21.5.2007 | 00:31
Fiskur sem bjargar hjónaböndum
Ég ætla að deila með ykkur uppskrift sem bjargar hjónaböndum. Ég hef sannreynt það.
Ég get nánast leyft mér hvað sem er... ef ég í dagslok elda þennan rétt.
Og það besta við réttinn er sú staðreynd að hvaða bjáni sem er getur eldað hann. Það veit ég af eigin raun.
Vænar lúðusteikur
ferskur grænn aspas
hrísgrjón að eigin vali
Kókosmjólk í dós
kjúklingasoð
ólífuolía jómfrúar
soja
limesafi
fersk engiferrót
hvítlaukur
kóríander
sjávarsalt og svartur pipar eftir smekk
Lúðusteikur
Í marineringu/sósu þarf eftirfarandi:
4 mtsk ólífuolía
2 mtsk soja
safi úr 2 lime ( heita þær ekki límónur á íslensku?)
handfylli af kóríander
vænn biti af flysjaðri engiferrót
Smyrjið lúðusteikurnar með blöndunni og setjið í eldfast mót. Steikurnar eru síðan eldaðar við 275 gráðu hita í 12 mínútur.
Kókosgrjón
Sjóðið einn bolla af grjónum í kókosmjólk og kjúklingasoði. Skellið tveimur pressuðum hvítlauksrifjum út í og nokkrum sneiðum af engiferrót. Salt og pipar eftir smekk.
Ferskur aspas
Setjið upp vatn og látið suðuna koma upp. Aspasinn er soðinn í 4 mínútur. Hafið klakavatn í skál tilbúið til að skella aspasinum í að suðu lokinni. Þá helst hann stinnur og ferskur...
Síðast en ekki síst...
Grjónin eru sett á miðjan diskinn. Aspasinn lagður ofan á og að endingu lúðusteikin beint úr ofninum.
Afganginum af sósunni slett listrænt yfir diskinn. Opna eina góða ískalda Pinot Grigio og æpa: Matur!
Athugasemdir
Nammi....namm, virkar mjög gómsætt....að lesa!
Verð að prófa þetta við eitthvað tækifæri.....td. ef ég kaupi mér eitthvað dýrt og kallinn ætlar að fara að ybba gogg!
Eva Þorsteinsdóttir, 21.5.2007 kl. 00:47
Alveg tilvalið! Annars er ágætis húsráð að fela dýrar nýjar flíkur inn í fataskáp en passa bara að taka miðana af! Láta þær svo birtast svona eina af annarri í bland við gamlar og góðar....semsagt feida þær inn í fataskápinn svo lítið beri á.
Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, 21.5.2007 kl. 01:52
Kann þetta ráð og það virkar mjög vel......hann er alltaf jafn hissa hvað "gömlu" flíkurnar eldast helvíti vel!
Eva Þorsteinsdóttir, 21.5.2007 kl. 02:53
Velkomin á bloggið; það verður gaman að fylgjast með skrifum þínum. Mér líst vel á þessa uppskrift; líka til að bjarga saumaklúbbum, vinkonuklúbbum etc. etc.
Guðný Anna Arnþórsdóttir, 21.5.2007 kl. 21:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.