum, Valhnetum, salthnetum eins og þær kallast á Íslandi en auðvitað saltlausum og Pecan-hnetum. það er í raun hægt að nota hvaða hnetur sem er.
Blanda þeim saman að vild.
Ég er svo löt að ég er ekkert fyrir það að leggja þær í bleyti og afhýða þær og nota þær því beint úr pokanum.
Ég geri lítið í einu því þetta tekur enga stund og þá er engin hætta á að smjörið þráni eða skemmist.
3 kaffifantar Hnetur
Hnetur settar í mixerinn og tættar í spað.
Til að ná æskilegu viðnámi í hnetusmjörið nota ég síðan ýmist lífræna hnetuolíu, kókosmjólk eða nýkreistan appelsínusafa til að gera smjörið hæfilega þykkt. Ekkert salt og engan sykur. Það þarf ekki!
Þetta er ekki bara gott ofaná brauð því þetta er fyrirtaks ídýfa t.d. með eplum.
Svo má búa til sjóðheitt og æsandi hnetusmjör með því að bæta hvítlauk,kóríander, chili og ferskri engiferrót út í og DRUSSA því svo yfir salatið eða ofaná ristað brauð fyrir fullorðna.
Smá að lokum um hnetur...Hnetur slá á hungurtilfinningu!
eitt enn...
Marineraðar hnetur...algjört dúndur.
leggið t.d. pecan-hnetur í marineringu sem samanstendur af jómfrúarólífuolíu, anisfræum, kúmeni og pressuðum hvitlauk. Kryddið að vild og notið bara þau krydd sem ykkur lystir. Sjávarsalt og svartur pipar.
Þeta er líka hægt að gera með ferskar möndlur og alls ekkert síðra. Leyfa þessu að standa dagpart og henda síðan nokkrum ólífum saman við. Fallegt og fjarska gott!
Athugasemdir
Arg... ég er svöng. Takk fyrir pistil og velkomin á bloggið.
Jenný Anna Baldursdóttir, 21.5.2007 kl. 22:04
Þar sem allt er svo sykursætt í Ameríkunni skil ég vanda þinn vel.
Þegar ég og familían erum þar, vill yngsta dóttir mín helst lifa á fagurbláum innpökkuðum frystum Tv dinnerum fyrir krakka, með rotvörðum kjúklinganöggum og drullubrúnum búðing með sykruðum stjörnum í amerísku fánalitunum ofaná!!!!! ;)
Eva Þorsteinsdóttir, 21.5.2007 kl. 22:42
Elsku Steina mín!
Er ammeríkudvölin alveg að fara með þig, elsku barn?
Ég hjó eftir þessari setningu: "Miðbarnið þjáðist af töluverðum svefntruflunum í fyrstu. Elsta dóttirin lagðist í þunglyndi og Stefán karl varð afspyrnu geðvondur. Ég veitti þessu enga athygli og hélt ótrauð áfram."
Þegar þarna var komið lestrinum, krossaði ég mig í bak og fyrir! Hugsaði: "Þetta er Desperate Housewife!" Hún hefur tekið hlutverkið of bókstaflega House-Wife! Gift húsinu, en ekki aumingja elsku grey Stefáni Karli. Veitir því enga athygli að hann sekkur ofaní hyldjúpt geðvonskukast og dæturnar! Jesús Mía!
Steina komdu heim og afeitraðu fjölskylduna í afdalamennsku íslensk siðferðis, eins og það gerist.... verst.
þinn vinur, sem til vamms segir, ávalt...
Viðar Eggertsson, 21.5.2007 kl. 23:21
betra er að giftast húsi en húskarli...
gleymdu því ekki að þetta er húsmóðurblogg...
hef aldrei horft á þær aðþrengdu...þarf að hella mér í það á milli húsverka.
hélt það væri....Viddi er sá er til vamms segir...
xo
Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, 22.5.2007 kl. 00:07
Steina mín, það er gott að þér leiðist ekki hemmhemm!
Þarf fjölskyldan ekki að fara aftur í afeitrun eftir kökurnar hjá mér sl. laugardag?Annars verð ég að prófa uppskriftina sem bjargar hjónaböndum.
knús
sirrý jónasar (IP-tala skráð) 22.5.2007 kl. 04:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.